Það persónulega er alltaf pólitískt

Það hefur komið mér ótrúlega mikið á óvart að fylgjast með umræðum um tillögur til breytinga á fæðingarorlofinu undanfarið. Nýjar tillögur gera ráð fyrir því að fæðingarorlofið lengist úr 10 mánuðum í 12 mánuði samtals. Nú eru 4 mánuðir á hvort foreldri og 2 til skiptanna, en lagt er til að það verði 6 á hvort foreldri.

Það að festa orlofsréttinn á hvort foreldri fyrir sig og hafa hann óframseljanlegan á milli foreldra er gert til að ná fram auknu jafnrétti - bæði jafnrétti til foreldrahlutverksins og jafnrétti á vinnumarkaði. Feður hafa haft bæði sjálfstæðan og sameiginlegan rétt til töku fæðingarorlofs síðan árið 2000 og stór hluti feðra hefur nýtt sjálfstæða réttinn en miklu færri feður en mæður nýta af sameiginlega réttinum. Þetta er stóra myndin.

Heima hjá konu, sem ég þekki, sér hún um flest heimilisverk þó að maðurinn hennar hjálpi stundum til, þetta hefur bara æxlast svona hjá þeim. Þetta er af persónulegum ástæðum. Hann vinnur meira, er þreyttari þegar hann kemur heim, mikil yfirvinna. Hún vinnur hlutastarf í umönnunarstarfi þannig að hún er meira heima við. Hann hefur líka auðvitað mikið hærri laun. Þannig að þegar börnin fæddust höfðu þau ekki efni á því að hann tæki langt orlof en hún dreifði sínum fæðingarorlofsgreiðslum á lengri tíma. Það kom mikið betur út fyrir þau fjárhagslega og starfið hans er líka þess eðlis að það hefði verið erfitt fyrir vinnuveitandann ef hann hefði verið lengi í burtu. Þetta er litla myndin. Einstakar aðstæður fjölskyldna eru hluti af stóru myndinni.

Þetta hefði svo auðveldlega getað verið öfugt, þetta er bara svona einmitt hjá þeim. Þeirra einstöku aðstæður sem þau verða að haga sér eftir. Eða hvað? Þekkið þið mörg dæmi þar sem dæminu er snúið við. Þekkið þið mörg dæmi þar sem faðir tók mikinn hluta af sameiginlega orlofinu?

Hið persónulega er pólitískt. Hið persónulega er kerfisbundið. Fáum finnst þeirra einstöku aðstæður byggja á ójafnrétti, flestir eru jú fylgjandi jafnrétti. En þegar við sjáum tölfræðina, þegar við þysjum út og horfum á heildarmyndina, sjáum við mynstrin. Persónulegar aðstæður fólks eru pólitískar. Þær eru hluti af heildarmyndinni og ef heildarmyndin sýnir ekki jafnrétti þá ríkir ekki jafnrétti. Kerfisbundið ójafnrétti þarf að jafna með því að breyta kerfinu. Það mun bitna á fólkinu í þessum einstöku aðstæðum sem eru svo ekkert einstakar. Það mun koma sér verr fyrir suma til skamms tíma en það mun leiða til aukins jafnréttis sem mun á endanum koma sér betur fyrir alla.

Það sem hefur komið mér á óvart í umræðunni um þessar tillögur er hversu ótrúlega mörg virðast ekki átta sig á því að þeirra einstöku aðstæður séu hluti af tölfræði, hluti af kerfi sem mismunar fólki eftir kyni. Ótrúlega margir femínistar meira að segja virðast ekki sjá þetta. Þessi lokaorð áttu svo sem ekki að vera bein stuðningsyfirlýsing við þetta frumvarp - ég hef allskonar skoðanir á því hvernig fæðingarorlof ætti að vera. En ein þeirra er að það þurfi að binda orlofsrétt hvoru foreldri og fagna ég því skrefi ákaflega.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar