Þá er ég beislaði Gandinn - Örlagasaga

Það var að kvöldlagi um hávetur að ég var staddur í foreldrahúsum. Ég hafði glímt við sáran húðþurrk í andliti sem olli mér ama og hafði ágerst í frosthörkum. Ég var ráðalaus og nokkuð uppgefinn á þessu ástandi.

Móðir mín hjó eftir þessu og horfði rannsakandi í andlit mitt. Góður vilji ríkjandi hjá henni sem áður. Hún gaf mér ráð, sem ég hafði áður fengið, að nota tiltekið andlitskrem sem ég vissi að ynni ekki bug á þessu. Ég orkaði ekki á þessari stundu að vekja máls á því. Fyrir kurteisis sakir kvaðst ég ætla taka ráð hennar til umhugsunar.

Þar sem ég sat hnípinn með olnboga á hnjánum með hendur fyrir andliti, úrræðalaus og vanmáttugur, varð ég var við hægt fótatak, sem nálgaðist og þagnaði skyndilega. Enginn vafi lék á því að þetta var faðir minn og stóð hann þögull fyrir aftan mig. Ég skynjaði áður óþekkta og undarlega strauma frá honum. Ég var ekki með réttu ráði og ímyndaði mér að hann væri með öxi í hendi og hygðist kljúfa mig í herðar niður.

Ég rétti úr mér og leit aftur fyrir mig. Þessi meinloka reyndist vitaskuld röng. Það var ekkert ofstopakennt yfirbragð á föður mínum. Öðru nær.

Faðir minn var kyrr og rólyndur eins og prestur sem stendur fyrir altari og bíður altarisgöngu safnaðarins. Hann var með útrétta hönd og var lófi hans opinn, eins og hann hygðist rétta mér oblátu. Það var hins vegar ekki. Í lófa hans hvíldi túpa: „notaðu þetta smyrsl og þurrkurinn hverfur undir eins“ hraut af vörum hans.

Ég var ekki undirbúinn að horfa á föður minn alvöruþrunginn gefa mér ráð um húð- eða snyrtivörur. Þetta var í fyrsta sinn sem hann léði máls á slíku, alltént í áheyrn minni. Að ég best vissi hafði andlit hans aldrei verið útsett fyrir neinu röku nema e.t.v. vatni, mjólk, rakspíra og legvatni þegar hann, öskrandi hvítvoðungurinn, dró andann i fyrsta sinn. Að þessu gættu þótti mér fjarska ósannfærandi hve djúpt hann leyfði sér að taka í árinni um áhrifamátt kremsins. Ég var tvístígandi hvernig ég ætti eða vildi bregðast við þessari uppákomu.

Ég færði hendi mína varlega í átt að lófa föður míns og tók túpuna. Ég leit hægt upp og horfði furðu sleginn í andlit hans. Mér varð endanlega ljóst að honum var fúlasta alvara.

Ég virti túpuna fyrir mér, þreifaði á henni og velti henni milli handanna. Faðir minn beið þögull átekta. Hann virtist öruggur með sig.

Tilgerðarleysi túpunnar höfðaði þegar til mín. Túpan bar ekki þess keim að vera glysvarningur eða tízkuvara sem gæti þjónkað yfirlæti fínnar frúar. Túpan minnti mig á aðra túpu sem ég hafði séð í verkfæratösku hjá föðurbróður mínum. Sú túpa innihélt þykkt efni til að smyrja á hamp sem er vafinn utan um gengjur pípulagna.

Á túpunni var skuggamynd af hrossi og á henni voru hástafir, GANDUR, sem svöruðu til nafns vörunnar. Ég las áletraða innihaldslýsingu og leiðbeiningar. Því næst hváði ég og leit upp spyrjandi til föður míns: „þetta smyrsl er ætlað dýrum“, það stendur „healing og soothing for animals“ á túpunni.

Faðir minn ræksti sig og svaraði um hæl: „bróðir kom frá Noregi og færði mér þetta. Hann var með illa sprungna fingur og þetta var það eina sem kom að gagni. Hann gefur smyrslinu sín bestu meðmæli“

Ég horfði svipbrigðalaus á föður minn og setti svo túpuna í vasann. Þörf mín fyrir trú var yfirsterkari heilbrigðri skynsemi og gagnrýninni hugsun.

Ég kvaddi foreldra mína.

Þegar ég kom heim gekk ég rakleiðis inn á baðherbergi. Ég stóð fyrir framan spegil og horfði á víxl á sjálfan mig og túpuna. Togstreitu gætti í hugarfylgsnum mínum enda laust saman annars vegar ráðleggingum föður míns og hins vegar leiðbeiningum framleiðanda vörunnar.

Ég leiddi hugann að þykkri húð hrossa þöktum hárum og hve viðkvæm og berskjölduð andlitshúð manna væri í þeim samanburði.

Þessum bollaleggingum lauk skyndilega. Ég herti hugann, opnaði túpuna og snéri henni á hvolf. Gulglært smyrslið sullaðist úr túpunni í lófa minn. Smyrslið var ekki hnausþykkt eins og koppafeiti, eins og ég hafði ranglega talið mér trú um.

Var mér þá ekkert að vanbúnaði. Ég lokaði augunum og bar smyrslið í andlit mitt. Áhrifin voru öðrum þræði eins og af hitakremi. Mér snögghitnaði.

Stund sannleikans var runninn upp. Hjarta mitt sló örar.

Ég opnaði augun varfærnislega milli vonar og ótta og pírði þau eins og ég væri að skríða úr myrkvuðum hellisskúta og líta upp til sólar, aðframkominn, eftir nokkurra daga innilokun án vatns og matar.

„Veit pabbi hvað hann syngur? Hef ég gengið í endurnýjun lífdaga?“ hugsaði ég.

Ég sótti í mig kjark og galopnaði augun. Ég horfði í spegilinn og sjáöldrin þöndust út. Áhrif kremsins voru auðsjáanleg. Það var eins og einhver hefði tekið sér guðlegt vald í hönd og reynt að svipta mér réttinn til lífs með því að þvinga höfuð mitt ofan í lýsistunnu. Andlit mitt gljáði heiftarlega í speglaljósinu. Það var hvergi þurr blettur sjáanlegur og þótt vel væri að gáð. Í ofanálag framkölluðust karrý gul litbrigði í andlitinu, eins og ég væri þjakaður af síðbúinni nýburagulu.

Engu laug faðir minn um áhrifamátt kremsins. En til að gera langa sögu stutta hef ég ekki öðru sinni beislað Gandinn.

Ég óska ykkur lesendum gleðilegs sumars.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar