„Þú ert of veik fyrir mig“

Tara Ösp Tjörvadóttir er ein þeirra þriggja kvenna sem hófu herferðina #égerekkitabú í byrjun október sem nú hefur leitt af sér samtökin Geðsjúk. Alvarlegt þunglyndi tók að gera vart við sig hjá henni skömmu eftir að hún flutti til Egilsstaða fyrir rúmum áratug og á því náði hún ekki tökum fyrr en hún fór að taka lyf fyrir tveimur árum . Í viðtali við Austurgluggann lýsir hún upplifuninni af því að fara á milli heilbrigðisstarfsmanna á Austurlandi, mætingunni í menntaskólann og fordómunum gagnvart eigin líðan og lyfjunum.

Ath: Viðtalið birtist í Austurglugganum 30. október 2015 en er hér endurbirt eftir að Tara var valin Austfirðingur ársins 2015.

„Sem barn bældi ég mikið niður í mér tilfinningar og upplifði mikið af alls konar höfnun. Börn eiga gjarnan til með að setja það inn í hólf og geyma. Þegar ég er nýflutt í Egilsstaði 14 ára gömul kemur allt í einu fram rosalegt þunglyndi. Ég hélt að þetta væri bara af því ég væri að flytja. Fimmtán ára fór ég að stunda sjálfsskaða. Ég vissi ekkert hvað ég gat gert. Ég vissi ekki hvað var í gangi. Í gegnum árin hef ég oft verið veik án þess að vita af því. Maður áttar sig ekki á því þegar manni hefur liðið illa. Ég fann svo ótrúlega til inni í mér og þetta var eina leiðin sem ég sá til að koma sársaukanum upp á yfirborðið, finna létti í smá stund frá öllu sem var að drepa mig að innan. Í þrjú ár var þetta lausnin mín. Ég leitaði í skaðann þegar ég var að gefast upp á öllu. Mig langaði að hætta að lifa en ekki að deyja. Það var of erfitt að vera til.“

Þannig lýsir Tara Ösp, 26 ára kona frá Egilsstöðum, upphafinu að baráttu sinni við þunglyndið. Tara vakti mikla athygli í byrjun mánaðarins þegar hún skrifaði grein á Pressuna þar sem hún rakti upplifun sína og baráttu. Greinin fékk mikil viðbrögð og í kjölfar hennar stóð Tara fyrir herferðinni #égerekkitabú á samfélagsmiðlum ásamt tveimur öðrum stelpum sem einnig hafa glímt við geðsjúkdóma. Fjölmargir Íslendingar nýttu tækifærið til að tjá sig um eigin upplifun. „Fyrri herferðir eins og „Ég er drusla“ og #freethenipple voru fordæmin. Við hvöttum fólk til að koma með sínar sögur. Þetta auðveldaði mörgum að stíga fram. Það þurfti ekki nema eina setningu og myllumerkið. Þannig varð þetta einföld aðferð til að létta aðeins á sér.“

Fleira fylgdi með, merki yfir andlitsmyndir á Facebook og hópurinn Geðsjúk á sama miðli. Daginn eftir að viðtalið var tekið hittust stelpurnar þrjár í fyrsta skipti og það var til að undirbúa stofnun samtaka með því nafni. „Fyrst er að reyna að opna samfélagið og fá umtalið. Við viljum að Geðsjúk verði að eins konar internetathvarfi fyrir þá sem vilja leita sér aðstoðar. Við viljum líka breyta geðheilbrigðiskerfinu þannig að það sé aðgengi að geðheilbrigði eins og öðru heilbrigðiskerfi.“

Erfitt að sjá fólkið þjást í hljóði

Tvennt fékk Töru til að skrifa greinina. Annars vegar verkefni í margmiðlunarnáminu, sem hún stundar í Kaupmannahöfn, þar sem hún ætlar „að sýna andlit geðsjúkdóma“. Í því felst að taka myndir af andlitum 100 einstaklinga sem glímt hafa við geðsjúkdóma og setja saman í myndskeið. Andlitin eru þegar fundin. „Til að geta byrjað sá ég engan annan kost en koma fyrst út úr mínum geðsjúka skáp. Á fyrstu dögunum eftir að greinin birtist fékk ég 100 manns svo ég hætti að leita. Ég sá skilaboð eins: „Ég hef verið lokuð inni en er til í að koma fram á þennan hátt.“ Þegar ég sá þörfina fyrir meiri vitundarvakningu vildi ég gera eitthvað meira þannig að allir gætu sett sitt andlit á.“

Hin ástæðan var að geta hjálpað öðrum í kringum sig. „Þegar mér fer að líða betur veturinn 2014 opnast augu mín fyrir þessu í samfélaginu, til dæmis hjá fólki sem var ótrúlega náið mér. Ég sá einkennin en enginn talaði um þau. Það var erfitt að sjá fólk náið mér þjást í hljóði.

Viðbrögðin sem skiptu mig mestu voru að mjög nákomin manneskja, sem ég vissi að væri þunglynd en frestaði því að leita sér hjálpar, tilkynnti mér að hún hefði hringt í lækni um leið og hún var búin að lesa greinina. Þá vissi ég að ég hefði gert eitthvað rétt.“

Ekki aumingjaskapur eða leti

Greinin hjálpaði líka Töru til að horfast í augu við sjálfa sig. „Ég fattaði ekki fyrr en ég skrifaði hana hvað ég hafði falið mig mikið og hversu mikla fordóma ég hafði sjálf haft. Það vissi enginn af mínu þunglyndi nema mamma og pabbi og það fólk sem ég átti í ástarsambandi við. Þetta kemur upp þegar maður fer að opna sig. Það kemur alltaf að því að maður þarf að segja frá þunglyndinu. Það er byrði að vera í þessum feluleik.

Fólk fer í kerfi þegar minnst er á geðsjúkdóma. Það þarf að tala um þá eins og líkamlega sjúkdóma. Ef þú ert með krabbamein þá veit ég ekki hvað er að gerast en ég spyr þig og segi þér að ég sé til staðar. Þegar mamma las greinina yfir sagði hún við mig: „Þetta er í fyrsta skipti sem ég skil virkilega út á hvað þetta gengur.“ Það er mikilvægt fyrir geðsjúka að fólkið í kringum þá skilji hvað þeir ganga í gegnum og viti að það megi tala um hlutina. Það er líka mikilvægt að vita að maður sé ekki einn. Það er líka erfitt að vera aðstandandi en það er hægt að vera til staðar, segja: „Ég skil þig, ég er til staðar.“ Að skilja að þetta sé ekki aumingjaskapur eða leti.

Það má hvetja viðkomandi áfram en ekki neikvætt með orðum eins og: „Hættu þessum aumingjaskap.“ Maður er í baráttu og vill fá hvatningu en líka skilning á því þegar eitthvað er manni ofviða og maður ræður ekki við aðstæður.“

Allt þetta hefur Tara reynt. Hún segir samfélagið eystra hafa sýnt sér skilningsleysi, jafnvel þótt það hafi viljað hjálpa henni. „Fjölskylduna langaði til að skilja mig og hjálpa mér og reyndi sitt besta en vissi ekkert um hvað þetta snérist. Oft fékk ég að heyra að ég væri aumingi og löt. Þegar ég skaðaði sjálfa mig var sagt að ég væri athyglissjúk eða þetta væri bara tímabil. Ég fékk líka að heyra að ég ætti ekki að láta mér líða svona illa. Það var ekki horft á þennan sjúkdóm eins og líkamlegan. Ég átti bara að díla við þetta, hætta þessu.

Samfélagið sagði mér að hætta aumingjaskapnum, að ég væri vanþakklát fyrir allt sem ég hefði. Að það væri sjálfselska að vilja skaða mig og vilja ekki lifa lengur. Það er hins vegar engin sjálfselska að vera í hjólastól. Það er ekki val.“

Rekin oftar úr skólanum en hægt var

Í greininni lýsir Tara því hvernig þunglyndið hafi dregið úr henni drifkraftinn til allra einföldustu athafna, svo sem að fara fram úr á morgnana, fara í bað eða annað. „Ég var rekin úr Menntaskólanum á Egilsstöðum eins oft og hægt er fyrir lélega mætingu. Ég fann engan skilning í menntakerfinu. Ég vaknaði um nætur og var illt í maganum en vissi ekki af hverju. Þá var líkaminn að búa til einkenni svo ég þyrfti ekki út í lífið. Ég var aumingi því ég gat ekki farið á fætur. Ég var vakandi, ég bara komst ekki fram úr. Ég var svo kvíðin að ég gat ekki hringt í elskulegu konuna í búrinu til að láta vita að ég væri veik og fékk óútskýrð skróp.

Eitt af einkennum þunglyndis er að fólk dregur sig út úr félagslífinu og missir allt í einu áhugann á öllu. Ég hafði engan áhuga á neinu, sá ekki tilgang í neinu, ekki að vera í menntaskólanum og læra. Það varð erfitt fyrir mig að tala við fólk og eiga mannleg samskipti. Að horfa í augun á fólki tók of mikið á. Áður en ég flutti austur var ég félagslega virk með áhuga á fullt af hlutum og með metnað til að mennta mig en missti það allt eftir að ég veiktist.“

Helsta aðstoðin úr menntakerfinu var tími hjá námsráðgjafa. „Ég vil ekki alhæfa um skólann en ég fór í tímann með foreldrum mínum og man að ég fór út hágrenjandi og skellti á eftir mér. Mætingaskyldan var mér gríðarlega erfið, þar var menntakerfið og samfélagið að segja mér að ég væri aumingi.“

Tara lauk hins vegar stúdentsprófi með miklum stuðningi fjölskyldunnar og góðvilja skólastjórnanda. „Þegar ég hafði verið rekin oftar en leyfilegt var og vísað frá inngöngu um alla eilífð gaf Þorbjörn engill (Rúnarsson, fyrrum áfangastjóri og staðgengill skólameistara) mér leyfi til að taka þá fáu áfanga sem ég átti eftir utan skóla. Með mömmu sem hvatningu og foreldra sem drógu mig liggjandi í gegnum skólann kláraði ég hann á fimm og hálfu ári. Þótt þau vissu ekki um hvað veikindin snérust og segðu stundum bannorðin veittu þau mér hvatninguna sem kom mér í gegnum skólann. Þau gáfu mér ekki aðra kosti. Og ég vissi að ég þyrfti að klára hann til að fá frið fyrir þeim. Ég sá ekki eftir því og þakka þeim reglulega fyrir það í dag að hafa komið mér í gegn. Án þeirra væri ég ekkert.“

Flakkaði á milli í heilbrigðiskerfinu

En Töru gekk illa að fóta sig innan fleiri kerfa eystra. „Það er ekki óskastaða að vera geðsjúkur á Austurlandi,“ er það fyrsta sem hún segir þegar við spyrjum hana út í heilbrigðiskerfið.

„Þegar ég greindist með þunglyndi var ég látin flakka á milli, hitta hjúkrunarfræðing í Neskaupstað og lækni á Egilsstöðum. Oft fékk ég að heyra: „Ég get því miður ekki hjálpað þér, þú ert of veik fyrir mig.“ Mér var ráðlagt að fara til sérfræðings fyrir sunnan en hann datt fljótt upp fyrir út af dýrum ferðalögum. Það var ekki fyrr en ég hafði verið veik í sex ár að ég fékk loks sálfræðing eystra sem ég gat talað við.

Kannski var ég bara unglingur sem var ekki tilbúin að ræða við fólk en í þau skipti sem ég mannaði mig upp til að fara eitthvert var þekkingin þar ekki nógu góð. Þá fékk ég þessa höfnun sem setti mig svo langt aftur að ég gafst upp á öllu. Því var erfitt að manna mig upp til að fara aftur og hitta einhvern annan. Mér fannst ég alltaf á byrjunarreit. Að opna mig að tilgangslausu fyrir nýjum og nýjum aðila sem ekki gat hjálpað mér. Það var sérstaklega erfitt því ég var með mikla höfnunarhræðslu þannig að það tók á að fara inn og hitta nýja manneskju og byrja að tala.

Þetta voru jafnvel ekki sérfræðingar í geðsjúkdómum heldur var sagst við mig: „Þessi kona er rosalega indæl, hún gæti hjálpað þér.“ Ég var hins vegar það alvarlega þunglynd að ég þurfti meira en indæla konu sem vildi vel en hafði ekki þekkinguna til að takast á við veikindi mín.“

Tara segir að einkum þurfi tvennt að laga í heilbrigðiskerfinu. Í fyrsta lagi að niðurgreiða sálfræðiþjónustu en meðal þess sem fram hafi komið hjá þeim sem opnuðu sig undir #égerekkitabú var að sumir leituðu sér ekki meðferðar vegna kostnaðar. Hitt er að tryggja að á svæðinu sé til staðar sálfræðingur. „Þú þarft ekki að bíða heima hjá þér í tvær vikur eftir lækni á Egilsstöðum ef þú ert með opið beinbrot. Ég þurfti hins vegar að fylgjast með því í Dagskránni hvenær von væri á næsta sálfræðingi.“

Lifði á milli sálfræðitíma

Og svo eru það tilraunirnar utan kerfanna. „Ég hef reynt alls konar mjög árangurslausar aðferðir til að vinna gegn þunglyndinu. Sú stærsta er að færa hamingjuna yfir á einhvern annan. Í ástarsambandi kennir maður hinum aðilanum um allt þegar manni líður illa.“

Tara var nýflutt til Lundúna haustið 2011 þegar hún gerði sér grein fyrir að hún væri barnshafandi. Meðgangan var erfið, hún var með stöðuga ógleði og hormónarnir fóru á fullt. „Á meðgöngunni lokaði ég mikið af og fannst erfitt að koma aftur inn í samfélagið eystra. Það er frekar lokað, sérstaklega fyrir manneskju eins og mig sem er frekar lokuð.

Sálfræðitímarnir voru það sem björguðu mér. Sálfræðingurinn kom samt bara austur einu sinni í mánuði þannig ég lifði á milli tíma. Mér leið samt bara betur þann dag sem tíminn var, svo fór mér aftur að líða illa. Ég hefði þurft mun meiri eftirfylgni. Ef þú brýtur á þér fótinn er fylgst með þar til brotið er gróið. Það var líka dýrt að vera í fæðingarorlofi og sækja sér sálfræðiþjónustu þar sem maður hefur ekki tekjur.

Eftir að ég eignaðist barn og sá fram á að eiga mikinn tíma drekkti ég mér í vinnu og verkefnum til að flýja vandann. Ég hélt virkilega að ég gæti ekki lifað lífi þar sem ég væri ekki með hverja mínútu í lífinu bókaða.“

Þótt Tara ílengdist á Egilsstöðum með barnsföður sínum og dóttur hafði stutt Englandsdvölin opnað augu hennar fyrir úrræðum annars staðar. „Þar sá ég hve aðgengilegt það var fyrir mig að fara til sálfræðings. Ég segi ekki að það sé ódýrara í Englandi en þar gat maður fengið tíma í vikunni ef á þurfti að halda.

Ég ætlaði alltaf að flytja út aftur en sambandið festi mig þar. Allt í umhverfinu kom hins vegar niður á heilsunni. Mér fannst ég oft rosalega ein í baráttunni og þar hafði mikið að segja að ég bjó á Egilsstöðum. Mér fannst ég vera búin með allt á svæðinu.“

Ég var ekki í neinum skáp

Í dag er margt breytt í lífi Töru. Í byrjun árs fluttist hún til Kaupmannahafnar þar sem hún stundar nám. Um það leyti skráði hún sig einnig í samband við stelpu. „Það kom mér á óvart hvað ég fékk mikið af hamingjuóskum. Ég faldi ekkert, ég var ekki inni í neinum skáp. Ég var bara nýbúin að uppgötva samkynhneigð mína.

Í lok árs 2013 var ég farin að horfa fáránlega mikið á The L Word, sem er lesbíuþáttur. Þá fór ég í mikla sjálfsrannsókn og fór að líta til baka. Ég uppgötvaði að ég hafði í fyrsta sinn verið ástfangin af stelpu í 9. bekk og borið ástartilfinningar til kvenna. Samfélagið var samt alltaf að spyrja: „Áttu kærasta? Í hvaða strák ertu skotin?“ Mér var bara sýnd ein leið og ég sá bara hana.

Það var tilviljun að ég fór að horfa á þessa þætti en þegar ég fór að skoða málið nánar fór ég að heillast af konum alls staðar. Ég missti þessa löngun í karlmann sem var eitt af því sem endaði sambandið. Ég fann mig ekki knúna til að halda áfram að lifa fyrr en ég væri búin að vera með stelpu.

Árið 2014 fór allt í þessa sjálfsskoðun. Ég vissi ekki hvort þetta væru alvöru tilfinningar eða bara tímabil. Eftir að ég fór í samband við stelpu áttaði ég mig á að þetta var ekkert tímabil. Þetta væri sú sem ég er.“

Þessi uppgötvun var eitt af því sem hvatti Töru til að fara frá Egilsstöðum. „Ég þekkti engan samkynhneigðan á Egilsstöðum. Í Reykjavík fór ég út að skemmta mér og gat verið að uppgötva hver ég væri. Þegar ég þurfti að uppgötva kynhneigð mína voru Egilsstaðir ekki það samfélag sem ég gat gert það í. Ég vissi ekki um neitt samfélag samkynhneigðra þar. Það var að minnsta kosti ekkert um það í Dagskránni.“

Lyfin gera mig ekki hamingjusama

Aðspurð segist Tara vera á „mjög góðum stað“ í lífinu í dag. Hún bendir hins vegar á eina lykilákvörðun sem forsendu þeirrar stöðu, sem er að hún fór að taka þunglyndislyf. Til þess þurfti hún hins vegar að vinna á eigin fordómum.

„Ég gat ekki lifað svona lengur. Ástand mitt var farið að hafa slæm áhrif á fjölskyldulífið. Það voru hins vegar eigin fordómar sem héldu mér frá lyfjunum. Ég ætlaði ekki að vera manneskjan sem væri á einhverjum gleðipillum. Það eru viðbrögðin sem ég fæ þegar ég segist vera á þunglyndislyfjum. Lyfin gera mig hins vegar ekki glaða og þess vegna vil ég opna umræðuna þannig að ég þurfi ekki alltaf að endurtaka mig.

Þunglyndi virkar þannig að mann vantar allan drifkraft í lífinu. Með þeim get ég vaknað á morgnana eins og ekkert sé, tekið þátt í daglegu lífi og átt mannleg samskipti án þess að ég eyði endalausri orku í að berjast við hugsanir sem eru rangar. Þegar ég tek ekki lyfin fæ ég alls konar hugboð og sé tækifæri í öllum hlutum í kringum mig til að taka líf mitt. Ég hef hins vegar unnið með boðin það lengi að ég veit að þau eru röng. Ég næ að skilja á milli hvað er þunglyndi og hvað er ég. Ég er alveg ég þegar ég fæ þessi boð en ég vil þau ekki. Síðan þarf ég að gera allt annað eins og aðrir til að vera hamingjusöm.

Það tók tíma að finna lyf sem hentuðu mér. Ég var alveg tilfinningalaus á fyrstu lyfjunum og var hrædd við að finna lyf sem deyfðu tilfinningar mínar alveg.

Lyfin hjálpuðu mér til að koma mér út úr aðstæðum sem ég sá ekki að voru slæmar því ég var svo langt niðri. Þau hjálpuðu mér til að geta unnið betur í mínum málum. Ég gat farið að setja mér markmið, ég stefndi til dæmis alltaf að því að fara út eftir barnsburð en ákveðnir hlutir stoppuðu mig í því.

Ég fékk traustið á sjálfa mig, til að standa á eigin fótum. Ég fann traust til að vera sjálfstæð en ekki upp á aðra og ást þeirra komin. Ég elskaði sjálfa mig nóg.

Það er hins vegar ekki svo að það dugi bara að taka lyf og þá ertu læknaður. Ég þarf áfram að vinna með mig og tala um hlutina. Ég er orðin ótrúlega meðvituð um sjúkdóminn og hvernig hann virkar, hvenær ég finn einkennin. Þegar ég þarf að taka mér dag til hliðar þá geri ég það. Mér finnst það ekki gaman en ég gagnrýni ekki sjálfa mig fyrir það. Ég er veik og hef sætt mig við það. Þess vegna er daglegt líf mitt rosalega gott.“


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.