Um jafnrétti og kynjakvóta
• Kynjakvótar eru leiðindafyrirbæri.
• Það á eingöngu að líta til þess að ráða hæfasta einstaklinginn.
• Það er fáránlegt að mismuna fólki á grundvelli kyns.
Þessum fullyrðingum er ég hjartanlega sammála. Ég er þó fylgjandi kynjakvótum og jákvæðri mismunun í ráðningum. Hvernig má þetta vera? Er ég í hrópandi mótsögn við sjálfa mig? Nei það er ég ekki.
Í mörg þúsund ár hafa kynjakvótar og mismunun á grundvelli kyns tíðkast. Karlar hafa svo gott sem einokað allar valdastöður þar til á allra síðustu áratugum og eru þar enn í miklum meirihluta. Allan þennan tíma hefur samfélagið með ýmsum leiðum stimplað það inn í undirmeðvitund okkar að karlar séu hæfari til að taka ákvarðanir og konur séu hæfari í að hugsa um börnin.
Það er erfitt að vinna gegn þessari innprentun og það gerist ekki á nokkrum áratugum af sjálfu sér, jafnvel ekki þó við værum öll sammála um að vilja jafnrétti. Ef við viljum jafnrétti en gerum ekkert í því mun það líklega taka okkur jafn langan tíma að vinda ofan af kynjakerfinu.
Við höfum í allt of mörgum tilfellum séð árangur jafnréttisbaráttunnar verða tvö skref áfram og svo eitt aftur á bak. Ég nefni sem dæmi bakslag í jafnréttisviðhorfum unglinga þar sem viðhorf þeirra til jafnréttismála mældust neikvæðari árið 2006 en 1992 og enn neikvæðari 2008. Einnig mælist óútskýrður launamunur kynjanna meiri nú árið 2012 en var árið 2008.
Ef okkur er alvara með því að vilja jafnrétti kynjanna og erum ekki tilbúin til að bíða í mörg þúsund ár eftir því verðum við að vinna markvisst að því og grípa til aðgerða á borð við kynjakvóta og fleiri ráða.
Ég hlakka til þess dags þegar við getum lagt kynjakvótana til hliðar en þangað til skora ég á alla jafnréttissinna til að grípa til raunverulegra aðgerða í jafnréttisbaráttunni. Ég vil líka minna á að baráttan snýst ekki um konur gegn körlum heldur að við tökum öll höndum saman og vinnum að sameiginlegu markmiði okkar sem er samfélag jafnréttis þar sem hver og einn getur valið sér starfsvettvang eftir eigin áhuga.
Höfundur er óþolinmóður jafnréttissinni og óskar eftir stuðningi í annað sæti á framboðslista VG í Norðausturkjördæmi