Um ofanflóðin á Seyðisfirði

Skriðuföllin á Seyðisfirði nú um miðjan desember voru hörmulegur atburður, þótt svo vel hafi atvikast að enginn fórst í þeim. Tjón á húseignum er hins vegar tilfinnanlegt og verður seint að fullu bætt. Ég samhryggist Seyðfirðingum og öðrum vegna þessa atburðar, sem skilur eftir sig sár sem lengi munu minna á sig, þótt reynt verði sem kostur er að fá þau til að gróa.

Húseignirnar sem flóðin tóku með sér og löskuðu eða eyðilögðu voru hluti af sögulegu og aldargömlu húsasafni Seyðifjarðar, einstök menningarverðmæti sem mynduðu fágæta heild. Margt stendur að vísu eftir óraskað en sárið er tilfinnanlegt, fyrir utan eignatjón margra hlutaðeigandi.

Einna sárast finnst mér að sjá á eftir fyrrum Vélsmiðju Seyðisfjarðar sem hýsti m.a. Tækniminjasafn Austurlands, einstaka menningarstofnun sem byggð hefur verið upp af alúð frá því á áttunda áratug liðinnar aldar. Safnið var gildur þáttur í þáverandi Safnastofnun Austurlands sem margir hlúðu að með Seyðfirðingum. Sitthvað stendur þó eftir og sárabót er að heyra að skápur með ljósmyndaefni safnsins er fundinn; vekur það vonir um að fleira komi í leitirnar á næstunni.

Sá sem þetta ritar á ríkulegar minningar um Seyðisfjörð frá öldinni sem leið, m.a. sem þingmaður Austurlands í tvo áratugi. Þangað kom ég fyrst sumarið 1941 þegar erlent herlið setti svip sinn á umhverfið. Upp úr 1970 vann ég að því með heimamönnum að leggja þar grunn að vörslu minja um fyrstu símstöð landsins frá árinu 1906, sem og um fyrstu riðstraumsrafstöð hérlendis þar sem er Fjarðarselsvirkjun frá árinu 1913. Um svipað leyti átti Safnastofnun Austurlands hlut að því með bæjarstjórn að fá Hörð Ágústsson arkitekt og listamann til að gera allsherjar húsakönnun á Seyðisfirði og skilaði hann niðurstöðum sínum í júní 1976. Að þeim minjum hefur síðan verið hlúð af fjölda einstaklinga og bæjarfélaginu.

Ég er þess fullviss að heimamenn með aðstoð stjórnvalda gera sitt til að bæta sem kostur er það tjón sem orðið er á menningarverðmætum og ásýnd Seyðisfjarðar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar