Unnið að framtíðarlausn

Kristján Þór Júlíusson, fyrsti þingmaður Norðausturkjördæmis og varaformaður fjárlaganefndar Alþingis, segir unnið að því að finna varanlega lausn á fjárhagsvanda Heilbrigðisstofnunar Austurlands. Hann segir stöðu stofnunarinnar óviðunandi.

 

Image„Það er öllum ljóst sem að verkefninu koma að það er brýnt og áríðandi að finna á því lausn,“ segir Kristján Þór, sem sat með þingmönnum Norðausturkjördæmis, fulltrúum HSA og sérfræðingum úr fjármálaráðuneytinu á hádegisfundi í gær um stöðu stofnunarinnar.
Hann segir vandann ekki nýtilkominn. „Við fórum yfir stöðuna sem er gríðarlega erfið. Umfangið á rekstri HSA byrjaði að aukast með stóriðjuframkvæmdum árið 2003. Vandræðin hafa staðið allt frá árinu 2003 og undið upp á sig. Staðan er óviðunandi.
Við spurðum ráðuneytið eftir stöðunni og okkur var tjáð að tveir sérfræðingar ynnu í málunum með fulltrúum HSA og tillögur þeirra væru væntanlegar í nóvember.“
Hann hafnar gagnrýni um að ekki hafi verið brugðist við vanda HSA á fjáraukalögum. „Það hefur verið tekið á því þar öll árin en aldrei varnarlega. Það er fyrst núna sem unnið er að því. Því miður er þetta ekki eina heilbrigðisstofnunin sem svona háttar til. Það hefur verið viðvarandi vandi inni í rekstri og starfsemi heilbrigðisstofnana sem þarf að taka á.“
Kristján Þór vildi ekki staðfesta neinar tölur um kreppu stofnunarinnar. „Við höfum upplýsingar um fyrstu sex mánuði ársins og miðað við þá er hallinn á rekstri stofnunarinnar gríðarlegur.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar