„Þú fullkomnar mig...“

Þetta sagði Tom Cruise í hlutverki íþróttaumboðsmannsins Jerry Maguire í samnefndri bíómynd. Þessi setning var hluti af síðbúnum ástaróði hans til Dorothy Boyd, hinnar aðalpersónu myndarinnar, sem leikin var af Renée Zellweger. Þegar Cruise hafði lokið máli sínu kom svo reyndar í ljós að honum hefði dugað að segja hæ („you had me at hello“).

Þessi sena þótti einstaklega rómantísk, en var þetta góð byrjun á heilbrigðu sambandi? Það held ég ekki. Leyfið mér að útskýra.

Hugmyndin um að ástarsambönd séu samruni tveggja einstaklinga sem gætu ekki án hvors annars verið er djúpstæð. Ein af eldri heimildunum um hana er að finna í skrifum Platóns, sem sagði Seif hafa skapað manneskjuna með tvö höfuð og átta útlimi, en svo hafi honum ekki litist á blikuna og klofið hana í tvennt. Því væri manneskjan dæmd til að eyða ævinni í að leita að hinum helmingnum og gæti ekki verið hamingjusöm fyrr en sú leit hefði borið árangur.

Svona hugmyndir fengu svo byr undir báða vængi í rómantískum skáldskap nítjándu aldarinnar og hafa verið leiðarstef í rómantískum kvikmyndum og bókmenntum allar götur síðan.

Hugmyndin um betri helminginn og sálufélagann er vissulega rómantísk, en hún er ekkert endilega heilbrigð þegar grannt er skoðað. Hún getur til dæmis flækt makaval stórlega. Leitin getur orðið löng og erfið (jafnvel árangurslaus!) og á endanum er líklegt að valið verði einhvers konar málamiðlun. Stundum nær fólk reyndar að viðhalda sjálfsblekkingunni fram yfir giftingu og telur sig virkilega hafa fundið draumaprinsinn eða prinsessuna til að ríða með inn í sólarlagið.

En lífið er ekki bíómynd eða bók eftir Barböru Cartland. Eftir sólarlagið kemur nótt og svo nýr dagur og þá þarf að ryksuga, vaska upp, borga reikninga, skipta um bleyjur og ákveða hvað í fjandanum á að hafa í kvöldmatinn. Í amstri dagsins kemur brátt í ljós að aðilinn sem átti að fullkomna mann hefur ýmsa leynda galla. Og þá geta kviknað hugsanir eins og: Keypti ég köttinn í sekknum? Hún/hann er ekkert að gera mig hamingjusama(n)! Hvað í fjáranum!

Hinar rómantísku væntingar bíómynda og ástarsagna eru sem sagt í flestum tilvikum óraunhæfar og oft jafnvel skaðlegar.

En það er til heilbrigðari og gagnlegri skáldskapur. Mér finnst skáldið Kahlil Gibran til dæmis svolítið hafa neglt þetta í kvæðabálknum Spámanninum, en þar segir um hjónabandið:

...verið sjálfstæð í einingu ykkar, og
látið vinda heimsins leika milli ykkar.
Elskið hvort annað, en látið ástina ekki
verða að fjötrum
Látið hana heldur vera síkvikan sæ milli
ykkar sálarstranda
Fyllið hvors annars bikar, en drekkið ekki
af sömu skál
Gefið hvort öðru brauð ykkar, en borðið
ekki af sama hleifi
Syndið og dansið saman og verið glöð, en
Leyfið hvort öðru að vera einu, eins og strengir
Fiðlunnar eru einir, þótt þeir leiki sama lag

Gefið hvort öðru hjarta ykkar, en setjið
Það ekki í fangelsi
Og standið saman, en ekki of nærri hvort
öðru:
Því að það er bil á milli musterissúlnanna
Og eikin og kýprusviðurinn vaxa ekki hvort
Í annars skugga
(Þýðing: Gunnar Dal)

Sumsé: Ef einhver bankar upp á hjá þér og segist ekki getað lifað án þín, bentu þá viðkomandi á að fara í massífa sjálfsvinnu og heyra svo kannski í þér þegar hann/hún er komin(n) á betri stað í lífinu. Og í guðanna bænum ekki segja „you had me at hello!“ (Gubb!)

Höfundur er ráðgjafi og fjölskyldufræðingur

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar