„Undir regnhlífinni“

Vegna umræðunnar um inngöngu BDSM samtakanna í Samtökin 78 langar mig að deila með ykkur minni upplifun og sýn á málið. Ég tek það sérstaklega fram að þær skoðanir sem hér birtast eru eingöngu mínar.

 


Ég er fædd árið 1977 og er því ári eldri en Samtökin 78. Ég kem úr litlu samfélagi úti á landi og þar var ekki einn yfirlýstur samkynhneigður einstaklingur þegar ég var að alast upp. Þrátt fyrir að S78 hefðu verið til í tæp 20 ár þegar ég kom út úr skápnum, og unnið ötullega að mannréttindabaráttu homma og lesbía þann tíma, stóð ég frammi fyrir þeirri staðreynd að njóta ekki jafnréttis gagnvart lögum eða viðurkenningar í samfélaginu.

Ég skipti minni réttindabaráttu í tvo hluta, annars vegar baráttu fyrir almennum mannréttindum sem hommar og lesbíur stóðu mjög höllum fæti gagnvart fram á okkar daga, en hins vegar mína persónulegu baráttu fyrir plássi mínu í samfélagi sem var og er uppbyggt út frá gagnkynhneigð, sem stundum er kallað normið.

Réttarsögu samkynhneigðra má rekja allt aftur til þjóðveldisaldar. Finna má vísun til samkynhneigðar í Grágás þar sem sagði að hefna mætti fyrir m.a. kynvillu. Samkvæmt hegningarlögum frá 1869 mátti dæma fólk í betrunarvist fyrir að hafa kynmök við einstakling af sama kyni. Í almennum hegningarlögum nr. 19/1940 var samkynhneigð gerð refsilaus en þar mátti finna ákvæði sem var í gildi til ársins 1992 þar sem aldursmörkin voru ekki þau sömu og hjá gagnkynhneigðu fólki eða 18 ára hjá samkynhneigðum en 16 ára hjá gagnkynhneigðum. Allt að þriggja ára fangelsi var við því að að sænga hjá einstaklingi af sama kyni ef rekkjunautur var yngri en 18 ára.

Það var ekki fyrr en árið 1996 að samkynhneigðir fengu heimild til að ganga í staðfesta samvist og í lögunum fólust, að mestu, sömu réttaráhrif og við stofnun hjúskapar. Með lögum nr. 65/2006 var löggjöf um ýmis réttindi uppfærð með það í huga að rétta stöðu samkynhneigðra og var þá stórt skref stigið í átt að jafnræði. Með lagasetningunni var samkynhneigðum tryggður sami réttur til almannatrygginga, lífeyrisréttinda, skattalegrar meðferðar tekna og eigna, skipti dánarbúa og fleira. Í lögunum var samkynhneigðum heimilað að ættleiða og lögin heimiluðu jafnframt konum í óvígðri sambúð eða staðfestri samvist að gangast undir tæknifrjóvgun. Þann 27. júní 2010 tóku svo ein hjúskaparlög gildi á Íslandi.

Þetta langa og oft sársaukafulla ferli, sem ég fer hér yfir á handahlaupum, hefur tekið áratuga þrotlausa vinnu og má þá fyrst og fremst horfa til S78 og þess góða fólks sem barðist þar á hæl og hnakka fyrir hverju einasta skrefi sem tekið var í átt að mannréttindum.

Fyrri barátta mín snéri sem sagt meðal annars að rétti mínum til að ganga í hjónaband og ná fram jafnræði í lögum til barneigna. Ekkert af þessu, sem í dag flokkast líklega sem réttur til að lifa venjulegu lífi, var til staðar þegar ég kom út úr skápnum. Fyrir þá baráttu er ég einlæglega þakklát því fólki sem stóð í eldlínunni og get ég með sanni sagt að hún sé grundvöllur þess lífs sem mér er kleift að lifa í dag.

Hin baráttan var fyrir sýnileika mínum og viðurkenningu, þar naut ég líka styrks S78 að því leyti að geta komið niðrí samtök og eflt sjálfstraustið og rætt um líðan mína og tilfinningar við annað samkynhneigt fólk. Ég varð þó fyrst og fremst að standa sjálf á rétti mínum til þess að vera sú sem ég er og breyta viðhorfum nærsamfélagsins í átt að umburðarlyndi og kærleika.

Árið 1998 flutti ég til Reykjavíkur og hóf sambúð með þáverandi konu minni. Við höfðum fundið okkur fallega íbúð í Seláshverfinu og fengið inngöngu í grunnskóla fyrir son minn. Þegar við mættum, til að taka við lyklunum og flutningabíllinn var á leiðinni, spurði leigusalinn okkur hreint út af hverju við værum að fara að leigja saman, þegar við sögðumst vera par rak hann okkur burt og sagði að ekki kæmi til greina að leigja kynvillingum íbúðina.

Síðar fluttum við í heimabæ minn þar sem ekkert útibú S78 var til staðar og þar urðum við því að heyja okkar baráttu fyrir viðurkenningu á okkar eigin forsendum. Það gerðum við með því að vera sýnilegar, fara í félagsmiðstöðvar og skóla og vera alltaf tilbúnar að takast á við þá fordóma og útskúfun sem við vissulega mættum. Engin samtök hefðu getað breytt stöðunni á þann hátt sem hver og einn einstaklingur hefur gert með því að gangast við sjálfum sér og taka sér pláss í samfélaginu.

Það er sorglegra en tárum taki að túlka það sem fordóma að sum okkar lesbía og homma á Íslandi sjái ekki tenginguna við baráttu BDSM fólks. Flest okkar styðja við baráttu þeirra fyrir viðurkenningu og samþykki þó að við séum ekki á þeirri skoðun að þeirra félagsskapur eigi heima undir hatti félags sem í upphafi var félag um mannréttindabaráttu samkynhneigðra.

Það er einfaldlega þannig að til er fullt af minnihlutahópum í öllum samfélögum sem eiga ekkert annað sameiginlegt en að vilja fá viðurkenningu. Baráttan og vegferðin getur hins vegar verið ólík og ekkert endilega til hagsbóta fyrir neinn að blanda því saman.

Ég held líka að flest okkar hafi verið ósátt við umgjörðina og klúðurslega framgöngu í málinu frekar en það að við séum persónulega á móti BDSM, enda er það fólk af öllum kynhneigðum sem iðkar BDSM.

Ég er reyndar að vissu leyti á sömu skoðun hvað varðar aðra hópa sem hoppað hafa á vagninn undanfarin ár, ég er einlæg stuðningsmanneskja þeirra allra en ég er ekki viss um að hommar og lesbíur, né allir aðrir sem eru undir svo kallaðri regnhlíf S78 hafi komið nokkuð betur undan því samstarfi.

Ég held t.d. að það sé engu okkar til framdráttar að vera bara partur af einni flókinni og óútskýranlegri stafrófssúpu sem í heild sé svo flokkuð sem hinsegin, það er að segja ekki partur af norminu.

Ég elska lauk, karamellubúðing, pestó og rækjur, allt saman úrvals matvæli sem að mati sumra eru kannski óholl en samt svo syndsamlega góð. Það kæmi samt heldur ólystug soppa úr þessu ef ég henti því öllu í blandarann og reyndi að troða því ofan í kok á þeim sem þó elska og virða öll innihaldsefnin.

Það er upplifun mín að samfélagið ætlist til þess að ég sem lesbía tilheyri þeim hópi sem hefur gengið til liðs við Samtökin 78 á undanförnum árum þó að ég eigi ekkert meira sameiginlegt með því fólki en hvaða gagnkynhneigða manneskja sem er.

Ég mun hér eftir sem hingað til leggja mitt af mörkum í baráttu minnihlutahópa af öllum gerðum. Saga mín og reynsla gerir mér kleift að skilja, kannski betur en aðrir sem fæddir eru undir heillastjörnu meirihlutans, þá baráttu sem minnihlutahópar af öllum gerðum þurfa að standa í til þess eins að fá að ganga frjáls og stolt fram á veginn. Barátta þeirra er samt ekki mín barátta.

Ég er hvorki trans, einstæður faðir eða múslimi. Mig svíður að lesa um niðurlægingu og hatursorðræðu gagnvart þessum hópum sem og öðrum. Það breytir því ekki að ég tilheyri þeim ekki og get ekki látið kúga mig til þess að bera ábyrgð á baráttu þeirra.

Ég tel að við séum á rangri leið og að nýjasta útspil S78 sé bæði lesbíum, hommum, BDSM-fólki og öðrum meðlimum samtakanna skaðlegt og til þess fallið að fjarlægja okkur öll frá þessu svokallaða normi og stækka bara hina flóknu hinsegin súpu sem flestir nenna ekki einu sinni að skilgreina nánar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.