Um hvað er kosið næsta laugardag?
Næstkomandi laugardag munum við ganga til kosninga og velja okkar
fulltrúa á Stjórnlagaþing Íslendinga. Stemmingin er sérstök, engar
skoðanakannanir hafa verið haldnar, persónukjör er viðhaft í fyrsta sinn
og niðurstöður 1000 manna þjóðfundar eru svo bæði okkur og
frambjóðendum til leiðsagnar.
Ég hef talsvert velt vöngum yfir því hvern skal kjósa og ekki síður um
hvað er verið að kjósa um? Niðurstöður þjóðfundar í stuttu máli snúast
um þrískiptingu valds, persónukjör, landið eitt kjördæmi og auðlindir í
þjóðareign. Er þetta ekki hið besta mál?
Vissulega er mikilvægt að þrískiptavaldi t.d. að sama fólk geti ekki bæði farið með löggjafar, framkvæmdar og dómsvald. Til dæmis mætti færa rök fyrir því að dómsmálaráðherra hafi þrenns konar vald, hann er handhafi framkvæmdavalds í sínu embætti sem og löggjafarvalds á alþingi og dómsvalds með því að skipa hæstaréttardómara, það geta flestir verið sammála um að þetta er galið.
Persónukjör virkar vel þegar við viljum velja ábyrgt og traust fólk til forystu en slæmt þegar það snýst um vinsældarkosningar auk þess sem líklegt er að við sveitamennirnir og landsbyggðatútturnar yrðum undir.
Landið eitt kjördæmi og jafnt vægi atkvæða hljómar skynsamlega fyrir eina þjóð í einu landi en er málið svo einfalt? Sumir segja að það sé mikilvægt að löggjafinn sé hlutlaus og hafi heildarhagsmuni í huga og að ekki megi rugla saman byggðastefnu og pólitík, en er byggðastefna eitthvað annað en pólitík?
En er ekki hætta á því að ef þingmenn eru fulltrúar allra þá verði ábyrgð þeirra óskýr og erfiðara fyrir lýðinn að nálgast sína fulltrúa, hvert er lýðræðið þá farið? Má ef til vill segja að svokallaðir landsbyggðapotarar sem þingmenn t.d. í okkar ágæta kjördæmi eru kallaðir séu lýðræðislegri en aðrir þingmenn þar sem þeir standa nær sínum kjósendum og vernda hagsmuni þeirra oft óháð flokkslínum?
Kanski eru einmenningskjördæmi og persónukjör lýðræðislegasta leiðin þar sem hver þingmaður er á þingi fyrir ákveðinn hóp/svæði sem heldur honum við efnið? Myndum við ekki kjósa þann sem við treystum best í stað þess að fylgja flokkslínum í slíkum kosningum?
Þá koma aftur rökin um löggjafavaldið og hvort kjördæmapotarar geti samið lög? En hvað eru lög annað er leikreglur samfélagsins og þurfa þau þá ekki að vera málamiðlun og samhljómur sem flestra sjónarmiða? Spurninginn er hvernig við getum tryggt að þeir sem fara á þing taki mið af fjölbreyttustu hagsmunum lýðsins þegar þeir setjast við skriftir og semja nýja umgjörð utanum samfélagið Ísland?
Þá komum við að auðlyndunum sem við fyrir löngu afsöluðum okkur þ.e. þegar frjálst framsal aflaheimilda var samþykkt og þegar við ákváðum að selja innlendum og erlendum stórfyrirtækjum orkuna okkar á kostakjörum í gegnum Landsvirkjun, HS Orku o.s.frv.
Það verður erfitt að snúa við af þessari braut en vonandi tekst okkur að finna lausn sem verður til þess að við náum jafnvægi í hagnýtingu auðlynda með sjónarmið sjálfbærrar þróunar að leiðarljósi sem og eðlilega byggða- og atvinnuþróun.