Stærsta leiklistarhátíð Íslands
Þjóðleikur, stærsta leiklistarhátíð sem haldin hefur verið á Íslandi, opnar á morgun á Egilsstöðum. Forseti Íslands, hr. Ólafur Ragnar Grímsson hefur boðað komu sína og hyggst sækja leiksýningar morgundagsins. Katrín Jakobsdóttir, ráðherra menntamála, verður jafnframt viðstödd hina formlega opnun á morgun og sækir sýningar.
,,Það er stórkostlegt hversu Þjóðleiksverkefnið hefur gengið vel og hve margir taka þátt,“ segir Vigdís Jakobsdóttir, deildarstjóri fræðsludeildar Þjóðleikhússins. Uppskeruhátíð Þjóðleiks verður haldin á Egilsstöðum helgina 24.-26. apríl og er stærsta leiklistarhátíð sem nokkru sinni hefur verið haldin hérlendis. Þátttakendur eru á aldrinum 13-20 ára.
Þrettán leikhópar með um 200 þátttakendum eru í Þjóðleiksverkefninu. Þrjú leikverk voru frumsamin af íslenskum leikritaskáldum fyrir hópana og tók hver eitt verk til sýninga, nema einn hópur sem tók tvö verk. ,,Þjóðleikhúsið leggur fram þessi leikverk og stuðning og svo hefur hver hópur séð um sig. Við höfum verið í frábæru samstarfi við Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs, sem sér um hlutina fyrir austan,“ segir Vigdís.
27 stjórnendur hópanna sóttu helgarnámskeið hjá Þjóðleikhúsinu í haust og hittu fremsta leikhúsfólk þjóðarinnar til skrafs og ráðagerða. Annað helgarnámskeið var haldið eftir áramót fyrir leikstjóra og tæknifólk hópanna og sóttu það 36, fullorðnir og unglingar. Einnig hafa hóparnir leitað sér upplýsinga og stuðnings hjá Þjóðleikhúsinu á æfingaferli verkanna. Leikhóparnir, sem flestir eru leiklistarfélög grunnskólanna á Austurlandi en einnig sjálfstæðir leikhópar, hafa nú allir sýnt verk sín í heimabyggð.
Uppskeruhátíðin mun standa frá föstudegi til sunnudags. Hún hefst með formlegri móttöku með menntamálaráðherra, stjórnendum hópanna og Þjóðleikhússráði í Safnahúsi Austurlands og í kjölfarið formlegri setning hátíðarinnar með öllum þátttakendum utandyra. Í Sláturhúsinu verða þrjú leikhús og eitt á sviði Valaskjálfar. Ellefu sýningar verða á föstudag, þrettán á laugardag og þrjár sýningar á sunnudag. Hver hópur sýnir verk sitt tvisvar.
,,Þarna eru þrjú íslensk atvinnuleikskáld sem hafa þegar haslað sér völl í íslensku atvinnuleikhúsi. Þau fá einstakt tækifæri á hátíðinni til að sjá verk eftir sig sett upp á mismunandi vegu. Krakkarnir sem taka þátt fá frábært tækifæri til að vinna að leiksýningu og geta svo á einni helgi séð þrjár til fjórar útgáfur af sama verki. Í þessu felst svo mikið nám í leiklistarlæsi,“ segir Vigdís, sem vonar að setja megi Þjóðleik upp í öðrum landshlutum með sambærilegum árangri og hrósar samvinnu við Austfirðinga á hvert reipi. ,,Við erum vonandi búin að skapa varanleg tengsl við leikhúsfólk á Austurlandi og getum nýtt þessa miklu og góðu vinnu í Þjóðleik í fleiri landshlutum í framtíðinni.“
-----
Þjóðleikur er tilraunaverkefni sem fræðsludeild Þjóðleikhússins stendur fyrir í samstarfi við Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs og Vaxtarsamning Austurlands 2008-2009. Verkefnið nær allt frá Vopnafirði til Hafnar í Hornafirði. Þjóðleiksverkefnið er byggt á breskri fyrirmynd og miðar að því að verkja áhuga ungs fólks á leiklist og efla læsi á listformið. Einnig er markmiðið að tengja Þjóðleikhúsið á virkan hátt við landsbyggðina, miðla fagþekkingar leikhússins og styrkja íslenska leikritun.