Stytta af Lenín í Neskaupstað
Minnismerki um Litlu Moskvu og aðdráttarafl ferðamannaEina skiptið sem ég hef komið í Fjarðabyggð var sumarið 2015. Ég skoðaði að sjálfsögðu steinasafn Petru á Stöðvarfirði og safnið um frönsku Íslandssjómennina á Fáskrúðsfirði, bæði skyldustopp fyrir ferðamenn og heimsótti Reyðarfjörð, Eskifjörð og og fór um Oddskarðsgöng yfir til Neskaupstaðar.
Ég hafði farið með ferðaskrifstofunni Bjarmalandi í þrjár fljótasiglingaferðir um Rússland og Úkraínu. Í flestum borgum var alla vega ein stytta af Lenín. Íslendingar og aðrir ferðamenn fylltust virðingu og stollti frammi fyrir leiðtoganum hvar í stjórnmálum sem menn stóðu.
Fyrir nokkrum árum fékk ég þá hugmynd að stytta af Lenín yrði verðugur minnisvarði um Litlu Moskvu og áhugaverðara aðdráttarafl ferðmanna en flugvélaflak á Sólheimasandi.
Þegar samband Rússlands og Úkrainu versnaði fóru að birtast fréttamyndir frá Úkraínu þar sem styttur af Lenín sumar nokkra mannhæðaháar, voru felldar af stalli og margar eyðilagðar. Þá varð maður hálf sorgmæddur þegar maður sá margar styttur sem sómt hefðu sér vel í Neskaupstað falla. Í grein í The Independent árið 2017 kemur fram að allar 1320 styttur af Lenín verið fjarlægðar að skipan yfirvalda. Kannski væri hægt að fá þaðan styttu. Þar kemur einnig fram í Zakarpattia, sem hét Leninstræti, hafi verið endurnefnt Lennonstræti! Svipað hafði gerst í Eystrasaltsríkjunum og fleiri fyrrum Varsjárbandalagsríkjum við fall Sovétríkjanna. Og líklega enn fyrr urðu þetta örlög stytta af Stalín.
Kunningi minn, með tengsl við Neskaupstað sem ég sagði frá þessari hugmynd, sagði mér að þegar hefði verið reist minnismerki tengt tímabili Litlu Moskvu. Í „Árbók Ferðafélags Íslands 2005: Austfirðir frá Reyðarfirði til Seyðisfjarðar“ eftir Hjörleif Guttormsson kom fram að reist hefði verið táknræna minnismerkið Stefma eftir Helga Gíslason myndhöggvara um „þrístirnið“, Lúðvík Jósepsson, Bjarna Þórðarson og Jóhannes Stefánsson, verk sem heimamenn þekkja vel. Stytta af Lenin ætti að draga að ferðamenn innlenda sem erlenda. Ég held að Rússar væru til í að styðja svona verkefni eins og Frakkar á Fáskrúðsfirði.
Höfundur er verkfræðingur í Reykjavík