Uppbygging í Múlaþingi

Uppbygging í Múlaþingi þá aðallega á miðsvæði þess hefur verið mikið hampað af  bæjarfulltrúum  meirihlutans undanfarin misseri. Það er líka ástæða til þess fyrir þá sem fara með stjórn sveitarfélagsins.

Það er alltaf ánægjulegt þegar vöxtur er sérstaklega þegar talað er um hinar dreifðu byggðir. Múlaþing samanstendur af fjórum  þéttbýliskjörnum og víðfeðmu dreifbýli. Staða þéttbýliskjarnana er misjöfn hvað varðar uppbyggingu atvinnu og hvar er þörf á styrkingu innviða svo  sem byggingu húsnæðis.  Það hafa heyrst þau rök að pólitíkin stjórni ekki hvar sé byggt eða hverjir fari af stað með  byggingu íbúðarhúsnæðis.  

Djúpivogur er sennilega það þéttbýli í Múlaþing og þó víðar væri leitað þar sem uppbygging atvinnu er mest og því mikill þörf á því að pólitíkin fylgi eftir innviðauppbyggingu og sé hvetjandi hvað varðar uppbyggingu íbúðarhúsnæðis. Þrátt fyrir að húsnæðisskortur standi í vegi fyrir uppbyggingu og vexti Djúpavogs heyrist hvorki hósti né stuna frá pólitískum leiðtogum Múlaþings. Á Djúpavogi er ekki ein einasta íbúð í smíðum og þar hefur ekki verið byggt  íbúðarhúsnæði í nokkur ár.

Fyrir um tveimur árum fóru pólitískir leiðtogar Djúpavogs mikinn og þegar byggja átti fimm íbúða raðhús í svokölluðu Markarlandi. Mikið var haft fyrir því að taka fyrstu skóflustunguna, enda kosningar framundan. Síðan þá hafa grunnarnir staðið óhreyfðir ásamt moldarhrúgum okkur íbúunum til augnayndis. Bygging íbúðarhúsnæðis  og innviða samfélagsins  er algjör forsenda til að öflugir fjárfestar komi að frekari atvinnuuppbyggingu á Djúpavogi.

Þó svo að færa megi rök fyrir því að sveitarfélagið eigi ekki sjálft að standa í íbúðabyggingum, þá er það alveg klárt að hinir pólitísku leiðtogar Múlaþings verða að taka frumkvæði hvað varðar að koma byggingu íbúðarhúsnæðis af stað, það er þeirra hlutverk meðal annars.  Mikill vöxtur er hjá Fiskeldi  sem kallar á að sveitarfélagið sé með í uppbyggingu innviða.

Það er mín sýn að sú sveitarstjórn sem er búin að sitja síðan af sameining varð  sé í raun ekki með á nótunum, enda virðist áhugasvið  kjörinna fulltrúa Múlaþings vera á öðrum svæðum en Djúpavogi. 

Höfundur er íbúi á Djúpavogi. 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar