Orkumálinn 2024

Um mögulega Geitdalsárvirkjun

Hér á Austurfrétt var nýlega birt grein um mögulega virkjun Geitdalsár. Greinarhöfundur virðist andsnúinn hugmyndum um virkjunina og jafnframt þátttöku einkaaðila í raforkuframleiðslu. Gott og vel. Í greininni er hins vegar að finna aragrúa rangfærslna og aðdróttana sem snúa að fyrirtækinu Arctic Hydro og verkefninu. Helstu rangfærslur greinarinnar verða hér leiðréttar í þágu heilbrigðrar umræðu um málefnið.

Ekki verður fjölyrt um stöðu einkafyrirtækja á raforkumarkaði. Þó er bent á að með raforkulögum nr. 65/2003 var samkeppni á raforkumarkaði leidd í lög. Með því skapaðist grundvöllur fyrir framleiðslu og sölu rafmagns á jafnréttisgrunni, m.a. frá heimarafstöðvum upp til stærri virkjana einkaaðila. Innkoma einkaaðila á raforkumarkað hefur m.a. haft þau áhrif að réttindi landeigenda eru ekki lengur afgangsstærð. Grunnur virkjunarundirbúnings eru samningar og samstarf við landeigendur.

Arctic Hydro hefur gert samning við Fljótsdalshérað um leigu á vatnsréttindum og landi vegna mögulegrar Geitdalsárvirkjunar. Sveitarfélagið er eigandi svokallaðs Geitdalsafréttar, sem liggur norðan Geitdalsár. Landið austan megin árinnar er eign íslenska ríkisins. Arctic Hydro verður ekki eigandi vatnsréttinda eða landi sem Geitdalsárvirkjun myndi nýta.

Réttar upplýsingar

Greinarhöfundur, sem titlar sig hátækniverkfræðing, er starfsmaður EFLU verkfræðistofu. Í ljósi þess bakgrunns koma skrifin á óvart og virðast fullyrðingar höfundar annað hvort settar fram gegn betri vitund eða hann staðráðinn í að viðhalda þekkingarleysi sínu um málið.

Í greininni er því haldið fram að Arctic Hydro hafi ekki reynslu til að standa að byggingu Geitdalsárvirkjunar þar sem félagið reki aðeins Skarðsvirkjun, sem 85 KW. Rétt er að Arctic Hydro er annar eigandi Múlavirkjunar á Snæfellsnes, á móti heimamönnum. Virkjunin er 3,2 MW. Félagið byggir nú Hólsvirkjun í Fnjóskadal, sem er 5,5 MW, og mun hefja raforkuframleiðslu síðar á þessu ári. Ályktun greinarhöfundar er þeim mun undarlegri þegar litið er til þess að Arctic Hydro hefur á síðustu árum verið viðskiptavinur EFLU verkfræðistofu vegna Hólsvirkjunar og annarra virkjunarkosta. Félagið var stærsti viðskiptavinur EFLU á Norðurlandi á síðasta ári, auk nokkurra viðskipta við skrifstofuna á Austurlandi. Arctic Hydro hefur fulla burði til að standa að verkefnum eins og Geitdalsárvirkjun.

Því er haldið fram að sveitarstjórn Fljótsdalshéraðs hafi með gerð leigusamnings vegna Geitdalsárvirkjunar tekið „skipulagsákvörðun“ sem gangi gegn landsskipulagsstefnu. Þessi staðhæfing stenst enga skoðun. Samningur Fljótsdalshéraðs og Arctic Hydro varðar eignarréttarlega þætti, þ.e. leigu vatnsréttinda og lands, komi til virkjunar. Skipulagsákvarðanir hafa ekki verið teknar. Það er hins vegar rétt að árétta í tilefni af nýlegri frétt Austurfréttar að skipulagsvald liggur hjá sveitarfélagi óháð eignarréttarlegri stöðu lands, þ.m.t. þjóðlendum.

Þá er reynt að gera tortryggilegt að Arctic Hydro hafi skoðað fleiri virkjunarkosti. Reglur um fyrirkomulag á rannsóknum virkjana á Íslandi gera ráð fyrir útgáfu rannsóknarleyfa. Með því fyrirkomulagi fær Orkustofnun upplýsingar um greiningu virkjunarkosta og rannsóknir, í þágu almannahagsmuna. Arctic Hydro hefur nú fallið frá frekari skoðun virkjunarkosta í Kelduá, Dimmugljúfrum og Djúpá og skilað inn rannsóknarleyfum. Það er jú eðli verkefna að rannsóknir geta leitt í ljós að ekki er um álitlegan kost að ræða.

Þá er ekki rétt að fyrirhuguð Geitdalsárvirkjun verði á Hraunum. Vatnasvið Geitdalsárvirkjunar og mögulegar framkvæmdir liggja utar og eru t.a.m. í grennd við Ódáðavötn sem nú þjóna hlutverki fyrir miðlun Grímsárvirkjunar.

Gefið er í skyn að virkjun gæti verið mikið stærri en 9-10 MW. Samkvæmt rennslisgögnum (úr vhm275) og langtíma rennslisröðum sem unnar voru af verkfræðistofunni Vatnaskil er verið að fullnýta nær alla rennslisorku miðað við uppsett afl, 9-10 MW. Hvað ræður síðan endanlegri stærð virkjunar er mat á umhverfisáhrifum, skipulagsferli, markaðsaðstæður fyrir raforku o.fl. Mögulegt er að byggja toppaflsstöðvar með lágan nýtingatíma eða „baseload“ stöðvar með hátt nýtingarhlutfall. Áætlanir um Geitdalsárvirkjun gera ráð fyrir að millivegur verði farinn.

Leigugreiðslur samkvæmt samningi Arctic Hydro vegna Geitdalsár eru tengdar tekjum, sem verða vaxandi frá 3% upp í 10% af heildartekjum virkjunarinnar. Leigan skiptist milli landeigenda sem eru Fljótsdalshérað og íslenska ríkið. Samningurinn við Fljótsdalshérað gerir ráð fyrir að sveitarfélagið fái rétt til aðgangs að gögnum Arctic Hydro um sölu á raforku. Greinarhöfundur segir „þekkt er hversu auðvelt er færa til hagnað í bókhaldi“ og setur málið í samhengi við skattasniðgöngu vegna tekjuskatta á alþjóðavísu. Þessi umfjöllun greinarinnar virðist samhengislaus rógur, enda ræðst leigugjald af heildartekjum en ekki afkomu. Þá tíðkast eðli máls samkvæmt að leigusalar hafi heimildir til eftirlits og endurskoðunar.

Greinarhöfundur gagnrýnir samningsgerð um Geitdalsárvirkjun þar sem málsmeðferð Óbyggðanefndar hefur ekki farið fram. Ályktanir hans um þjóðlendumál fela í sér mikla einföldun. Öll jörðin Geitdalur var eign Skriðdalshrepps á fyrri hluta 20. aldar. Á árinu 1943 seldi sveitarfélagið hluta jarðarinnar og hélt þá eftir fremri hlutanum, sem nefnist Geitdalsafréttur. Ytri hlutinn hélt nafninu Geitdalur og er bújörð í einkaeigu. Geitdalsafréttur er hluti upprunalegu Geitdalsjarðarinnar sem lýst er með landamerkjabréfi frá júnímánuði árið 1884. Hverfandi líkur eru á því að svæðið teljist þjóðlenda og mikilvægir hagsmunir sveitarfélagsins að svo verði ekki. Land ríkisins við Geitdalsá liggur einnig innan þinglýstra landamerkja og fer umsjón ríkisins eftir því.

Geitdalsárvirkjun, breytt landnotkun og hagsmunamat

Sveitarfélög halda uppi mikilvægri þjónustu fyrir samfélög. Til þess þurfa þau tekjur. Stærstur hluti tekna sveitarfélaga er vegna útsvara og fasteignaskatta, sem er að miklu leyti skattheimta á eignir og tekjur fólks í sveitarfélaginu, beint eða óbeint. Sveitarfélög hafa ekki verulegar tekjur af eignum, en slíkar tekjur eru hrein viðbót við lögákveðna tekjustofna.

Samningur um leigugreiðslur vegna Geitdalsár felur í sér að sveitarfélagið getur fengið tekjur af Geitdalsafrétt. Skriðdalshreppur hafði hag samfélagsins í huga þegar ákveðið var að halda eftir Geitdalsafrétt við sölu Geitdals 1943. Kæmi til Geitdalsárvirkjunar mun hagur samfélagsins af landinu aukast til viðbótar við beitarnotkun landsins.

Seyðisfjarðarkaupstaður gerði leigusamning vegna virkjana í Fjarðará á árinu 2006. Samningurinn kveður á um leigugreiðslur sem hlutfall af heildartekjum virkjunar. Hann var með fyrstu samningum sem gerðir voru eftir breytingar á raforkulöggjöf á Íslandi. Fyrir landeigendur leiddu slíkir samningar til margfalt hærri greiðslna fyrir vatnsréttindi en opinber virkjunarfyrirtæki höfðu greitt áður. Vegna ársins 2018 voru leigutekjur Seyðisfjarðarkaupstaðar af samningnum rúmar 8 milljónir, byggðar á 2,5% hlutfalli. Hlutfallið hækkar brátt í 5% eftir fyrstu 10 rekstrarárin og árlegar tekjur þá um 16 milljónir. Hlutfallið mun síðar hækka í 10%

Leiguhlutfall í samningi vegna Geitdalsárvirkjunar hefst í 3%, hækkar eftir 5 rekstrarár í 5% og síðan í þrepum upp í 10%. Miðað við hlutdeild Fljótsdalshéraðs vegna Geitdalsafréttar má áætla núvirði leigugreiðslna til sveitarfélagsins um 250 milljónir króna ef gangsetning virkjunar yrði eftir 5 ár. Heildargreiðslur á samningstíma væru um 900-1000 milljónir. Annar hagur sveitarfélagsins er þá ótalinn, s.s. fasteignaskattar og áhrif af umsvifum verktaka og þjónustuaðila af milljarða framkvæmd á svæðinu.

Eðlilegt er að taka umræðu um virkjanakosti útfrá náttúruverndarsjónarmiðum, áhrifum á aðra landnýtingu og öðrum hagsmunum. Rask á framkvæmdatíma virkjana getur virst nokkuð yfirþyrmandi þegar komið er að. En ef litið er til nýlegra virkjana í rekstri af þessari stærðargráðu, falla lón og virkjunarmannvirki að landi, auk þess sem vatns- og raflagnir eru felldar í jörðu. Það getur t.d. hreinlega farið fram hjá þeim sem fara um Fjarðarheiði að svæðið er virkjunarsvæði. Önnur landnýting getur þrifist vel við hlið virkjana og jafnvel notið góðs af. Þá er orka vatnsaflsvirkjana endurnýjanleg og almennt eru möguleikar á mikilli afturkræfni af virkjunarframkvæmdum af þessu umfangi. Hagsmunamat og skoðanir fólks eru auðvitað mismunandi, en flestir geta tekið undir að umræða eigi að byggja á réttum upplýsingum.

Höfundur er lögmaður á Egilsstöðum og hefur starfað fyrir Arctic Hydro


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.