Svona á forseti að vera

 „Forseti á ekki að vera illgjarn, forseti á ekki að vera orðljótur, forseti á ekki að vera óttasleginn, forseti á ekki að óttast framtíðina, forsetinn á ekki að óttast umheiminn eða það sem er honum framandi. Forseti á frekar að vera bjartsýnn, forseti á að vera lífsglaður og forseti á að hafa það alltaf í forgrunni að gera sitt besta, takast á við öll vandamál sem upp kunna að koma, viðurkenna þegar manni verður á og halda svo áfram.“

Þetta sagði Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, í viðtali á dögunum, aðspurður hvað það væri sem hann teldi að ætti að einkenna góðan forseta. Þarna get ég tekið undir hvert orð - einmitt svona á forseti að vera, og maður með þetta viðhorf til starfsins er svo sannarlega þess verðugur að gegna því.

Allt það sem Guðni nefndi á við um forsetatíð hans undanfarin fjögur ár. Hann hefur komið fram af festu þegar á þarf að halda, haldið bjartsýni á lofti þegar erfiðleikar steðja að og hann hefur verið ötull talsmaður fjölbreytileikans og nauðsyn þess að við mætum hinu ókunna með opnum hug. Hann hefur af sinni alkunnu auðmýkt tekist á við hlutverk forseta þannig að sómi er að og mótað embættið þannig að maður verður stoltur af því að hafa slíkan mann í þessu mikilvæga forystuhlutverki.

Hann hefur fært forsetaembættið nær þjóðinni. Maður finnur svo vel hve einlægan áhuga hann hefur á högum landsmanna, alveg sama hversu lítilvægt það er hverju sinni. Hann gleðst innilega með þeim sem skara fram úr, en gefur sér einnig tíma til að taka eftir þeim sem minna ber á og þurfa hjálpar við, kannski bara smá klapp á bakið eða stuðningsorð í eyra til að halda baráttunni áfram. Auðmýkt hans og einlægni hefur verið öðrum til fyrirmyndar og ég er ekki frá því að framkoma hans og sýn á embætti forseta hafi haft töluverð áhrif á framgöngu stjórnamálamanna.

En Guðni er ekki einn. Eiginkona hans, Eliza, hefur svo sannarlega sett svip sinn á þann tíma sem þau hafa búið á Bessastöðum. Það hefur verið dásamlegt að fylgjast með henni móta sitt hlutverk sem maki forsetans, og færa það hlutverk til nútímans. Hún hefur verið algerlega óhrædd við að fara sínar eigin leiðir og hefur af sömu auðmýkt og festu og Guðni, komið fram fyrir hönd lands og þjóðar svo eftir er tekið. Eliza er öflug kona, með öfluga rödd sem hún hefur nýtt til hins ýtrasta til að tala fyrir mikilvægum málum bæði á Íslandi og erlendis.

Nýtum kosningaréttinn!

Laugardaginn 27. júní fær þjóðin að velja sér þjóðhöfðingja. Það er ekki sjálfgefið, forfeður okkar, og ekki síst formæður, höfðu mikið fyrir því að fá þann rétt. Það er þeim að þakka að á laugardaginn getum við mætt og valið, borið saman þá kosti sem í boði eru og sagt hug okkar til þess hvaða eiginleikum forseti Íslands á að vera gæddur. Fyrir mér er valið einfalt, ég mæti á kjörstað á laugardag og kýs Guðna Th. Jóhannesson – Guðni er minn forseti!

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.