Ungt fólk verður að kjósa
Lýðræðið byggir á kosningaréttinum. Það er gríðarlega mikilvægt að kosningaþátttaka sé jafnan sem best þannig að niðurstöður kosninga endurspegli vilja þjóðarinnar. Því miður hefur kjörsókn farið minnkandi. Í alþingiskosningunum árið 2013 var kosningaþátttaka aðeins rúm 80%. Þátttakan var sérstaklega lítil hjá ungu fólki. Kosningar snúast um framtíðina og unga fólkið er bæði nútíðin og framtíðin. Því er það áhyggjuefni ef stór hópur ungs fólks sér ekki ástæðu til að kjósa.
Þetta kemur okkur við
Um hvað er kosið? Það er t.d. kosið um menntakerfið, heilbrigðiskerfið, húsnæðismál, fæðingarorlof, Lánasjóð íslenskra námsmanna og atvinnumál. Þetta eru allt málaflokkar sem skipta ungt fólk máli og hafa mikil áhrif á framtíð þess. Ég vil því skora á ungt fólk að kjósa. Stjórnmálin eru ekki aðeins fyrir miðaldra fólkið og gamla fólkið. Stjórnmálin koma okkur öllum við, ekki síst yngri kynslóðum.
Kjósa fyrir kjördag?
Stór hluti ungs fólks af landsbyggðinni er við nám og störf á höfuðborgarsvæðinu og þarf því að kjósa utan kjörstaðar. Ég hef áhyggjur af því að það geti verið ákveðin hindrun. Einhverjir vita ekki hvernig þeir eiga að bera sig að og þeim kann að þykja þetta vesen. Þá er bara að fara á netið, á vefinn www.kosning.is, en þar má finna nauðsynlegar upplýsingar. Það er ákveðin stemming að kjósa á kjördag en kosning utan kjörfundar er kannski ekki eins hátíðleg. Atkvæði ykkar eru þó jafn mikils virði og þeirra sem kjósa á kjördag. Látið ekki ykkar eftir liggja.
Hvernig samfélag vil ég?
Þegar kosið er til Alþingis á kjósandinn ekki að hugsa um það hvaða stjórnmálaflokkur segist ætla að gera mest fyrir hann persónulega. Ekki kjósa flokka sem slá um sig með loforðum sem nýtast ykkur til skamms tíma. Kjósið þann flokk sem þið teljið að muni styrkja og efla það samfélag sem þið viljið búa í. Kjósið framtíðina.
Vinstri græn byggja sína kosningabaráttu ekki á stórum loforðum. Þau byggja sína stefnu á skýrri framtíðarsýn þar sem sjálfbærni og jöfnuður eru lykilatriði. En sama hvað þið viljið kjósa; KJÓSIÐ. Nýtið réttinn sem fyrri kynslóðir börðust fyrir og við njótum þess að hafa.
Höfundur skipar 4. sæti á framboðslista Vinstri grænna í Norðausturkjördæmi