Umhverfisvæn matvælaframleiðsla
Sjókvíaeldi er ein umhverfisvænasta leið mannkynsins til að framleiða próteinrík matvæli. Íslendingar ættu að nýta sér þetta tækifæri nú á tímum mikillar fólksfjölgunar og loftslagsbreytinga. Fiskeldi starfar innan ákveðins lagaramma sem er grunnurinn að hagstæðum skilyrðum fyrir fólk og umhverfi.Árið 2004 var ákveðið með lögum að ekki yrði leyft að stunda laxeldi í sjó við ákveðin svæði við Íslandsstrendur, þannig að eins og staðan er núna er einungis hægt að stunda laxeldi á svæðum sem eru talin henta betur vegna umhverfisaðstæðna og fjarlægðar frá laxveiðiám. Þessi svæði eru á Vestfjörðum, Austfjörðum og í Eyjafirði.
Í framhaldi af því var ákveðið að burðarþolsmeta þyrfti þá firði sem laxeldi yrði stundað í á næstu árum. Hafró sér um framkvæmd burðarþolsmats en í borðarþolsmati felst að hver fjörður fyrir sig er metinn út frá straumum, rúmmáli, vatnsskiptum og fleiru, þannig að lífrænt álag yrði í lágmarki og áhrif á umhverfið yrðu þannig hverfandi. Burðarþolsmat fyrir Vestfirði er 80.000 tonn og Austfirði 62.000 tonn, en þó eru nokkrir firðir sem á eftir að burðarþolsmeta, t.d. Mjóifjörður hér fyrir austan, Eyjafjörður fyrir norðan o.fl.
Árið 2017 var svokallað áhættumat lögleitt þar sem markmiðið var að minnka áhættu á blöndun við náttúrulega laxastofna. Með áhættumatinu minnkar það magn sem leyfilegt er að ala skv burðarþolsmati. Áhættumatið var og er mjög umdeilt en það er endurmetið á þriggja ára fresti. Eins og staðan er núna má ala 62.000 tonn á Vestfjörðum og 42.000 tonn á Austfjörðum.
Langt ferli
Áður en fiskeldi hefst í sjó þarf svo að fara í gegnum langt og strangt umsóknarferli þar sem meðal annars er gert umhverfismat. Þar er tíundað hvernig viðkomandi fyrirtæki ætlar að haga starfseminni með tilliti til þess að umhverfisraski verði haldi í lágmarki. Þar koma m.a. fram staðsetningar, fjarlægðir milli stöðva, hvíldartími, fóðrunartækni.
Umsóknin er svo send inn til Skipulagsstofnunar sem óskar eftir umsögnum hjá öllum hlutaðeigandi aðilum. Hlutaðeigandi aðilar geta m.a verið viðkomandi sveitarfélag, Fiskistofa, Landhelgisgælsan, Minjastofnun, Samgöngustofa, Vegagerðin, Veiðifélög, smábátasjómenn og fleiri. Þetta ferli hefur yfirleitt tekið mörg ár, allt að átta árum en að því loknu og uppfylltum skilyrðum, gefur Umhverfisstofnun út starfsleyfi og í framhaldi af því gefur MAST út rekstrarleyfi.
Þegar leyfin eru komin þarf að taka umhverfissýni, til þess að hafa viðmið fyrir framtíðarvöktun. Þá þarf að gera frekari straummælingar til þess að geta reiknað út hversu öflugan búnað þarf að viðkomandi svæði. Þá þarf fyrirtækið að setja upp viðbragðsáætlanir og verklagsreglur varðandi allt það sem mögulega getur tengst umhverfisþáttum sem og öðrum rekstrarþáttum.
Eldisfyrirtækin starfa eftir umhverfisstefnu, þau setja sér markmið í umhverfismálum, vinna markmið að umhverfismálum, eru með umhverfisáætlun, áætlun um að draga úr orkunotkun, stefnu um líffræðilegan fjölbreytileika svo fátt eitt sé nefnt.
Hvaða umhverfisþáttum þarf að fylgjast með á meðan fiskeldi á sér stað?
Eftir að eldi hefst þarf fyrirtækið að starfa samkvæmt vöktunaráætlun þar sem þriðji aðili er ráðinn til þess að taka botnsýni og sjósýni. Það er gert samkvæmt ákveðnu kerfi og m.a. eru tekin sýni þegar lífmassi er í hámarki og þegar stöð er tóm. Skýrslu um stöðu mála er svo skilað til umhverfisstofnunar. Náttúrustofa Austurlands og Rorum hafa meðal annars tekið þessa vöktun að sér. Komi í ljós að ástandið sé óviðunandi skal gripið til ráðstafana, t.d. með lengri hvíldartíma eða minna eldismagni en vöktun hefur leitt í ljós fram til þessa að líffræðilegt hefur ekki verið of mikið.
Fóðrun er háttað þannig að ekkert fóður fari til spillis enda er eldisfyrirtækjum mjög umhugað að sólunda ekki fóðri, þar sem það er stærsti einstaki kostnaðarliður við eldið.
Allur búnaður er vottaður og settur upp með það fyrir augum að ekki sleppi fiskur, honum er viðhaldið samkvæmt þeim kröfum sem framleiðendur gera.
Samkvæmt reglugerð skal hvíldartími eldisstöðva vera að lágmarki 90 dagar. Á þeim tíma á umhverfið að fá tækifæri til að komast í það ástand sem það var í áður en eldi hófst. Þá hefur skítur og fóðurleifar hreinsast burt með hjálp sjávarlífvera og hafstrauma.
Árlega skal skila grænu bókhalds til umhverfisstofnunar þar sem fram koma upplýsingar um framleiðslumagn, notkun efna og losun (þ.e. skítur og fóðurleifar). Einnig er skilað inn ársskýrslu þar sem gefið er yfirlit yfir starfsemina.
Þá koma fulltrúar umhverfisstofnunar í eftirlitsheimsóknir einu sinni á ári þar sem farið er yfir hvernig fyrirtæki standa sig í að uppfylla skilyrði starfsleyfis.
Svo er auðvitað mjög mikilvægt að allt starfsfólk sé meðvitað um umhverfismál og allt starfsfólk í eldi á að fara á námskeið í umhverfisvitund.
Eru umhverfiskröfur of strangar?
Að flestu leyti finnst mér þær vera hæfilegar og ég sé ekki fljótu bragði hvar ætti að herða reglurnar. Ég er fylgjandi því að hafa strangar reglur varðandi umhverfið af því að mín skoðun er sú að við Íslendingar hafi tækifæri til að læra af því sem gert hefur verið annarsstaðar og þá að standa öðrum þjóðum framar í umhverfismálum tengdum laxeldi. Og reglurnar eru að sumu leyti strangari hér, t.d. hvað varðar fjarlægð frá laxveiðiám.
Sjókvíaeldi er flokkað sem mengandi starfsemi hjá Umhverfisstofnun og í raun þýðir það að ef engar reglur væru í gildi væri mikil hætta á mengun. En þar sem sjókvíaeldi fer í þennan flokk ber eldisfyrirtækjunum að gera umfangsmiklar ráðstafanir til að koma í veg fyrir mengun sem þau og gera. Til að mynda hefur sjókvíaeldi verið stundað við Austfirði í um 20 ár og reglulega eru tekin sýni og mælingar gerðar og ekki hefur enn orðið vart við mengun eða önnur neikvæð umhverfisáhrif þannig að þurfi að grípa til sérstakra ráðstafana.
Það er þó ýmislegt sem væri hægt að gera öðruvísi.
Mögulega mætti einfalda leyfisferli og umsýslu með því að færa verkefni tengd fiskeldi á milli stofnana en nú koma Hafrannsóknarstofnun, Umhverfisstofnun, Matvælastofnun, Skipulagsstofnun að leyfisferlinu auk þess sem Fiskistofa er hluti af eldinu.
Þó er „Áhættumat“ Hafró mjög umdeilt vegna þeirra forsenda sem notaðar eru til grundvallar en áhættumat er rangnefni á fyrirbærinu og hefur það hlotið mikla og réttmæta gagnrýni vegna þess.
Burðarþolsmatið mætti svo uppfæra einhverntímann í framtíðinni en eins og er finnst mér það vera frekar ónákvæmt. Eins og er, er burðarþolsmatið reiknað út fyrir hvern fjörð fyrir sig og námundað við 1000 tonn. Ef við berum það saman við t.d. Noreg og Skotland, þá er burðarþolsmat þar reiknað út fyrir hverja stöð fyrir sig. Ég get nefnt dæmi um stöð sem ég vann á í Skotlandi að á henni var burðarþolið metið 1961 tonn, sem sagt nákvæmni upp á eitt tonn.
Þá er það svo að fyrirtækin sjálf bera ábyrgð á að hafa hlutina í lagi hjá sér og hreint og gott umhverfi er grundvallarforsenda fyrir því að eldið geti gengið vel, bæði hvað varðar líffræðilega þætti og líka hvað varðar ímynd og samfélag. Vottanir og eftirlit því tengdu mun aukast og slíkt er algengt erlendis en er ekki komið eins langt hér á landi.
Það er líka mikilvægt að halda því til haga að eins og laxeldi er stundað á Íslandi er öll starfsemin afturkræf og losun gróðurhúsalofttegunda í sjókvíaeldi er ein sú lægsta sem þekkist í matvælaframleiðslu.
Það væri hægt að fjarlægja allar stöðvar og allan fisk og að því loknu væri eins og aldrei hefði verið stundað eldi við Ísland. Sjókvíaeldi við Ísland er því sjálfbært og að mínu mati ein umhverfisvænasta leið okkar til að framleiða matvæli og ég er stoltur af því að taka þátt í að framleiða holl góð og umhverfisvæn matvæli.
Höfundur er fiskeldisfræðingur