Styðjum við öflugt íþrótta- og tómstundastarf í Múlaþingi
Ein besta leiðin í forvarnamálum barna og unglinga er gróskumikið íþrótta- og tómstundastarf. Í Múlaþingi getum við státað af fjölbreyttu og öflugu íþróttastarfi, en eðli málsins samkvæmt er það mest í stærsta byggðarkjarnanum.Þetta er einn af styrkleikum sveitarfélagsins og hefur haft áhrif á búsetuval barnafjölskyldna. Þó að mikið starf og fjölbreytni sé í stærsta kjarnanum verður að gæta þess að hlúð sé að grasrót íþróttafélaga í hverri byggð, þannig að sem flestir geti sinnt íþrótta- og tómstundastarfi við hæfi. Einnig þarf að greiða götu barna sem um langan veg þurfa að fara vegna íþrótta- og tómstundaiðkunar.
Mjög mikilvægt er að í Múlaþingi sé haldið áfram að styðja sem best við íþróttafélög og önnur samtök sem vinna að forvarnastarfi. Halda þarf áfram uppbyggingu innviða og mannvirkja sem nýtast okkur öllum. Í samstarfi við íþróttafélög þarf að móta framtíðarstefnu um uppbyggingu aðstöðu og mannvirkja í sveitarfélaginu og ná sem víðtækastri sátt um þá sýn. Ég fagna því mjög frumkvæði Íþróttafélagsins Hattar sem lagði fram metnaðarfulla sýn um framtíðaríþróttasvæði félagsins. Ég mun styðja þessi áform með ráð og dáð og stuðla að því að þetta geti orðið að veruleika. Þetta eru metnaðarfullar hugmyndir sem tekur tíma að ljúka en mikilvægt er að stefna sé mótuð þannig að hægt sé að byrja framkvæmdir sem fyrst.
Mikilvægt er að öll börn, óháð efnahag, geti tekið þátt í skipulögðu íþrótta- og tómsundastarfi. Tekið var mikilvægt skref á Fljótsdalshéraði fyrir fáum árum þegar tómstundastyrkur fyrir börn á aldrinum 6-18 ára var innleiddur og er tómstundstyrkur til staðar í Múlaþingi í dag. Sem formaður íþrótta- og tómstundanefndar Fljótsdalshéraðs tók ég virkan þátt í því þegar styrkurinn var tvöfaldaður árið 2020 úr 15 þúsund krónum í 30 þúsund krónur og er ég mjög stoltur af að hafa komið að þeirri breytingu.
Ég vil halda áfram að efla íþrótta- og tómstundastarf í Múlaþingi, með stuðningi sveitarfélagsins og mun beita mér fyrir hækkuðu tómstundaframlagi og góðu samstarfi við grasrótastarf íþróttahreyfingarinnar.
Höfundur er viðskiptafræðingur og gefur kost á sér í 2. sætið á lista Sjálfstæðisflokksins í Múlaþingi.