Tökum ábyrgð á orðum okkar

Heimur batnandi fer. Ef við skoðum stöðu kvenna og fólks af erlendum uppruna þá erum við svo sannarlega á réttri braut og staðan allt önnur en hún var fyrir nokkrum áratugum síðan, sem betur fer. Fleiri og fleiri bætast í hóp okkar sem þegjum ekki heldur höfum hátt þegar við verðum vitni að hvers kyns fordómum og kvenfyrirlitningu.

Því miður gerist það enn reglulega, já líka hér í Fjarðabyggð. Hér, eins og annars staðar, er enn fólk sem finnst í lagi að hlutgera konur, tala um þær á niðurlægjandi hátt, til dæmis sem eignir karlmanna og jafnvel blanda húðlit í málið.

Og hér er enn fólk, jafnvel fólk sem situr á lista sem talar fyrir félagshyggju og jöfnuði, sem finnst í lagi að fara upp á svið fyrir framan nokkur hundruð samstarfsmanneskjur og aðra gesti og viðhafa mjög rasísk og kvenfjandsamleg ummæli um fyrrum og núverandi samstarfskonur undir þeim formerkjum að það sé nú bara verið að grínast.

Við í VG í Fjarðabyggð fordæmum hvers kyns mismunun og fordóma. Við fordæmum rasisma og kvenfyrirlitningu og gerum þá kröfu að fólk taki ábyrgð á orðum sínum og gjörðum.

#göngumlengra fyrir mannréttindi.

Höfundar skipa þrjú efstu sætin á framboðslista Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs í Fjarðbyggð fyrir sveitarstjórnarkosninganar þann 14. maí.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.