Strandveiðar fyrir suma?

Almennt hefur ríkt ánægja með strandveiðikerfið. Kerfið hefur valdið því að tiltölulega auðvelt er fyrir hvern sem er að hafa atvinnu af kjarnaatvinnugrein Íslendinga. Nú vill svo til að óánægjuraddir með nýjustu vendingar í kerfinu verða æ háværari. Allt stefnir í að lokað verði á veiðar 649 smábáta um miðjan ágúst. Það er slæmt fyrir alla en sérstaklega óréttlátt gagnvart smábátasjómönnum á Austurlandi.

Aðeins um kerfið

Í strandveiðikerfinu er landinu skipt í fjögur svæði og tilheyrir allt Austurland svæði C.
Svæði A: Eyja- og Miklaholtshreppur til Súðavíkurhrepps.
Svæði B: Strandabyggð til Grýtubakkahrepps.
Svæði C: Þingeyjarsveit til Djúpavogshrepps.
Svæði D: Sveitarfélagið Hornafjörður til Borgarbyggðar.

Strandveiðibátar mega róa mánudag – fimmtudags þ.e. fjóra daga í viku í fjóra mánuði frá maí til og með ágúst innan síns svæðis og reyna ná í 774 kg af þorski eða jafngildi 650 þorskígildiskílóa á dag. Hér áður fyrr var það svo að hvert svæði fékk úthlutað ákveðnum afla í hverjum mánuði til að tryggja sanngjarna dreifingu aflans yfir landið. Með því fyrirkomulagi æxluðust málin á C-svæði iðullega á þann veg að veiðar voru stöðvaðar í lok hvers mánaðar og útgefni aflinn fyrir svæðið í ágústmánuði dugði yfirleitt í u.þ.b. viku ef vel hét. Við þetta myndaðist óheilbrigður hvati til að róa í tvísýnum veðrum þar sem ná þyrfti sem mestum afla áður en svæðinu var lokað.

Breytingar 2018

Kerfinu var breytt 2018. Þá var ákveðið að hver bátur fengi 12 daga til að róa í hverjum mánuði og heildarstrandveiðiaflanum var ekki lengur skipt milli svæða heldur var einn heildarpottur alls aflans fyrir allt landið. Þá var Fiskistofu, en nú ráðherra, gefin heimild til að loka á veiðarnar þegar heildaraflinn kláraðist. Þessar breytingar hentuðu sjómönnum á Austurlandi vel. Vissulega var verið að fækka dögum sem hægt var að róa framan af sumri en í staðinn bættust við dagar í ágústmánuði og því fyrirséð að þessum breytingum fylgdu aukin aflaverðmæti ásamt auknu öryggi sjómanna þar sem hvati til að róa í tvísýnum veðrum minnkaði. En allt var þetta háð því að í stað þess sem menn létu frá sér fengju menn örugglega 12 daga til að róa í hverjum mánuði enda var því svo gott sem lofað af stjórnvöldum.

Kerfi fyrir A – svæði?

Á miðum stærsta hluta Norðaustur – og Austurlands er fiskgegnd með þeim hætti að fiskisæld er mest síðsumars og fram á haust. Þá er næsta víst að menn nái dagsskammtinum (774 kg) af verðmætum og vænum fiski. Síðsumars getur aflaverðmæti léttilega verið 2 – 300% meira í strandveiðiróðri heldur en í maí/júní á C-svæði þó komið sé í land með sama kílóafjölda. Fyrir betri fisk fæst betra verð. Á vestanverðu landinu er þessu hins vegar öfugt farið þ.e. að eftir því sem líður á sumarið verður aflinn verðminni og torsóttari.

Þegar þetta er skrifað, 29. júlí, hafa verið veidd rúm 9.500 tonn af 11.100 útgefnum tonnum. Á eftirfarandi myndum má sjá hvernig veiðin hefur verið það sem af er þessu sumri skv. tölum frá Fiskistofu.

eythor tafla1

eythor tafla2

eythor tafla3

Í töflunni hér að ofan má sjá að hlutur C-svæðis er verstur það sem af er sumri. Bátur á A-svæði hefur veitt að meðaltali 18,3 tonn meðan bátur á C-svæði hefur veitt um 10,6 tonn og nú þegar veiðin er farin að glæðast á C-svæðinu á að stöðva veiðarnar.

Fyrirsjáanlegt vandamál

Í ljósi atvinnuástandsins sem ríkti í landinu í vor vegna Covid-19 gátu menn vitað að ásókn yrði í strandveiðar. Stjórnvöld skýla sér nú bakvið það að bátum á veiðunum hafi fjölgað gríðarlega en á meðfylgjandi grafi má sjá að fjöldi báta er ekkert sérlega mikill í sögulegu samhengi og þegar þetta er ritað hafa 28 fleiri bátar landað í sumar en í fyrrasumar.

eythor tafla4

Í fyrrasumar kláraðist kvótinn ekki. Reyndar voru í kringum 1000 tonn eftir. Af hverju má ekki flytja strandveiðikvóta milli fiskveiðiára eins og stórútgerðirnar keppast nú við að gera í kjölfar ástandsins á mörkuðum? Ráðherra ákvað í kjölfar þess að kvótinn veiddist ekki að skerða heimildir til strandveiða um 1.000 tonn fyrir veiðarnar 2020. Viðmiðun í þorski var færð úr 11.000 tonnum í 10.000 tonn. Helsta ástæða þess að kvótinn kláraðist ekki í fyrra var vegna slæms tíðarfars í maí og júní sem gerði sjósókn erfiða sérstaklega fyrir vestan. Þetta vandamál núna var því fyrirséð hvort sem fjölgun báta hefði átt sér stað eður ei.

Aðgerðir ráðherra birtust 21. júlí, degi eftir að hægt var að skrá sig út úr kerfinu fyrir ágústmánuð (sem margir veltu fyrir sér í ljósi aðstæðna). Bætt var við 720 tonnum og þau tekin af 5,3% heildarafla sem eyrnamerktur er m.a. byggðakvóta, línuívilnun, strandveiðum o.fl. Þetta er umtalsvert minna en var eftir af strandveiðikvótanum í fyrrasumar. Kæmi undirrituðum á óvart ef sjómenn fengju fleiri en 5-7 daga á veiðum í ágúst. Þetta mun óhjákvæmilega hafa það í för með sér að sjómenn munu róa í tvísýnum veðrum þar sem vitað er að kvótinn klárast.

Hvað er til ráða?

Sé á annað borð vilji til að halda úti strandveiðikerfinu þarf að tryggja að það sé gert á sem sanngjarnastan máta. Grípa þarf til aðgerða til að tryggja öllum strandveiðibátum 12 daga alla mánuði tímabilsins og væri það undirrituðum að meinlausu ef leitað yrði út fyrir þau 5,3% heildaraflans sem eyrnamerkt eru aðgerðum til að auka byggðafestu.

Í kjölfar Covid – 19 faraldursins var útgerðum landsins heimilað að flytja 25% aflamarks yfir á næsta fiskveiðiár (1. sept. - 31. ágúst) í stað 15% áður. Þann 15. júlí voru útgerðirnar búnar að veiða 9.555 tonnum (næstum heil strandveiðivertíð) minna í ár en á sama tíma á síðasta ári. Þar hlýtur að leynast svigrúm til að auka strandveiðiaflaheimildir og tryggja veiðar út ágúst enda var loforð þess efnis helsta ástæða þess að breytingar á kerfinu 2018 voru gerðar í sátt.

Strandveiðar verða sífellt stærri þáttur atvinnulífs á Austurlandi og þá sérstaklega á Borgarfirði eystri en á þessu almanaksári hefur meiri strandveiðiafla verið landað þar í gegn en öðrum afla. Samkvæmt löndunartölum Fiskistofu má áætla að um 45 – 50 bátar hafi landað strandveiðiafla sínum í þremur höfnum tilvonandi sameinaðs sveitarfélags; á Djúpavogi, Borgarfirði og Seyðisfirði. Þó eitthvað fari lítið fyrir höfn á Héraði, enda fiskgegnd þar í meira lagi gloppótt, hefur sannanlega sést til strandveiðibáts á Borgarfjarðarmiðum merktan með heimahöfn á Egilsstöðum. Ef ekki verður gripið til varanlegra ráðstafana svo strandveiðisjómenn geti gert ráð fyrir veiðum út ágúst ár hvert er viðbúið að veiðarnar færist í auknum mæli vestur og færri og færri munu sjá sér hag í að stunda þær á Austurlandi. Er það ásættanlegt kerfi?

Strandveiðar skipta samfélagið á Austurlandi máli og viðhalda mannlífi í höfnum fjórðungsins. Undirritaður tekur því heilshugar undir áskoranir landsambands smábátasjómanna til Sjávarútvegsráðherra að tryggja strandveiðar út ágúst.

Höfundur er hreppsnefndarmaður á Borgarfirði eystri og skipar 3.sæti Austurlistans í komandi sveitarstjórnarkosningum sameinaðs sveitarfélags Borgarfjarðar eystri, Djúpavogs, Fljótsdalshéraðs og Seyðisfjarðar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar