Til ráðherra vegna umræðu um þjóðveg 1

Í tilefni þess að nú er í umræðunni hugmynd um færslu þjóðvegar 1 af Héraði niður á Firði þá geri ég eftirfarandi athugasemdir við þessa hugmynd. Vona að Ólöf Nordal hafi eftirfarandi atriði í huga ef hún er að velta þessum hlutum fyrir sér:


1. Hvaða sjónarmið mun ráðherra hafa til hliðsjónar við færslu vegarins? Varla er það umhyggja fyrir öryggi vegfarenda, því vegurinn í sunnanverðum Fáskrúðsfirði er metinn einn af hættulegustu vegaköflum landsins. Þar hafa orðið mörg alvarleg slys. Það vita allir sem þann vega hafa farið, að hann er mjór, með mörgum blindhæðum og blindbeygjum, og sumstaðar er hár bakki niður í sjó. Hef miklar efasemdir um að þessi vegur standist Evrópustaðla. Viljum við beina umferð um slíkan veg?

2. Ef þjóðvegur 1 á að vera sá vegur sem er með mestri þjónustu og á að vera aðalvegur um landið, af hverju er ekki núverandi vegur þjónustaður sem slíkur? Slíka yfirlýsingu er að finna á heimasíðu Innanríkisráðuneytisins. Af þessu má draga þá ályktun að hér sé um að ræða stefnubreytingu hjá ráðuneytinu og nú fari menn að þjónusta þjóðveg 1 í samræmi við þá yfirlýsingu eða hvað?

3. Ég spyr ráðherra: Mun þetta, ef af verður valda töfum á framkvæmdum við uppbyggingu heilsársvegar yfir Öxi sem allir fulltrúar sveitarfélaganna samþykktu á SSA þingi, og þar með tefja fyrir styttingu vegtenginga á milli landshluta, sem hlýtur þó alltaf að vera markmið, að stytta leið okkar um landið. Myndu Akureyringar sætta sig við 10 km lengingu þjóðvegarins til Reykjavíkur?

4. Í umræðunni hefur verið nefnt að erfitt verði að halda Öxi opinni að vetri, hún sé of há. Á þetta hefur ekki reynt, þar sem ekki er til staðar uppbyggður vegur. Til samanburðar þá er Öxnadalsheiði 540 m. yfir sjávarmáli, eða 8 m. hærri en Öxi. Ekki stendur til að loka henni vegna snjóa.

5. Vegagerðin hefur þegar hannað veg yfir Öxi. Varla hefði hún gert það ef hún teldi verkefnið óframkvæmanlegt.

6. Ráðherra var staddur á SSA þingi síðastliðið haust og ætti að vera ljós eftirfarandi ályktun sem samþykkt var á þinginu:

Nýframkvæmdir

a) Aðalfundur SSA haldinn á Djúpavogi 2. og 3. október 2015 leggur nú sem fyrr þunga áherslu á að uppbyggingu heilsársvegar um Öxi verði flýtt frá núverandi samgönguáætlun enda um forgangsverkefni að ræða. Jafnframt er ítrekuð fyrri ályktun um að Vegagerðin framkvæmi faglegt mat á legu þjóðvegar nr. 1 um Austurland. Óskað er eftir því að vinnu við matið verði hraðað eins og kostur er og niðurstöður þess verði kynntar samgöngunefnd SSA hið fyrsta. Afar brýnt er að lokið verði lagningu slitlags og endurbyggingu eftirtalinna vega; um Breiðdal, Suðurfjarðarveg, Hamarsfjörð og Borgarfjarðarveg til að tryggja umferðaröryggi, ekki síst í ljósi aukins umferðarþunga.

Eru það kannski hagsmunir sem ráða ferðinni í þessari umræðu en ekki öryggi vegfarenda og það meginmarkmið Vegagerðarinnar hingað til að stytta leiðir milli landshluta? Spyr sá sem ekki veit?

Með kveðju til allra Austfirðinga,
Höfundur er bæjarfulltrúi Á-lista á Fljótsdalshéraði

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.