„Áttu borð fyrir einn?“

katy.jpg
Ég fæ þetta flennifína borð úti við glugga. Opna matseðilinn, þykist skoða, panta.

Þetta er ég, Katrín Jóhannesdóttir, oftast kölluð Katý. Mig langar að segja eins og skáldsagnapersónan Þórsteina Þórsdóttir; „ég er ein – en ekki einmana“. Þórgunna er kennslukona og það er ég einmitt líka. Kenni hannyrðir við Handverks- og hússtjórnarskólann á Hallormsstað. Ég kom austur á Hérað til að hefja minn starfsferil sem kennslukona fyrir 4 árum síðan, algerlega ættlaus á Héraði.

Ég er Borgnesingur, með ítök í Skagafirði og Dölum – og það er vel. Af Kaupfélagsfólki komin af báðum kynjum.

Mágur minn átti erfitt uppdráttar á Akureyri á sínum tíma. Hann var svo óheppinn að vera ættlaus að sunnan, drengurinn.  Sem nýflutti kandídatinn var hann að sjálfsögðu spurður: 
„Jæja lagsmaður, og hvaðan ertu svo?“ 
„Ég kem úr Kópavoginum“.  
„jájá“. (punktur)

Eftir nokkra sviplitla vinnudaga tók mágsi á það ráð að svara spurningunni á annan hátt.
„...en konan mín er ættuð úr Skagafirði“. Þar með var komið nýtt hljóð í strokkinn og mágsi fékk gott sæti á kaffistofunni!

Kynni mín við Hérað urðu þó fyrst nokkuð náin vorið 1994. Ég var þess blessunarlega aðnjótandi að grunnskólakennarar smelltu sér í heljarinnar verkfall fyrir páska, og á þessum tíma var systir mín að nema húsmóðurfræði á Hallormsstað. Við systurnar, sem allteins gætum verið tvíburar (ef ekki væri fyrir 12 ára aldursmuninn) erum svo nánar að okkur datt það snjallræði í hug hvort sú stutta ætti ekki bara að pakka niður í tösku og mæta á skólabekk með stóru. Það varð úr að ég var boðin svona hjartanlega velkomin og var ein af námsmeyjunum í heila viku, þá 10 ára gömul. 
Ég fékk svo plagg við útskriftina og þar með voru framtíðarplönin skrifuð í skýin!

Nú, síðan liðu 15 ár, 3 skólagráður, búferlaflutningar og ófá saumspor – og ég settist hinum megin borðsins. 

Takk fyrir dásamlegar móttökur kæru Héraðsbúar!

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar