Svar til húsasmiðs
Húsasmiður á sjötugsaldri lýsir eftir frambjóðendum sem vilja efla iðnmenntun á næstu árum svo hann geti farið á eftirlaun með góðri samvisku.
Kæri húsasmiður.
Fyrir hönd Viðreisnar vil ég þakka þér fyrir þitt ómissandi framlag til íslensks atvinnulífs og um leið kynna þér hvernig okkar slagkraftur verður nýttur inn í starfsmenntakerfinu. Við ætlum að stuðla að fjölbreyttara námi og gera list- og starfstengdu námi hærra undir höfði. Lögð verður ríkuleg áhersla á samvinnu milli atvinnulífs og skóla á öllum skólastigum með það að leiðarljósi að nám fari fram þar sem best hentar á hverjum tíma og að nám leiði til atvinnuþátttöku. Það er trú okkar hjá Viðreisn að ákveðnar kerfisbreytingar þurfi að eiga sér stað innan menntakerfisins sem leiða til þess að fleiri sæki sér starfsmenntunar.
Fyrsta skrefið í þá átt er viðhorfsbreyting til náms, þ.e.a.s. að allt nám er mikilvægt óháð því hvar það fer fram. Nauðsynlegt er að fá kennara, börn, foreldra, atvinnulífið og samfélagið allt til að tala saman og vinna að þessari viðhorfsbreytingu.
Í öðru lagi leggur Viðreisn áherslu á að strax í upphafi grunnskólagöngu verði farið í að kynna fjölbreytileika náms og starfa með því að efla náms- og starfsráðgjöf og vinna starfstengd verkefni í samvinnu við atvinnulífið. Þannig eflum við ekki eingöngu styrkleika barna og sýnum þeim fram á að þeim eru allir vegir færir, heldur opnum fyrir þeim möguleika á áhugaverðum verkefnum og viðhöldum sköpunarkraftinum betur sem í þeim býr. Mikilvægt er að undirbúa nemendur með grunnmenntun sem nýtist þeim á hagnýtan hátt til að þeir geti lært hvað sem er í framtíðinni. Leggja þarf enn frekari áherslu á að útskrifa skapandi, lífsglaða og sjálfsörugga nemendur. Við í Viðreisn viljum fjölga og efla valkosti í bók, list- og verknáms fögum sem leiðir til þess að skapandi og starfstengt nám fær aukið vægi innan menntakerfisins.
Það er von mín kæri húsasmiður að þú getir með góðri samvisku farið á eftirlaun þegar að því kemur.
Höfundur skipar 2. sæti Viðreisnar í Norðausturkjördæmi