Takk fyrir sumt

gunnarg_web.jpg

Allt í lagi, allt ílagi. Það er forsetinn.

 

Þjóðaratkvæðagreiðslurnar um Icesave voru trúlega réttar ákvarðanir, þótt við vitum það kannski ekki enn endanlega. Hann stóð sig ágætlega í að verja ákvarðanirnar í bæði skiptin. Notkun á valdi forsetaembættisins hefur kallað á nauðsynlega umræðu um stjórnarskrána. Hin nauðsynlega endurnýjun stendur á móti í sumum.

Ég skil líka að hann sé hrifinn af því að margir vilji hann, þriðjungur þjóðarinnar miðað við kannanir. Það er hellingur. Sennilega hefðu fyrri forsetar líka geta framvísað slíkum stuðningi við endurkjör sitt endalaust. Það vilja líka 70% nýjan forseta og tæpur fimmtungur er með ákveðinn valkost í huga.

Ég vil líka telja forsetanum til tekna það sem hann hefur gert fyrir ungt fólk og baráttu í loftslagsmálum. Hann er vel máli farinn og á margan hátt góður fulltrúi á alþjóðavettvangi.

En hann er ekki heilagur. Þótt hann hafi tekið sig saman í andlitinu eftir hrunið, sem varð þegar hann var nýbúinn að ná endurkjöri, eru ummæli hans í aðdraganda þess í besta falli vandræðaleg. Kaflinn um hann í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis hverfur ekkert.

Mér finnst rangt að láta endurkjör forseta snúast um afmarkað málefni eins og Icesave. Það er heldur ekki að fara að skapast neitt tómarúm eða óvissa þótt nýr forseti verði kosinn í sumar. Eina óvissan sem ríkir er vegna þess að sitjandi forseti hefur ekki gefið það skírt út að hann ætli að hætta. Enginn trúverðugur frambjóðandi treystir sér til að ráðast fram og lýsa því yfir að hann ætli að steypa forsetanum Íslands.

Maður kemur í manns stað. Mögulega hefðu fáir, eða nokkrir aðrir, nýtt neitunarvaldið eins og hann gerði en það er ekki þar með sagt að þeir gætu haldið jafn vel, eða enn betur á öðrum málefnum.

Sárast finnst mér þó að hann virðist ekki þekkja sinn vitjunartíma. Sextán ár í starfinu er langur tími. Þegar komandi kjörtímabili lýkur verða þau orðin tuttugu og Ólafur Ragnar 73ja ára gamall. 

Eftir hrun hefur verið í gangi enduruppbygging Íslands. Ég tel nýjan forseta eiga að vera hluta af henni. 

Takk fyrir sumt Ólafur, leyfðu nú öðrum að komast að.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar