Þorpið
Það þarf heilt þorp til að ala upp barn, segir gamalt máltæki.
Það kemur sérstaklega upp í hugann þessa dagana þegar maður fylgist af hliðarlínunni með okkar yngstu þorpsbúum takast á við nýjar og spennandi áskoranir. Hvert sem litið er má sjá litlar mannverur með litríkar skólatöskur, mistilbúnar að takast á við tilveruna, sem eiga það þó sameiginlegt að hafa hóp fólks sem bíður þeirra með opinn faðm og mun leiðbeina þeim í gegnum áskoranir næstu mánaða og ára. Gleðjast með þeim þegar vel gengur og grípa þau þegar þau hrasa. Þorpið.
Nú á dögum mætti kannski segja að það þurfi heilan heim til að ala upp barn, enda hefur tæknin tengt okkur öll saman og gert okkur að því sem við á tyllidögum köllum „heimsþorpið.“
En stundum þarf líka bara eitt barn til að ala upp heilt þorp. Eða heilan heim. Heimsþorpið okkar.
Fyrir ári síðan fékk eitt lítið barn nær allt heimsþorpið til að staldra við og hugsa sinn gang. Þetta litla barn var drengur að nafni Aylan Kurdi. Myndirnar af litlum, lífvana líkama hans í flæðamálinu á tyrkneskri strönd snerti nær alla heimsbyggðina. Myndin varð um tíma táknmynd þess sem er að í þorpinu. Hvernig við, þorpsbúar, höfðum sofnað á verðinum og brugðist honum.
En með tímanum dofnaði myndin af Aylan litla og daglegt amstur tók við.
Á dögunum vorum við aftur hrist til meðvitundar, þegar myndin af Omran litla Daqneesh í sjúkrabílnum skók heiminn.
Sjálf tók ég á móti mörgum börnum eins og Aylan og Omran við komuna til Evrópu. Holdvotum, skjálfandi og hræddum, en oftast voru þau á lífi. Alltof mörg hlutu þó sömu örlög og Aylan litli.
Þessi börn voru alveg eins og öll önnur börn sem ég hef kynnst á lífsleiðinni. Með brennandi áhuga á Spiderman og sápukúlublæstri og höfðu skoðanir á því hvernig þurru fötin sem þeim voru rétt við komuna ættu að vera á litinn. En þau höfðu upplifað hörmungar sem ætti ekki að leggja á nokkurt barn.
Alltof mörg þessara barna hafa verið svipt þeim sjálfsögðu mannréttindum að hefja skólagöngu og búa við hörmulegar aðstæður þar sem lífið snýst að mestu um að draga andann.
Við eigum ekki að skammast okkar fyrir að flest okkar börn geti hafið skólagöngu við eðlilegar aðstæður. Þvert á móti, þá er það sjálfsagður réttur þeirra og við eigum að njóta gleðinnar sem slík tímamót vekja.
En börn sem hafa flúið stríð eiga líka sama rétt á því að ganga í skóla. Þau eiga sama rétt á því að hópur fólks sé tilbúinn til að vísa þeim menntaveginn. Grípa þau og gleðjast með þeim á þeirri vegferð.
Og ef við, íbúar heimsþorpsins, getum á einhvern hátt lagt hönd á plóg til að svo megi verða, þá er það skylda okkar. Það þarf nefnilega heilt þorp til að ala upp barn.