Sveitarstjórnarpistill 1 – furðufréttir

„Hér verða vegamót“ eru fræg 130 ára ummæli, sem fylgt hafa þróun byggðar á Egilsstöðum.

Fólk hefur í gegnum tíðina streymt hvaðanæva að því hér eru landkostir og gott að búa jafnvel þó menn sæki héðan vinnu til nærliggjandi staða. Hér hafa alla jafna allir fengið vinnu við hæfi. Undanfarin ár hefur hér vantað fólk til vinnu og nú er svo komið að horfur eru á að sú vöntun verði meiri en nokkru sinni.

Það eru því engar furðufréttir sem að undanförnu hafa komist í hámæli í fjölmiðlum landsins að hér ríki húsnæðisskortur. Skipulag þéttbýlisins býður í dag ekki upp á að það sé fýsilegur kostur að byggja og því valda öðru fremur þvingandi aðgerðir þröngsýnna sveitarstjórnarmanna á undanförnum árum.

Það voru framan af forsjálir víðsýnir menn sem leiddu þróun byggðar á vegamótum. Skipulaginu var gjarnan of þröngur stakkur sniðinn m.t.t. hinnar hröðu þróunar en við var brugðist í tíma eftir því sem ný svæði spruttu upp. Ráðaleysi og forræðishyggja einkennir nú viðbrögðin. Lóðaframboð er allt of lítið og ekki á fýsilegum svæðum. Þétting byggðar getur verið af hinu góða en hana þarf að gera aðlaðandi. Ekki hefur verið leitað eftir því hvar verktakar myndu vilja byggja eða hvar væntanlegir íbúar myndu helst vilja búa. Skipulagið frá 2009 hefur ekki tekið neinum gagnlegum breytingum og nú er í óefni komið – meira um það síðar.

Það er furðufrétt, sem ekki hefur hins vegar farið hátt, að á sama tíma og umræddur húsnæðisskortur ríkir skuli sveitarstjórn grípa til þeirra úrræða að láta brjóta niður 8 íbúða raðhús fyrir skjólstæðinga sveitarfélagsins á einni bestu lóð bæjarins við Lagarás. Viðhaldsleysi var um kennt. Með vísan til upphaflegra teikninga var húsið reyndar aldrei nema hálfbyggt. Nú skal reist þar í staðinn ný óásjáleg raðhúsalengja af einföldustu gerð og úr innfluttum timbureiningum. Vinnan flutt úr landi og útsvarið þar með. Byggingarkostnaður á fermetra verður engu að síður með því hæsta sem heyrst hefur af fyrir íbúðarhúsnæði á svæðinu. Glæsilegur minnisvarði og þeir eru fleiri slíkir.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar