Um umferðaröryggi leiða Héraðsmegin frá Fjarðarheiðargöngum
Sérfræðingar að baki umhverfismatsskýrslu framkvæmdar hafa metið umferðaröryggi eftir akstursvegalengdum og ferðatíma. Markmið með færslu þjóðvegar út fyrir þéttbýli geta verið margvísleg, en þau helstu eru m.a. aukið umferðaröryggi og minni þungaflutningar um þéttbýlið.Með Norðurleið minnkar umferðarstraumurinn á Fagradalsbraut mest enda löngu ljóst og gildandi aðalskipulag tekið mið af.
Sviðsmyndir leiðavals taka mið af þremur valkostum, sem ekki verða gerðir sérstaklega til umfjöllunar. Forsendur þær sem sérfræðingarnir gefa sér kunna að vera réttar út af fyrir sig. Það sem máli skiptir er þó hvað er þar innifalið og hvað ekki.
Ætla verður að þyngst kunni að vega þar til afvegaleiðingar, áform vegagerðarinnar um að núverandi kafli Hringvegarins um Egilsstaðaháls verði lokað fyrir umferð í tilviki Norðurleiðar (N). Útfærsla vegagerðarinnar á M- og S-leiðum gerir þó enga grein fyrir því hvernig skuli séð fyrir minnst 4 útafkeyrslum á núverandi kafla um Hálsinn sem ætlað er að verði aflagður. Tilgangur Vegagerðarinnar með því að leggja af núverandi leið um Hálsinn er óljós, ef aðeins til að spara sér þar viðhald og rekstur.
Æskilegt og nauðsynlegt er því að skoða áhrif þess að halda leiðinni um Hálsinn opinni fyrir létta umferð farartækja undir 3,5 tonn að þyngd samhliða N-leiðinni. Það myndi stytta akstursleið léttrar umferðar fjarðarmanna, sem vildu nota sér viðkomu í miðbæ Egilsstaða á ferðum sínum. Það er hvort eð er gert ráð fyrir því í mati á Suðurleið að 3,5 tonn takmörkun yrði hvort eð er á hluta Fagradalsbrautar neðan Eiðavegamóta.
Á N-leið hefur heldur ekki verið gert ráð fyrir mögulegu hringtorgi á Eyvindarárvegamót þar sem Vegagerðin ætlar að óþörfu tvenn T-gatnamót með stuttu millibili og mögulega öðru hringtorgi á Melshornsvegamót þegar kemur að tengingu fyrir S-enda lengdrar flugbrautar að nýrri Lagarfljótsbrú. Á X-gatnamótum eru hringtorg mun öruggari en T-gatnamót enda notuð í umferðarþungu þéttbýli.
Þó Vegagerðin hafi leyft sér að bregða út af áformum gildandi aðalskipulags um tengingu jarðaganganna ofan Steinholts hefur þeim yfirsést að færa N-leiðina norðar þar sem hún þverar Uppsalaá og þar niður um norðar á túni Eyvindarár – en þannig næst betri hæðarlega en sú sem Vegagerðin ætlar skv. aðalskipulagi. Allt yrði þetta til að draga úr ætluðum akstursvegalengdum og aksturstíma svo og slysatíðni N-leiðar.
Skýrslan bendir á að Suðurleið dragi úr umferð, „sérstaklega þungra bíla á Fagradalsbraut, sem kann að hafa umferðaröryggislegan ávinning í för með sér vegna fjölda óvarðra vegfarenda, sem fara þar um.“ Forsenda þess er vegtenging frá núverandi „athafnasvæði“ syðst við Miðási en skýrsluhöfundum láist að taka tillit til. Jafnframt þarf takmarkandi aðgerðir á neðri hluta Fagradalsbrautar sem einnig getur átt við um Norðurleið, ef ástæða þætti til að takmarka þá þungaumferð, sem hvort eð er hefur verið að draga úr þangað/þaðan á undanförnum árum og mun gerast enn frekar með þróun athafnasvæðanna norðan Eyvindarár og víðar.
Niðurstaða mín sú að skýrslan gefi ekki rétta mynd af kostum Norðurleiðar og þarfnist uppfærslu hvað mat á umferðaröryggi varðar.
Höfundur er verkfræðingur