Það eru spennandi tímar framundan
Við hjá Landsneti erum í fjölmörgum spennandi verkefnum um land allt, verkefnum sem öll hafa það að markmiði að auka afhendingaröryggi, gagnsæi, sátt við umhverfi og náttúru, skilvirkni orkuviðskipta og um leið að tryggja okkur öllum leiðina inn í framtíðina sem við höldum að verði rafmagnaðri en áður.Skref í orkuskiptaumræðunni
Mikil breyting hefur átt sér stað í raforkunotkun á Austfjörðum á undanförnum árum í kjölfar rafvæðingar fiskimjölsverksmiðja á svæðinu. Heildarálag meira en tvöfaldaðist við það að verksmiðjurnar skiptu úr olíu yfir í rafmagn og núverandi kerfi annar ekki lengur álaginu og því eru styrkingar á flutningskerfinu á svæðinu nauðsynlegar.
Til að hámarka afköst kerfisins hefur verið komið upp snjallstýringum sem geta sjálfvirk stýrt álagi á fiskimjölsverksmiðjunum ef rekstraraðstæður í kerfinu krefjast þess og ákveðið var að spennuhækka línur og tengivirki í Austurlandshringnum frá Hryggstekk að Stuðlum í Reyðarfirði og að Eyvindará um Eskifjörð, úr 66 kV upp í 132 kV. Þessar breytingar falla vel að aðgerðaráætlun stjórnvalda í orkuskiptum sem samþykkt var í maí 2017 þar sem m.a. var rætt um mikilvægi þess að raforkuinnviðir fyrir fiskimjölsverksmiðjur séu til staðar.
Verkefni á framkvæmdaáætlun
Í áætlun um þróun meginflutningskerfisins eru kynntar lykilfjárfestingar sem ætlað er að útrýma hluta af núverandi flöskuhálsum á byggðalínuhringnum. Með þeim verður komin á öflug tenging frá Blöndu og að Fljótsdal sem m.a. mun létta á flutningstakmörkunum inn á Austurland.
Árið 2014 var Stuðlalína 2, frá Hryggstekk í Skriðdal að Stuðlum, spennuhækkuð og 2016 var strengendum skipt út fyrir öflugri strengi í Stuðlalínu 2 og Eskifjarðarlínu 1. Í framhaldinu hófst undirbúningur að spennuhækkun frá Stuðlum og að Eyvindará við Egilsstaði sem kallar á byggingu nýrra yfirbyggðra tengivirkja á Eskifirði og á Eyvindará. Jafnframt verður Eskifjarðarlína 1 lögð í jörðu á tæplega 2 km löngum kafla við tengivirkið á Eyvindará. Markmiðið með öllum þessum framkvæmdum er að auka flutningsgetu og áreiðanleika afhendingar á svæðinu.
Útboð á þessum verkþáttum stendur nú yfir og er reiknað með að framkvæmdir hefjist í kjölfarið og að þeim ljúki síðla árs 2020.
Rafmögnuð framtíð
Í nýrri kerfisáætlun Landsnets sem nú er verið að leggja lokahönd á og fer í kynningarferli í kjölfarið er m.a. talað um lagningu Neskaupstaðarlínu 2, jarðstrengs sem er þá tvöföldun á tengingu á milli Eskifjarðar og Neskaupstaðar. Þar er einnig rætt um endurbætur á Vopnafjarðarlínu 1, sem liggur á milli Lagarfoss og Vopnafjarðar og tvöföldun á tengingu til Fáskrúðsfjarðar er á frumstigum undirbúnings, en ekki komin á framkvæmdaáætlun ennþá.
Taktu þátt í samtalinu
Á heimasíðu okkar www.landsnet.is er hægt að finna allar upplýsingar um verkefnin og hvet ég ykkur til að fylgjast með á samfélagsmiðlum og taka þátt í umræðunni.
Framundan, um miðjan maí, verða haldnir kynningarfundir um nýja kerfisáætlun Landsnets og verða fundastaðir og fundatímar auglýstir þegar nær dregur og hvetjum við ykkur til að mæta á fundi á Austurlandi og taka þátt i samtalinu. Fyrir okkur hjá Landsneti skiptir máli að það ríki sátt í samfélaginu um okkar hlutverk og við viljum eiga stöðugt samtal við ykkur, samtal sem einkennist af hreinskilni, ábyrgð, víðsýni, gagnkvæmri virðingu og samstarfsvilja.
Steinunn Þorsteinsdóttir
Upplýsingafulltrúi hjá Landsneti