Úr einu í annað um bæinn okkar.
Ég ætla að byrja þetta bréfkorn á því að þakka Þorvaldi Jóhanns fyrir sérlega góða grein nýlega sem lýsir kannski best bjartsýni hans og áhuga á mörgum sviðum. Ekki þarf ég að bæta við þar sem hann fjallar um t.d. Síldarvinnsluna og þeirra framlag til atvinnulífsins í bænum og er seint fullþakkað, úr því að svona fór með þá atvinnugrein hér í bæ, því einmitt svona fyrirtæki vantaði hér sem skapað gæti frekari tekjur í bæinn.Fjarðarheiðargöng
Ég þarf heldur ekki að bæta neinu við umræðuna um væntanleg Fjarðarheiðargöng, en ósköp væri gott að fara að losna við umfjöllun nágranna okkar um þessi mál. Út af tók þó síðustu ummæli þeirra um okkur sem lýsir best þeim sjálfum og að þetta skyldi koma úr kennarastétt er mjög athyglisvert. Að öðru leiti vísa ég í mjög góða grein Gauta Skúlasonar í síðasta hefti Austurgluggans.
Ferðaþjónustan
Ferðaþjónustan ásamt listageiranum eru þær greinar sem svo sannarlega eru til mikils og líflegs mannlífs í bænum. Ég var því afskaplega ánægður þegar ég sá í fundargerð að áætlað er að efna til hugmyndasamkeppi meðal arkitekta um heildarútlit svæðisins í kring um Lónið og nágrenni þess. Það er einnig minnst á göngubrú yfir Lónið. Það myndi vekja mikla athygli og yrði mikil bæjarprýði og ekki má gleyma hugmyndum Dýra um Vestdalseyrina sem svo sannarlega þyrfti að verða að veruleika.
Annað sem ég vil minnast á og hef áður komið á framfæri, er að komið verði upp fallegum minningarreit um þá sem fórust í snjóflóðinu mikla árið 1885 sem einnig myndi vekja athygli ferðamannanna. Í vinnslu er einnig að setja upp ljósmyndasýningu af því þegar verið er að ná upp þeim munum sem upp úr El Grilló hafa komið og er til dæmis búið að fá lóð undir byssurnar og aðra stærri gripi þar að lútandi. Og væri upplagt að nota 75 ára minningu um það þegar skipinu var sökkt, fyrir þessa sýningu. Því allt er þetta partur af sögu okkar. Allt er þetta svo hluti af því að auka afþreyingu ferðafólks og lengja dvöl þess í okkar fallega bæ.
Húsnæðismál
Allir vita að það er dýrara að byggja hús en að kaupa úti á landi og að sárlega vantar íbúðir í bæinn. Þó að ekki sé hlaupið að því á stundinni að byggja ný hús langar mig að minna á tvennt sem gæti flýtt fyrir þessum málum. Þegar Öldutún var byggt á sínum tíma voru líka kláraðir tveir eða þrír grunnar af sömu stærð í línu frá Öldutúni að húsi þeirra Sigurveigar og Villa. Þarna mætti koma fyrir ódýrum leiguhúsum úr einingum sem nú eru fáanlegar. Einnig man ég eftir að klárað var að skipta um jarðveg við hlið hvítu blokkarinnar þegar hún var byggð sem einnig mætti nýta. Það munar um annað eins og það að tilbúnir séu grunnar og jarðvegsskipti í þessu efni og ætti að flýta fyrir framkvæmdum.
Fótboltavöllurinn
Nóg hefur verið fjallað um fótboltavallarmálið í bili, en vona bara að þau mál fari að leysast sem fyrst. En var það ekki bara góð hugmynd hjá Árna Geir að minnast á að slá bara varavöllinn okkar sem ekkert hefur verið notaður lengi? Því ekki að raka hann og grjóttína og slá síðan? Ég veit ekki hvort hann sagði þetta í alvöru eða gríni en ekki hefur hann langt að sækja grínið, svo mikið veit ég.
Bærinn okkar
Ég hef áður nefnt í greinarskrifum að bærinn og bæjarbúar mættu vera duglegri við að viðhalda lóðum og húsum og bara almenna snyrtimennsku. Það hefur svo óendanlega mikla þýðingu fyrir orðspor okkar sem ferðamannastaðar. Nýlega var úthlutað nokkrum upphæðum frá Húsafriðunarsjóði í bæinn og sér þess stað að hreyfing er á þessum málum. Jafnvel á húsum sem ég var farin að halda að væru á einhverri þrjátíu ára áætlun, en án alls gamans vona ég að framhald verði á þessum úthlutunum og þau myndarlegri. Nú er það síðan ykkar allra frambjóðenda að framfylgja öllum góðum hugmyndum, hvaðan sem þær koma í komandi kosningabaráttu.
Kosningar
Ég ætla að vera stuttorður um þessar kosningar, það læt ég frambjóðendum eftir. Mér er slétt sama þó L- listafólk sé farið að kalla listann okkar eldriborgaralistann, ég þekki vel að þar er margt duglegt fólk sem eru kannski ekki alltaf með upphrópanir og hávaða en sinna sínum málum vel og erum við ekki líka með yngsta frambjóðandann á meðal okkar?
Vilhjálmi treysti ég best til að halda utan um fjármál bæjarins, hann hefur sýnt það með aðhaldi eftir mörg erfið ár að til þess er honum vel treystandi. Eða á hverju á að byrja nema því að rétta af fjárhag bæjarins og fyrst þá er tími til einhverra framkvæmda. Ég veit að nú eru betri tímar framundan í þessum efnum. Ég vona svo bara að þessi kosningabarátta fari vel fram og að fólk standi vel saman eftir þær og hugsi eingöngu um bæinn okkar og hans hag.
Friðrik H. Aðalbergsson, Seyðisfirði