Tækifærin þarf að grípa

Listi Sjálfstæðisflokksins í Múlaþingi var staðfestur af fulltrúaráði Sjálfstæðisfélaganna í Múlaþingi laugardaginn 26.mars. Listinn er skipaður öflugu og kraftmiklu fólki á öllum aldri úr öllum byggðakjörnum Múlaþings með mikinn metnað fyrir alhliða vexti sveitarfélagsins.

Stefna sveitarstjórna

Sveitarstjórnarstörf eru gríðarlega mikilvæg og afrakstur þeirra mótar nærumhverfi okkar og þjónustustig sem við viljum að sé með því besta á landinu. Það er stefna okkar og þegar litið er yfir verk síðasta kjörtímabils frá stofnun Múlaþings, þá var farið í miklar framkvæmdir til að bæta innviði og þjónustu í Múlaþingi og gríðarlega mikilvægt er að halda áfram á sömu braut.

Vaxtartækifæri

Öflugt atvinnulíf er grunnforsenda öflugra sveitarfélaga. Við verðum að tryggja næga raforku og ýta undir nægt framboð af fjölbreyttri atvinnu, þannig verða til verðmæti sem tryggja hraðari innviðauppbyggingu og öfluga alhliða þjónustu. Uppbygging Egilsstaðaflugvallar er gríðarlega mikilvæg fyrir allt Austurland. Starfshópur hefur verið settur á laggirnar til að koma ráðuneytum og lykilaðilum saman til að ákveða næstu skref varðandi uppbyggingu Egilsstaðaflugvallar og er horft til varaflugvallargildis, útflutnings á ferskum afurðum og beins millilandaflugs.

Öflugar samgöngubætur

Samgöngubætur milli byggðakjarna Múlaþings eru lykilframkvæmdir sem verður að standa vörð um inni á samgönguáætlun. Útboð á Fjarðarheiðargöngum og Axarvegi fer fram á þessu ári og lokið verður við framkvæmdir á Borgarfjarðarvegi. Þessar öflugu samgöngubætur munu gjörbreyta samgöngum til hins betra og auka samlegðaráhrif milli byggðarkjarna innan Múlaþings. Þannig verðum við enn sterkari, við erum eitt atvinnu- og þjónustusvæði. Sérstaða Múlaþings felst einnig í hinu mikla dreifbýli og verður að tryggja þar öfluga vetrarhreinsun, uppbyggingu stofn- og tengivega, ljúka ljósleiðaravæðingu og þrýsta á þrífösun rafmagns. Sveitirnar eins og landsbyggðin öll eru framtíðargullið hér á landi því með stórstígum framförum tæknivæðingarinnar er sama hvar við búum, við verðum nær allri þjónustu, menntun og möguleikum á störfum um allt land.

Húsnæðisuppbygging

Mikilvægt er að huga að stórauknu húsnæðisframboði í Múlaþingi. Skortur á húsnæði er áhyggjumál í Múlaþingi sem og um allt land og hefur það mikil áhrif á mönnun í atvinnulífinu og almenna fjölgun íbúa. Sveitarfélagið þarf að huga vel að öflugu lóðaframboði í öllu Múlaþingi og eftirspurn hefur verið eftir fjölbýlishúsalóðum. Í síðustu viku byrjaði markvisst auglýsingaferli á miðbæjarskipulagi á Egilsstöðum með 160 íbúðir, blöndu af verslunarhúsnæði og almennum íbúðum. Einnig hefur verið aukið við fjölbýlishúsnæði deiliskipulags í Votahvammi sem tekur fljótlega gildi. Í öllum byggðakjörnum þurfum við að huga að almennri uppbyggingu húsnæðis, vakta eftirspurn og bregðast fljótt við.

Samfélagið í dag þarf aukna tæknivæðingu

Landsbyggðin hefur í gegnum árin barist fyrir fjölgun starfa, betra aðgengi að menntun og aðgangi að betri þjónustu á vegum ríkisins í heimabyggð. Mikilvæg skref hafa verið tekin í aukinni tæknivæðingu varðandi störf, menntunartækifæri og þjónustu, ekki einungis fyrir landsbyggðina heldur fyrir alla íbúa landsins. Með þessari miklu hagkvæmni fyrir alla íbúa landsins, bæði fyrir notendur og fyrirtæki myndast öflug eining sem ýtir áfram þeirri stefnu að tekin séu skref fram á við en alls ekki til baka í þessari þróun. Tæknivæðingin ýtir því undir algjöran viðsnúning í alhliða tækifærum fyrir landsbyggðina og hjálpaði einnig nýsameinuðu sveitarfélagi okkar, Múlaþingi að starfa sem ein heild en sveitarfélagið er rúmlega 10% af flatarmáli Íslands.

Tækifærin eru framundan, við eigum öll hvar sem við búum að sitja við sama borð varðandi störf, menntun og þjónustu og listi Sjálfstæðisflokksins í Múlaþingi mun standa vörð um þau réttindi og tækifæri okkar. Nú mun nýr öflugur listi Sjálfstæðisflokksins í Múlaþingi hefja sína málefnavinnu og hér má sjá nýsamþykktan framboðslista.

Framboðslisti Sjálfstæðisflokksins í Múlaþingi fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 14.maí 2022 er eftirfarandi:

1. Berglind Harpa Svavarsdóttir, formaður byggðaráðs og varaþingmaður
2. Ívar Karl Hafliðason, framkvæmdastjóri
3. Guðný Lára Guðrúnardóttir, laganemi og ljósmyndari
4. Ólafur Áki Ragnarsson, þróunarstjóri
5. Einar Freyr Guðmundsson, formaður ungmennaráðs Múlaþings
6. Sunna Dögg Markvad Guðjónsdóttir, bókari
7. Sigurður Gunnarsson, viðskiptafræðingur
8. Sylvía Ösp Jónsdóttir, leiðbeinandi
9. Claudia Trinidad Gomez Vides, verkakona
10. Björgvin Stefán Pétursson, framkvæmdastjóri
11. Bjarki Sólon Daníelsson, nemi og skólaliði
12. Davíð Þór Sigurðarson, svæðisstjóri og bóndi
13. Kristófer Dan Stefánsson, nemi
14. Herdís Magna Gunnarsdóttir, bóndi
15. Guðný Margrét Hjaltadóttir, skrifstofustjóri
16. Oddný Björk Daníelsdóttir, rekstrarstjóri
17. Þórhallur Borgarsson, vaktstjóri
18. Ágústa Björnsdóttir, hobbýbóndi
19. Karl Lauritzson, viðskiptafræðingur
20. Elvar Snær Kristjánsson, verktaki og formaður fjölskylduráðs Múlaþings
21. Vignir Freyr Magnússon, skólaliði
22. Jakob Sigurðsson, bifreiðastjóri, bóndi og bæjarstjórnarfulltrúi

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar