„Þá munu læknar ekki koma og fara, heldur vinna og vera“
Síðan um páska hef ég verið svo heppinn að fá að endurnýja kynni mín sem læknir við fólkið í Fjarðabyggð. Þolinmæði sjúklinganna gagnvart sænskuskotnu sproki og öðrum klaufaskap mínum var svo sannarlega viðbrugðið og fyrir það er ég mjög þakklátur.Þó var eitt sem sló mig öðru fremur, einkum hjá eldri kynslóðinni. „Hvað verður þú nú lengi hérna?“, „Ég er alltaf að hitta nýjan lækni“ eða í mesta vonleysinu: „Ég veit ekki hvort það tekur því að rekja sjúkrasöguna fyrir þér.“ Þetta eru setningar sem ég hef heyrt oftar en tölu verður á komið.
Og það hryggir mig; bæði því ég veit hvað samfella í læknisþjónustu skiptir miklu fyrir lifun og lífsgæði sjúklinga, en líka vegna hins að í apríl 2014 skrifaði ég grein í þennan sama miðil til að ávarpa þetta sama vandamál og leggja til lausnir. Á átta árum hefur eitthvað breyst en lítið; allt of lítið.
Fyrir átta árum (og raunar aftur 2017) hvatti ég til þess að heilsugæslan í Fjarðabyggð yrði sameinuð, ekki bara í orði heldur á borði, í einu miðlægu húsnæði. Í samtölum mínum við aðrar fagstéttir heilsugæslunnar skynja ég mikinn samhljóm með þessu. Allir finna hvar skórinn kreppir og þrengir að möguleikunum til að veita betri þjónustu.
Góð fyrsta stigs heilbrigðisþjónusta verður nefnilega ekki veitt nema góð samfella sé í meðferð. Góð samfella fæst ekki nema með vel menntuðum, stabílum mannskap sem vinnur vel saman. Þessar dreifðu heilsugæslueiningar sem verið hafa í kjörnum Fjarðabyggðar vinna ekki með þessu og beinlínis gegn. Ef starfsmenn eru eilíflega hér í dag og þar á morgun skapast ekki forsendur til að hver njóti sín í starfi og samstarfi. Slíkt er slítandi og það bætist ofan á annað álag sem fylgir starfi á lítilli heilsugæslu á litlum stað sem stuðlar að því að fólk flosnar upp eða brennur út. Þessar dreifðu einingar koma í veg fyrir að nemar í heilbrigðisvísindum geti komið að nokkru marki í grunnámi og alls ekki í sérnámi. Hvað verður þá um nýliðun? Aukið brotthvarf og minni nýliðun eru að brenna kertið í báða enda í landsbyggðum allra landa. Þetta er vandamál nútímans og því getum við ekki mætt með lausnum fortíðar.
Spyrja má hví ekkert hafi gerst. Við því kann ég ekki svar en þær áhyggjur sem ég hef heyrt aðra reifa eru að ferðatími á heilsugæslu færi úr fimm mínútum í fimmtán, að eldra fólk þurfi þá að keyra á heilsugæsluna og að menn vilji halda ákveðinni lágmarksþjónustu í hverjum byggðakjarna.
Ég get skilið forsvarsmenn fyrirtækja sem vilja lágmarka þann tíma sem það tekur starfsfólk að koma sér til og frá lækni. En ég heyri líka þegar hinir fjölveiku fullorðnu segja ekki skipta hvert þeir þurfi að keyra ef þeir fá að hitta sama lækni. Annan hópinn er ég eiðsvarinn að vera málsvari fyrir, hinn ekki.
Að endingu sannast jú hið fornkveðna: Gæt þín hvers þú óskar. Því ef krafan er að halda í lágmarksþjónustu, þá er lágmarks þjónusta líka nákvæmlega það sem maður fær.