Svona tæklar Sönderborg EM
Íslendingarnir í Sönderborg eru að ég held, einstakir. Það sannast aftur og aftur og ekki síst í kringum fótboltann undanfarnar vikur. Þess vegna langar mig til að deila með ykkur hvernig ég upplifði daginn sem Íslendingar spiluðu á móti Frökkum.
Fyrir hvernig leik höfðum við komið saman til að styðja við bakið á íslensku strákunum okkar, og þá skiptir engu máli hvort maður hafi áhuga á fótbolta eður ei. Núna í júní höfum við öll haft óbilandi áhuga á fótbolta. Það er það sem skiptir máli.
Leikurinn á móti Frökkum sló þó öll met. Enda ætluðum við að slá met. Nokkrum dögum fyrir leik datt Vestfirðingnum Jónu Láru Sveinbjörnsdóttur og Fellamanninum Sigfúsi Jónsyni, meðlimum Íslendingarfélagsins, í hug að tækla þetta enn betur en áður hérna í Sönderborg. Þau langaði til að horfa á leikinn á risaskjá á Ráðhústorginu! Send var fyrirspurn á bæjarfélagið sem tók vel í þetta og fékk kaffihúsin í lið með sér.
Þetta vatt síðan aldeilis upp á sig!
Planið var að hittast heima hjá okkur, þar sem við búum nánast við enda göngugötunnar klukkutíma fyrir leikinn og hita upp með andlitsmálningu, söng og tilheyrandi hrópum.
En það plan breyttist með tveggja tíma fyrirvara.
Sjónvarpsstöðin TVSYD var mætt í innkeyrsluna hjá okkur kl. 14 ásamt þó nokkrum fjölda Íslendinga. Sjónvarpið vildi sýna hvernig við í Sönderborg myndum undirbúa okkur fyrir landsleik. Og það var minnsta mál að sýna það. Í bílskýlinu var saumaaðstaða þar sem m.a. skikkjur voru saumaðar, andlit voru máluð, hárið spreyjað og bundnir voru bindishnútar. Svo fátt eitt sé nefnt. Og að sjálfsögðu skartaði íslenski fáninn í fullri stærð, sínu fegursta utan á húsinu. Danska sjónvarpið var frá sér numið, það bjóst ekki við þessu. Ekki urðu þau minna hissa þegar kom að kaffitíma og ákveðið var í skyndi að skella í vöfflur með sultu og rjóma út í bílskýli. Ég meina, það gengur ekki að fólk sé svangt á svona stundu.
Seinna byrjuðu fleiri aðdáendur íslenska karlalandsliðsins að streyma að. Pantaðar voru pizzur fyrir 50 manns.
Íslenski fáninn var fjöldaframleiddur á andlit allra, íslenska sælgætissjoppan var á staðnum og sungið var hástöfum.
Áfram streymdi fólk að. Skotið hefur verið á að um 70 manns mætti í innkeyrsluna okkar til að taka þátt í skrúðgöngunni. Þegar kom að því að leggja af stað, vorum við í beinni útsendingu í sjónvarpinu.
Skrúðgangan gekk fylktu liði niður í gegnum göngugötuna með fjallkonuna og fánabera fremst, ásamt tilheyrandi trommum sem Alma María Ólafsdóttir, 18 ára, barði af mikilli fagmennsku, enda meðlimur lúðrasveitar Sönderborgar til margra ára. Alla leiðina vorum við með tilheyrandi læti; HUH og ÁFRAM ÍSLAND!!!
Þegar komið var niður á Ráðhústorg blasti ekki bara risaskjárinn við okkur, heldur einnig fullt torg af kaffihúsagestum sem sátu sem fastast til að horfa á leikinn. Við settum íslenska tónlist á fóninn og buðum áfram upp á andlitsmálningu. Útvarpsstöðvar höfðu samband og einhverjir þurftu að fara afsíðis í viðtal.
Veðrið lék við okkur og stemmingin var hreint út sagt frábær. Þrátt fyrir einhver mörk í rangt mark þarna rétt í byrjun. Alma sá um að berja trommuna allan tímann og mikil fagnaðarlæti brutust út þegar ljóst var að okkur tókst að sigra seinni hálfleikinn.
Sjaldan hefur verið eins gaman að vera Íslendingur á erlendi grundu, þökk sé frammistöðu og framkomu íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu.