Þekktu rauðu ljósin - Soroptimistar hafna ofbeldi
Eitt af markmiðum Soroptimistahreyfingarinnar er að bæta stöðu kvenna og stúlkna í heiminum. Mikilvæg stoð í því starfi er að vekja athygli á og stuðla að upprætingu á ofbeldi í nánum samböndum.Sextán daga tímabilið 25. nóvember til 10. desember ár hvert er helgað málstaðnum að áeggjan Sameinuðu þjóðanna. Er það gert undir slagorðinu „Roðagyllum heiminn“ (Orange the World). Táknlitur átaksins er appelsínugulur, en liturinn táknar að eftir svartnætti ofbeldis rís sólin upp að nýju; það er von! Það mun því víða um heim vera hægt að sjá roðagyllta fána, hús, tanka og torg í tilefni þessa mikilvæga málefnis og ljósagöngur farnar í bæjum og borgum.
Soroptimistar, ásamt fleiri frjálsum félagasamtökum, beina athyglinni sérstaklega að forvörnum; að benda á hvernig koma má í veg fyrir eða stöðva ofbeldi í nánum samböndum. Það er gert með því að kynna sem víðast hvað telst ofbeldi og á veggspjöldum sem dreift verður. Við þurfum öll að þekkja rauðu aðvörunarljósin, til að geta brugðist við í tíma eða ef það hefur ekki lánast, að þekkja hvert við getum sótt okkur aðstoð.
Oft er erfitt að átta sig á því að um ofbeldi sé að ræða í nánum samböndum, en það getur átt sér stað óháð kyni, aldri og kynhneigð. Samkvæmt rannsóknum hafa 15% til 20% íslenskra kvenna og 5% til 10% íslenskra karla verið beitt ofbeldi af maka sínum eða þeim sem þau voru í ástarsambandi við og líklega búa um 2% íslenskra kvenna við ofbeldi hverju sinni. Ofbeldið má flokka í sex flokka: Andlegt ofbeldi, líkamlegt ofbeldi, kynferðislegt ofbeldi, fjárhagslegt ofbeldi, stafrænt ofbeldi og eltihrellir. Sjá nánar á www.112.is.
Soroptimistar hvetja alla til að kynna sér málefnið og leggja sitt af mörkum til að fyrirbyggja og stöðva ofbeldi.
Soroptimistaklúbbur Austurlands vekur athygli á átakinu með því að dreifa upplýsingum, flagga fána með orðunum Roðagyllum heiminn - höfnum ofbeldi og fleiru í þeim dúr.
Við hvetjum stofnanir og fyrirtæki til að vekja athygli á málstaðnum með því að roðagylla byggingar og íbúa til að halda vöku sinni og fjölmenna í Ljósagönguna, sem klúbburinn efnir til á Seyðisfirði laugardaginn 25. nóvember. Gangan hefst kl.17:00 við Seyðisfjarðarkirkju og gengið verður yfir í félagsheimilið Herðubreið, þar sem flutt verða stutt erindi og kaffi verður á könnunni. Fólk er hvatt til að mæta í appelsínugulum fötum og með ljós.
SOROPTIMISTAR SEGJA NEI VIÐ OFBELDI!
Fh. Soroptimistaklúbbs Austurlands
Sigríður Kr. Gísladóttir
--
English: Abuse in close relationships is a form of violence when someone intentionally harms you, or does or says things frequently to make you upset. In Iceland, abuse is prohibited.
Main forms of gender-based abuse are Emotional abuse; Physical abuse; Sexual abuse; Financial Abuse; Digital abuse and Stalkers. www.112.is
Polish: Przemoc jest wtedy, gdy ktoś robi coś, co Cię rani lub sprawia, że czujesz się źle. Przemocą w bliskim otoczeniu nazywamy, kiedy sprawca jest związany z Tobą lub spokrewniony, na przykład twój małżonek, były partner, członek rodziny lub opiekun. Przemoc jest różnorodna.
Przykłady: Przemoc psychiczna; Przemoc fizyczna; Przemoc seksualna; Przemoc finansowa; cyberprzemoc; Zaniedbanie. www.112.isd