Tími til breytinga
Norðausturkjördæmi nær yfir gríðarmikið landsvæði og þar býr kraftmikið fólk sem hefur skapað sér skilyrði til lífs og vinnu við erfiðar aðstæður með aðdáunarverðum árangri. Hví segi ég erfiðar aðstæður? Flestum þætti víst nóg að glíma við veðurguðina svo nærri klakabreiðum norðurskautsins en því miður hafa byggðamál á Íslandi þróast með þeim hætti að halda mætti að skipulega sé unnið að því að allir landsmenn skuli flytja á suðvesturhornið.
Skattar sem íbúar svæðisins greiða til ríkisins skila sér í of litlu mæli aftur til baka. Opinber þjónusta er skorin niður á að því er virðist markvissan hátt og það ferli hófst löngu fyrir efnahagshrunið 2008. Mennta- og heilbrigðisstofnanir hafa um langt skeið barist við fjársvelti og flestar, ef ekki allar, greinar félagsmála líka. Samgöngumál eru vanrækt og slíkt hefur í för með sér gríðarlegan kostnað fyrir íbúa svæðisins og fyrirtæki.
Er ekki kominn tími til að snúa vörn í sókn? Það er aragrúi spennandi tækifæra á svæðinu sem hreinlega öskrar á að gripið verði í taumana og það ekki seinna en strax. Við í Hægri Grænum treystum okkur til þess.
Við erum borgara- og millistéttarflokkur, flokkur tíðarandans, raunsæisstjórnmála og umbótasinnaður endurreisnarflokkur. Við höfum kraft og þor til þess að gera það sem gömlu flokkarnir lofa fyrir hverjar kosningar og svíkja svo. Við erum venjulegt fólk sem hefur fengið nóg og vill breytingar.
Við viljum einfalda skattkerfið og taka upp flatan 20% skatt og minnka launaskatt eða tryggingagjald niður í 3% en við teljum það nauðsynlegt til að blása til sóknar á öllum sviðum atvinnulífs. Rýmka þarf heimildir flugvalla á landsbyggðinni ef aðstæður leyfa til að sinna millilandaflugi og til að auka öryggi, atvinnuuppbyggingu og möguleika í ferðaþjónustu.
Við teljum nauðsynlegt að efla háskólamenntun og stuðla með því að betra mannlífi og lýðræðislegra samfélagi. Aukin háskólamenntun helst í hendur við aukinn hagvöxt og vinnur gegn stéttamun. En ef háskólinn á að vera fyrir alla verður hann einnig að breytast og þróast áfram. Nám á háskólastigi á að vera fjölbreytt, bæði verklegt og bóklegt. Menntun á ekki að vera forréttindi fárra og er þar háskólamenntun ekki undanskilin. Þetta markmið krefst nýrrar hugsunar og nýrra leiða í háskólanámi. Líkt og gildir um annað nám, þá á það að vera samfélagsskylda að stuðla að því að sem flestir njóti háskólamenntunar, óháð búsetu.
Við viljum gera handfæraveiðar frjálsar frá apríl til október eða frá fyrsta sumardegi til fyrsta vetrardags og að öllum afla verði landað skilyrðislaust. Við viljum hefja stórsókn í uppbyggingu ferðaþjónustu í landinu. Leggja á höfuðáherslu á að styðja frumkvæði heimamanna á hverjum stað til að treysta grunnstoðir ferðaþjónustunnar. Ferðaþjónustan ætti að vera byggð upp með sjálfbærum umgengnisháttum. Auka þarf fjárfestingu í markaðsaðgerðum og landkynningu. Einnig þarf að hlúa að fjölsóttum ferðamannastöðum til að tryggja að aukin aðsókn ferðamanna hafi sem minnst rask í för með sér.
Við viljum að raforka verði seld til bænda á stóriðjuverði. Við viljum koma á fót ylræktarverum og stórauka útflutning íslensks grænmetis. Virkri beitarstjórnun þarf að koma á til að hindra ofbeit og tryggja þarf aukna þátttöku bænda í landgræðslu, skjólbeltarækt og skógrækt.
Við tökum heilshugar undir orð forseta Íslands, Ólafs Ragnars Grímssonar, um að íslensk stjórnvöld munu koma á laggirnar sérstökum olíusjóði undir mögulegan olíuauð Íslendinga í framtíðinni. Við teljum að olíuævintýri á borð við það norska sé í uppsiglingu og að þar munu íbúar og fyrirtæki í Norðausturkjördæmi leika lykilhlutverk. Þar sem flokkurinn lítur á þessa auðlind sem þjóðarauðlind, þá verður stofnaður sérstakur sjóður í almannaeigu. Einnig er mikilvægt að samvinna verði höfð við ríki Norðurskautsráðsins þegar kemur að því hvernig fyrirbyggja eigi olíuleka og standa að björgunar- og leitaraðgerðum á svæðinu. Þá verður löggjöf í kringum olíuiðnaðinn byggð á grundvelli löggjafar Norðurlandanna og Evrópusamstarfsins.
Við í Hægri Grænum höfum trú á ykkur, fólkinu sem lifið hér og starfið. Ef við fáum til þess umboð í komandi kosningum, munum við standa með ykkur og berjast fyrir ykkur.
Fyrir þá sem vilja kynna sér Hægri Græna betur, bendi ég á vefsíðu flokksins xg.is .
Ég vil enda á að rifja upp vísdómsorð sem áttu vel við og eiga enn:
„Farsæld þjóðanna er ekki komin undir því, að þær séu mjög fjölmennar eða hafi mjög mikið um sig. Sérhverri þjóð vegnar vel, sem hefir lag á að sjá kosti lands síns og nota þá, eins og þeir eiga að vera notaðir. Löndin eru lík einstökum jörðum, ekkert land hefir alla kosti, og engu er heldur alls varnað. En það ríður á að taka eftir kostunum og nota þá vel, en sjá til, að ókostirnir gjöri sem minnst tjón.“
- Jón Sigurðsson, forseti 1838.
Lifið heil.
Höfundur skipar 1. sæti Hægri grænna í Norðausturkjördæmi