Um ótta og hrun...

Páll Baldursson, sveitarstjóri á Breiðdalsvík, skrifar grein á vef Breiðdalshrepps þar sem hann hvetur stjórnvöld til að hvika hvergi frá áformum sínum um að endurskoða kvótakerfið og stokka það upp.  ,,Breiðdalsvík er gott dæmi um byggðalag sem hefur farið illa út úr núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi.  Á Breiðdalsvík eru mikil verðmæti í landi til fullvinnslu á sjávarafurðum, þ.e. húsakostur, búnaður og mannafli, en engar aflaheimildir," skrifar Páll.

breidalsvk_vefur.jpg

 

,,Núverandi kvótakerfi veldur því að nær vonlaust er að komast inn í greinina aftur og því standa fullbúin hús lítið notuð og fólkið atvinnulaust, þrátt fyrir að hér sé allt til alls nema leyfi til að halda til veiða. Veikburða tilraunir stjórnvalda til að létta undir með þeim byggðarlögum sem hafa misst frá sér kvóta hafa engan veginn tekist, sbr. reglur um úthlutun á byggðakvóta.

 

Þau áform um að leyfa strandveiðar með ákveðnum skilyrðum gætu skapað atvinnu og gjaldeyri fljótt, og fyrningaleið er aðferð sem á alls ekki að útiloka þrátt fyrir sífelldan áróður stórra útgerðaraðila.  En aðalatriðið við uppstokkun á fiskveiðistjórnunarkerfinu er að nú er kominn tími til að auka við veiðiheimildirnar og gefa niðurskurðarfræðunum í töflureikni Hafró frí.

 

Það hefur sennilega aldrei í sögu lýðveldisins verið eins mikilvægt að skapa gjaldeyri og núna, og það þarf að gerast hratt og nýta til þess sem flestar vinnandi hendur. Stjórnvöld verða að skoða alla hugsanlega möguleika til þess, og því ber að varast einhliða hræðsluáróður þeirra sem hafa allan kvótann á sinni hendi um hrun í greininni.

 

Hér verður ekkert hrun í sjávarútvegi, það er fyrir löngu orðið."

 

Páll Baldursson sveitarstjóri Breiðdalshrepps

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar