Tíu bestu pólitísku gjörðirnar árið 2012

austurfrett_profile_logo.jpg
Það vill oft bera við að umræða um íslensk stjórnmál sé fyrst og fremst neikvæð. Þetta hefur ekki síst átt við undanfarin ár. Svo áberandi verða mistökin og vitleysan að hið góða, uppbyggilega og hið klóka gleymist. Austurfrétt hefur tekið saman lista með tíu gjörðum íslensks stjórnmálafólks sem við teljum ýmist jákvæðar, uppbyggjandi eða sérlega klókar. Þá höfum við tekið út fyrir sviga þrjú atriði sem við teljum standa upp úr hjá austfirskum stjórnmálamönnum.

10. Ráðstefna velferðarráðuneytisins, mennta- og menningarmálaráðuneytisins innanríkisráðuneytisins og Háskóla Íslands um klám
Þrjú ráðuneyti tóku höndum saman með lagadeild HÍ og héldu ráðstefnu um efnahagsleg og samfélagsleg áhrif kláms og hver afskipti ríkisins eiga að vera af útbreiðslu þess. Málefnið er umdeilt og flókið og á ráðstefnunni fór fram fagleg umræða frá ýmsum sjónarhornum.

9. Þverpólitískur meirihluti á Alþingi um að ný barnalög tækju gildi strax um áramót og að álögur á margnota bleyjur og smokka lækki
Ráðgjafar okkar voru ekki sammála um að þessi mál ættu endilega að standa saman, en að mati sumra voru þessi atriði misjákvæð.. Það sem ræður hins vegar úrslitum í okkar huga er að hér náðu stjórnmálamenn saman, nokkuð þvert á flokka og beygðu stjórnarmeirihlutann. Það gerist afar sjaldan á Íslandi og er nokkuð sem á þarf að halda til að komast upp úr hefðbundnum skotgrafahernaði. Þannig er meiri von til þess að eitthvað gerist til gagns. Við þetta bætist að tillögurnar koma almennt barnafjölskyldum til góða.

8. Framganga Guðbjarts Hannessonar í PIP-brjóstapúðamálinu
Hinir gölluðu PIP-brjóstapúðar komust í hámæli í byrjun ársins. Í mars ákváðu stjórnvöld, með velferðarráðuneytið í broddi fylkingar, að bjóða öllum konum sem fengið höfðu slíka brjóstapúða hérlendis að þeir yrðu fjarlægðir. Aðgerðin byggðist vissulega á faglegu mati landlæknis en íslensk stjórnvöld gengu þarna lengra en hjá flest nágrannaríki okkar í styðja við þær konur sem sannarlega voru fórnarlömb í þessu máli.

7. Lenging fæðingarorlofs
Samþykkt hefur verið að fæðingarorlof verði lengt úr níu mánuðum í tólf og hámarksgreiðsla  hækkar úr 300.000 krónum á mánuði í 350.000 krónur. Annað mál úr velferðarráðuneytinu. Fæðingarorlofið er mikilvægt tæki í jafnréttisbaráttunni og því er þetta jákvætt skref á ýmsan hátt.

6. Stuðningur utanríkisráðuneytisins við málstað Palestínumanna og fordæming á gjörðum sýrlenskra stjórnvalda
Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, hefur áratugum saman verið óþreytandi í stuðningi sínum við málstað Palestínumanna. Á árinu skipuðu Íslendingar sendiherra gagnvart Palestínu, voru meðflutningsaðilar að tillögu um að Palestína fengi að eiga áheyrnarfulltrúa hjá Sameinuðu þjóðunum og fordæmdu áætlanir Ísraela um nýjar landnemabyggðir. Þá hafa íslensk stjórnvöld, í samvinnu við hin Norðurlöndin, fordæmt árásir sýrlenskra stjórnvalda í borgarastyrjöldinni þar.

5. Endurskipulagningu á stjórnarráðinu lokið
Loksins, loksins lauk endurskipulagningu stjórnarráðsins og sameiningu ráðuneyta. Nú á að vera komið nútímalegra og straumlínulagaðra skipulag á. Það hefur hins vegar tekið allt kjörtímabilið og menn ekki alltaf skilið hvert væri stefnt. Flestir flokkar hafa á einhverjum tímapunkti verið með málefnið á sinni stefnuskrá en úr stuðningnum kvarnaðist oft þegar á reyndi. Fyrir mestu er að stórt, erfitt og flókið mál er í höfn – að minnsta kosti þar til ný ríkisstjórn tekur við!

4. Ólafur Ragnar kláraði kosningabaráttuna í einu útvarpsviðtali
Baráttan í forsetakosningunum hófst og lauk að morgni sunnudagsins 13. maí, daginn fyrir afmælisdag forsetans. Hann mætti þá í útvarpsviðtal á Bylgjunni og skaut svo föstum skotum að keppinautum sínum að þeir báru aldrei sitt barr eftir það. Deila má um hvort allt var 100% rétt í málflutningi forsetans eða hversu málefnalegur hann var, en stjórnmálamaðurinn Ólafur Ragnar vissi hvað hann var að gera. Hann vissi hvað hann ætlaði segja, hvernig og til hverra hann ætlaði að ná. Þar með sannaði hann sig enn og aftur sem slyngasti stjórnmálamaður Íslands í dag.

3. Björt framtíð og gistináttaskatturinn
Lítið fór fyrir Guðmundi Steingrímssyni fyrsta árið hans sem sjálfstæður þingmaður. Eftir að hann fékk Róbert Marshall til liðs við sig úr stjórnarmeirihlutanum jókst vægi þeirra töluvert. Þeir notuðu tækifærið til að taka afstöðu gegn óvinsælum gistináttaskatti. Þar með beygðu þeir ríkisstjórnina og sýndu áherslu Bjartrar framtíðar á atvinnulífið fyrir alvöru. Klókt.

2. Útganga forsetaefnanna í kappræðum Stöðvar2
Vissulega er einkafjölmiðlum í sjálfsvald sett hvað þeir gera og Stöð 2 virtist ætla að gera hvað sem er til að tryggja að þeirra þáttur snérist um Ólaf Ragnar og Þóru Arnórsdóttur. Það snérist í höndunum á þeim. Aðrir frambjóðendur lýstu strax yfir andstöðu sinni sem varð til þess að stöðin neyddist til að bjóða þeim líka. Það virtist aðallega vera til að troða dúsu upp í þá sem þeir létu ekki bjóða sér. Þegar ljóst var að þeir áttu að vera aukaleikarar stóðu þeir fast á sínum prinsippum, tóku stjórnina í upphafi þáttarins, lásu upp yfirlýsingu og gengu út. Nokkurra mínútna hlé fylgdi í kjölfarið meðan stjórnendur þáttarins reyndu að bjarga honum fyrir horn.

1. Jón Gnarr í gleðigöngunni og stuðningurinn við Pussy Riot
Jón Gnarr mætti, í sínu fínasta pússi að vanda, í gleðigönguna. Að þessu sinni notaði hann tækifærið til að koma á framfæri skilaboðum til rússneskra stjórnvalda – og annarra – um að gjörðir aðgerðahópsins Pussy Riot verðskulduðu ekki fangelsisvist. Það sem Jón Gnarr gerði var frumlegt. Í stað grámyglulegrar yfirlýsingar borgarstjóra í jakkafötum, sem öllum er sama um, kom einföld, litrík yfirlýsing sem náði strax athygli langt út fyrir landsteinanna.

Þrjár gjörðir sem stóðu upp úr í austfirskum sveitarstjórnarmálum á árinu
 
Barátta Vopnfirðinga fyrir að halda hjúkrunarheimilinu Sundabúð opnu
Vegna skertra fjárframlaga frá ríkinu vildu stjórnendur Heilbrigðisstofnunar Austurlands loka hjúkrunarheimilinu á Vopnafirði og flytja gamla fólkið frá sínum heimahögum. Vopnfirðingar brugðust ókvæða við. Barátta þeirra hefur komið áformum um lokun á hilluna og útlit er fyrir að þeir taki reksturinn að sér sjálfir.

Slagur Fljótsdalshéraðs og Landsvirkjunar vegna fasteignagjalda
Fljótsdalshérað hafði Landsvirkjun undir í úrskurði innanríkisráðuneytisins í vor og fékk þar viðurkenningu á að greiða bæri fasteignagjöld af vatnsréttindum sem fyrirtækið eignaðist vegna byggingar Kárahnjúkavirkjunar. Þessi úrskurður er aðeins angi af mun stærra máli sem snýst um greiðslu fasteignagjalda af virkjanamannvirkjum almennt. Þó ljóst að þessi úrskurður gæti haft mikil áhrif og verið fordæmisgefandi vegna vatnsréttinda sem nýtt eru annarsstaðar. Fáir skilja af hverju aðeins á að greiða gjöld af stöðvarhúsi virkjunar en til dæmis ekki stíflum Baráttan gæti enn dregist á langinn. Landsvirkjun ætlar að draga Fljótsdalshérað og Þjóðskrá fyrir dómstóla vegna málsins. 

Fjarðabyggð og undirskriftarsöfnun fyrir Norðfjarðargöngum
Allir listar í bæjarstjórn Fjarðabyggðar tóku höndum saman og skipulögðu undirskriftasöfnun til stuðnings nýjum Norðfjarðargöngum í sveitarfélaginu. Hún gekk frábærlega, á fjórða þúsund undirskrifta safnaðist og útlit er fyrir að byrjað verði á göngunum á næsta ári. Mikil og eftirtektarverð samstaða var einnig um málið meðal sveitarfélaga á Austurlandi, sem flest ef ekki öll studdu dyggilega við baráttu Fjarðabyggðarmanna í málinu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.