Til varnar öðrum

Eitt af því sem maður á ekki að gera er að fara með sögu, eða sögubrot sem maður ekki kann. Þar sem maður þekkir ekki aðalpersónur og er ekki einu sinni viss um að hafa vettvanginn réttan. En hér helgar tilgangurinn sem sé meðalið. Ég ræ á vafasöm mið, eins þótt ég viti að þetta á maður ekki að gera. Þessi pistill fjallar sem sé um það sem fólk á ekki að gera og sérstaklega ekki gamlir gráhærðir, og eða, sköllóttir karlar.

Ég semsagt bara held að þetta hafi verið svona með þennan kosningafund á Héraði þar sem Eysteinn… Já, ætli ég verði að ættfæra hann, prestsoninn og prestbróðirinn sunnan af Djúpavogi sem var einhver yngsti ráðherra sem við höfum eignast og það fjármálaráðherra 27 ára. Þegar þessi fundur var haldinn, var hann fimmtugur, aftur orðinn fjármálaráðherra og það var verið að byggja virkjun í Grímsá í Skriðdal.

Auðvitað var þetta arfavitlaus framkvæmd eins og næstum allar slíkar hafa verið í Íslandssögunni en byggð þrátt fyrir andmæli sem trúlega hafa nú lotið að því að þetta væri vatnslaus á og alltof lítil virkjun fyrir ört vaxandi markað. Eysteinn fór halloka í umræðum en ég man ekki lengur við hvern. Ég man ekki heldur hver það var sem tók sig til og varði Eystein með orðunum: „Hann Eysteinn er nú enginn raffræðingur“. Sem síðan hafa verið notuð meðal „raffræðinga“ á Austurlandi fram á þennan dag þegar í umræðuna hefur ratað eitthvað miður gáfulegt. Þannig að þetta hefur augljóslega verið mikið notað.

Í dag þarf 2. þingmaður þessa sama svæðis sem að vísu hefur þanist út yfir helftina að Norðurlandi líka, á svona vörn að halda og ég ætla bara að segja að Steingrímur J. er nú enginn sagnfræðingur og heldur ekki stjórnmálafræðingur. Ég er, svo dæmi sé tekið, að velta því fyrir mér hvort Hannes Hólmsteinn hefði brugðist eins og Steingrímur við „mótmælendum“ í stóra Píumálinu ef hún hefði nú verið Stalínisti á blómatíma kalda stríðsins.

Hvað söguna varðar er auðvitað afskaplega eðlilegt að viðra topp „kynþáttamismunara“ á Þingvöllum sem, fyrir gefið, eiga einmitt þess háttar sögu. En fyrir þann sem er þingmaður fyrir Austfirðinga og Þingeyinga er ákaflega óheppilegt að standa í að gagnrýna fólk fyrir að benda einmitt á það. Við eigum nefnilega ekki bara að þakka Bretum fyrir að bjarga okkur um korn þegar Askja gaus heldur líka fyrir að skella á okkur hryðjuverkalögunum sínum þegar verið var að féfletta fólk hér og þar.

Auðvita hlýtur það að teljast eðlilegt að skynja samband Danmerkur og Íslands með misjöfnum hætti. Ég get til að mynda vel ímyndað mér að þeir karlar sem þola ekki að tapa kosningum fyrir konum og kljúfa flokka út á það; horfi með allt öðrum augum til Píu heldur en þeir sem vilja veg kvenna sem allra mestan.

Ég skil það líka að það fólk sem látið hefur framkomu íslenskra stjórnvalda í garð flóttafólks átölulaust ár eftir ár finnist það óþægilegt að með þessari þjóð sé til fólk sem er bara ekki til með að halda sér saman eftir pöntun prótókollsmeistara.

Við skulum bara fara að læra það utanbókar að fullveldið leystist með Slésvík og að við urðum svo hersetið lýðveldi til að útvega stjórnvöldum í Washington hræbillegt „atkvæði“ í samfélagi þjóða.

Og svona eins og í meðal góðri hátíðarræðu og til að blanda engum núlifandi í málið ætla ég Austfirðingurinn og Þingeyingurinn, að nefna bara nokkur nöfn úr sögunni, því miður mest Karla, þið getið gúgglað þau ef mér tekst að skrifa þau rétt, og með vissum hætti þeirra vegna, þakka ég öllum þeim sem með einhverjum hætti andæfðu forseta danska þingsins á dögunum.

Fyrir Hans Jónatan, Thorkild Hansen, Jón Eiríkson, Karen Blixen , Jón Stefánsson, Gyðu Thorlacius og Joachim Godske Moltke.

Hrafn Baldursson, Rjóðri

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.