Þegar okkur vantar fólk
Á Íslandi erum við 340.000, á Austurlandi um 10.000. Það eru ekkert sérstaklega margir, ekki á Íslandi í heild og alls ekki hérna megin á Íslandi. Það blasir við okkur að við þurfum að byggja upp mikla innviði. Á Austurlandi og út um allt land þarf að bæta samgöngur verulega og auka þjónustu. Við erum bara eiginlega of fá til að standa undir kostnaðinum við það.Það vantar betri heilbrigðisþjónustu, geðheilbrigðis- og öldrunarþjónusta þar fremst í flokki. Það vantar nokkur jarðgöng, slatta af malbiki og niðurgreiðslur á innanlandsflugi. Þetta eru svona helstu málaflokkarnir þar sem ég upplifi að úrbóta sé þörf ekki seinna en strax. En við erum frekar fá í stóru landi til að byggja upp góða þjónustu og sterka innviði allan hringinn í kringum landið. Bara ef það væri eitthvað sem við gætum gert í því.
En bíddu, í stað þess að bjóða fólk velkomið í okkar fámenna land og fagna öllum höndum sem eru tilbúnar að leggja hönd á plóg í samfélaginu okkar þá gerum við allt sem í okkar valdi stendur til að loka landinu sem kyrfilegast. Önnur mál gætu staðið betur ef við værum fleiri, fleira fólk borðar meira lambakjöt. Á meðan sum sveitarfélög á Austurlandi standa í raunverulegri, stundum tvísýnni baráttu við að haldast í byggð, er landið lokað og læst fyrir nýju fólki.
Þetta er pólitík sem ég hreinlega næ ekki upp í. Skil ekki. Auðvitað kostar að taka á móti fólki en það er svo fljótt að borga sig, nýtt fólk skapar verðmæti eins og annað fólk og er t.d. líklegra til að stofna eigin fyrirtæki en innfæddir. Það er hægt að fá kebab á Akureyri í dag.
Í alvöru, núna er ég að tala praktískt. Ég er ekki einu sinni að nefna mannúðarrök, að fólk á að hjálpa öðru fólki. Fólk gerir það bara, þú horfir ekki á aðra manneskju þjást og snýrð þér undan. Ekki ef þú raunverulega sérð manneskjuna og áttar þig á því að hún er manneskja eins og þú. Fólk er deyjandi að leita einhverrar undankomu í örvæntingu. Við eigum fullt af plássi, um það bil 100.000 lausa ferkílómetra, og vantar fólk. Þetta er ekki flókið reikningsdæmi.
Það er óskiljanlegt að við ætlum bara að taka við 50 flóttamönnum á árinu. Það væri kannski popúlismi að segjast vilja taka á móti 5000 á ári en 500 á ári væri bara mjög gerlegt og virkilega raunhæft. Nýlegt rót í pólitíkinni gefur vonandi tækifæri til að endurskoða þessa stefnu og taka á móti fleirum. Við getum tekið á móti miklu fleiri en 50 hérna fyrir austan, hvað þá á landinu í heild. Tökum okkur nú saman í andlitinu og hjálpum fólki sem þarf hjálp, þau munu hjálpa okkur á móti!
#UngAust