Þar sem hjartað slær
Í mörg ár hafði ég lítinn áhuga á pólitík eða það mætti kannski frekar orða það þannig að ég hafði lítinn áhuga á að taka þátt í pólitík.Ég held, að helsta ástæðan hafi verið sú, að ég hafði áhyggjur af því að fólki líkaði ekki mitt sjónarhorn eða mínar skoðanir og hvort mínar skoðanir ættu hreinlega heima einhvers staðar í umræðunni. Mér fannst oft eins og pólitíkin væri eitthvað sem sundraði fólki. Ef fólk væri ekki sammála gæti það hreinlega ekki verið vinir, og ég forðaðist það eins og heitan eldinn að fara út í pólitískar umræður.
En svo gerðist eitthvað með árunum. Sérstaklega þegar ég flutti í Fjarðabyggð, í fjörðinn minn fagra. Fjörðinn minn fagra, þar sem ég á heima. Þar sem fjölskyldan mín á heima og þar sem börnin mín fá að njóta þeirra forréttinda að alast upp. Stað sem ég elska eins og minn heimabæ. Ég vil geta sagt við börnin mín að ég lagði mig alla fram í að gera bæjarfélagið okkar að betri stað, því hjartað mitt og þeirra slær hér.
Um helgina göngum við til kosninga og eflaust margir að velta því fyrir sér hvern skal kjósa af öllu þessu flotta og metnaðarfulla fólki sem að býður sig fram. Fólki sem allt á það sameiginlegt að vilja gera Fjarðabyggð af bestu mögulegu útgáfunni af sjálfri sér. Bæjarfélagi sem við öll getum verið stolt af.
Það er margt sem má bæta og margt sem er gott, og vegferð okkar líkur líklega aldrei í að gera samfélagið okkar enn betra. En margar breytingar til hins betra, byrja hins vegar hjá okkur sjálfum. Það er okkar að sjá til þess að rusl og bílhræ safnist ekki upp á lóðunum hjá okkur eða í kringum fyrirtækin okkar svo eitthvað sé nefnt. Sveitarfélagið spilar vissulega stórt hlutverk í að gera samfélögin okkar snyrtilegri, umhverfið bæjanna fallegt og byggja upp göngustíga og viðhalda gangstéttum. En munum að það er okkar að halda garðinum okkar í blóma og til fyrirmyndar. Fallegir og snyrtilegir bæir eru ekki bara fyrir gesti heldur líður okkur íbúunum miklu betur að lifa og starfa í snyrtilegu og vel hirtu umhverfi.
Ég hef ætíð haft það að leiðarljósi í lífinu að lofa engu sem ég veit ekki hvort ég get staðið við. En einu get ég lofað öllum og sjálfri mér líka, það er að gera ætíð mitt besta í því sem ég tek mér fyrir hendur og í samskiptum við aðra. Það er það sem sameinar mig með því frábæra fólki sem ég hef fengið þann heiður að kynnast og vinna með síðastliðnar vikur. Það er fólkið á lista Sjálfstæðisflokksins í Fjarðabyggð. Fólk sem á heima hér og þar í Fjarðabyggð. Venjulegt fólk eins og ég sem þykir vænt um bæinn sinn, fólkið og samfélagið. Fólk sem brennur fyrir það að gera Fjarðabyggð að enn betri stað.
Ég tel mikil lífsgæði felast í því að búa í nánd við náttúru Fjarðabyggðar og því mikilvægt að skipulag sýni náttúru og umhverfi virðingu.Kjósum meiri metnað í ásýnd byggðarkjarnanna og veljum Sjálfstæðisflokkinn til forystu 14.maí.
Höfundur er launafulltrúi og skipar 16.sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Fjarðabyggð.