Þrátt fyrir jólin
Í erfidrykkju á dögunum sagði maður nokkur við mig: „Það eina sem ég veit í þessu lífi er að fyrst ég fæddist, þá hlýt ég að deyja.“ Enginn gerir víst ágreining um þessa vitneskju. Samt er dauðinn ennþá hálfgert bannorð í samfélaginu okkar. Mörgum þykir óþægilegt að ræða nokkuð er varðar þeirra eigið andlát, eða þá þær tilfinningar sem fylgja því að missa ástvin. Dauðinn er óboðinn gestur í lífspartýinu þar sem allir eiga að vera hressir, líta vel út og bara LOL.En ef við tökum þá dásamlegu áhættu að láta okkur þykja vænt um aðrar manneskjur, förum við víst ekki varhluta af að missa og syrgja. Og eins og við þekkjum ber missinn stundum að á þann hátt, að sorgin verður nánast óbærilega þungur förunautur. Tárin streyma þá ýmist fram eða harðneita að koma, reiðin blossar upp og dagarnir virðast gráir af söknuði, einsemd eða eftirsjá.
Margir eru svo lánsamir að geta rætt um líðan sína við ástvin og/eða fagaðila og fundið sér farveg í gegnum grámann. Það merkilega er að oft glitrar á kærleikann eins og perlu í sorginni. Hér má nefna sorgarhópa eða annan vettvang þar sem menn deila hugsunum sínum með öðrum í svipuðum sporum. Presturinn er líka bara eitt símtal eða tölvupóst í burtu og gerir enga kröfu um trúarsannfæringu viðmælandans.
Svo koma jólin. Seríurnar glampa, tónlistin hljómar, smákökurnar ilma. Frelsarinn er fæddur, guðspjallið er á sínum stað og hefðirnar allar. En það vantar hana eða hann sem gaf lífinu lit - makann, barnið, foreldrið, systkinið, vinkonuna, frændann... Aðventan og jólahátíðin geta reynst sérstaklega sár og erfiður tími fyrir syrgjendur. Gildir þá einu þó að mánuðir eða ár séu liðin frá missinum, því að sorgin er langtímaverkefni.
Á þessum tíma árs verða andstæðurnar skarpar milli gleði og sorgar og skammdegið er líka svart þrátt fyrir snjóinn og jólaljósin. Það þarf að finna leið til þess „að komast af þrátt fyrir jólin:“ finna út hvort halda á í allar hefðirnar, hvort og hvenær verður kveikt á kerti og þess látna minnst; að gefa sér tíma til að sakna og syrgja, tíma fyrir minningar og tíma fyrir samtöl við þau sem eru traustsins verð.
Að komast af þrátt fyrir jólin! Þetta getur verið krefjandi verkefni. Þetta er líka yfirskrift samveru, sem haldin verður í Kirkjuselinu í Fellabæ á fimmtudaginn kemur, 30. nóvember kl. 20:00 (sama bygging og íþróttahúsið, aðkoma norðan við húsið). Þangað er þér boðið, hver svo sem bakgrunnur þinn kann að vera. Sr. Kristinn Ágúst Friðfinnsson, sérþjónustuprestur Þjóðkirkjunnar, mun tala til okkar um sorg og missi í nánd jóla en hann er bæði þrautreyndur og drjúgmenntaður í sálgæslunni. Drífa Sigurðardóttir og félagar úr Kór Ássóknar flytja falleg lög, boðið verður upp á kaffi og spjall og dagskránni lýkur með stuttri bænastund þar sem hægt verður að tendra ljós í minningu ástvina.
Guð gefi þér og þínum innihaldsríka aðventu og jólahátíð.
Höfundur er sóknarprestur í Egilsstaðaprestakalli