Úr ódýrustu hillu almannatengsla – bílastæðagjöld á innanlandsflugvöllum

ISAVIA kynnti í upphafi ársins fyrirætlanir um innheimtu á bílastæðagjöldum á flugvöllunum á Akureyri og Egilsstöðum. Af því tilefni skrifaði ég grein sem birtist á hér á Austurfrétt. Þar var fjallað almennt um starfsheimildir ISAVIA, m.a. sérstök lagaákvæði sem gilda um Keflavíkurflugvöll, en ekki aðra flugvelli. Gjaldtökunni var frestað en ISAVIA hefur nú kynnt að bílastæðagjöld verði innheimt frá 18. júní.

Kallað hefur verið eftir því að ISAVIA geri grein fyrir forsendum gjaldtökunnar. Kynning á málinu hefur verið í formi innihaldslausra fullyrðinga úr ódýrustu hillu almannatengsla, um að gjaldtakan skili betri ferðaupplifun. Full ástæða er því að rifja upp af hverju bílastæðagjöldin kunna að vera ólögmæt en einnig er velt upp álitamálum um hvenær bílastæðagjöld á vegum hins opinberra eru réttlætanleg.

Lagaheimild til töku bílastæðagjalds – samþykki innviðaráðherra nauðsyn


Heimild til innheimtu bílastæðagjalds á landi ríkisins hvílir á 86. gr. umferðarlaga nr. 77/2019. Lögin nota heitið „gjald fyrir stöðureiti“. Í 4. og 5. mgr. eru eftirfarandi ákvæði:

„Að fengnu samþykki ráðherra sem fer með málefni ríkisjarða og lands í eigu ríkisins er ráðherra heimilt að setja reglugerð um notkun stöðureita og gjaldtöku fyrir hana á landi í umráðum ríkisins, öðru en þjóðlendum og náttúruverndarsvæðum.

Ráðherra innheimtir gjald skv. 4. mgr. eða felur öðrum að sjá um innheimtuna með samningi. Þá getur ráðherra heimilað ríkisaðila að sjá um innheimtu gjalds fyrir notkun stöðureita sem viðkomandi ríkisaðili hefur umsjón með.“

Opinbera hlutafélagið ISAVIA er óumdeilanlega ríkisaðili, samkvæmt skýrum ákvæðum 50. gr. laga nr. 123/2015 um opinber fjármál. ISAVIA þarf því heimild til innheimtu gjalds fyrir stöðureiti.
ISAVIA hefur ekki fengið heimild hjá innviðaráðherra til innheimtu slíks gjalds og samkvæmt fyrirspurn til ráðuneytisins hefur ekkert erindi um slíkt borist frá ISAVIA.

Það skal nefnt að þjónustusamningar ISAVIA um rekstur innanlandsflugvalla gera ráð fyrir að ISAVIA hafi rétt til að innheimta gjöld frá þriðja aðila vegna eigna ríkisins. Ákvæði í samningum breyta þó ekki lagaákvæðum. Þar fyrir utan er óljóst hvort ákvæðið vísi til bílastæðagjalda af almennum notendum innanlandsflugvalla, enda líklegt að slíkt grundvallaratriði hefði verið nefnt sérstaklega. Fjármála- og efnahagsráðuneytið ætti að svara því hvort gjaldtakan sé samþykkt af þeirra hálfu.

Auk þessa verður lögmæti bílastæðagjalds dregið í efa út frá jafnræðisreglum, en óútskýrt er af hverju innheimta á gjald af bílastæðum sumra flugvalla í umráðum ISAVIA. Þjónustusamningur ISAVIA gerir engan greinarmun á rekstrarábyrgð og þjónustu ISAVIA vegna bílastæða á Egilsstöðum og t.d. Ísafirði.

ISAVIA á villigötum – þörf á pólitískri stefnumörkun


Ef skoðuð eru drög að samgönguáætlun 2024-2038 er hlutverk ríkisins gagnvart rekstri innanlandsflugvalla og staða þeirra í samgöngukerfinu skýr. Þar kemur fram að enginn flugvallanna er sjálfbær og njóta þeir því allir framlaga úr ríkissjóði. Jafnframt að framlög til framkvæmda og viðhalds á innanlandsflugvöllum eru greidd úr ríkissjóði samkvæmt fjárlögum.

Þessi staða er í góðu samræmi við hlutverk ríkisins í samgöngumálum almennt. Ný gjaldtaka ISAVIA á bílastæðum við innanlandsflugvelli væri algjör stefnubreyting í rekstri samgöngukerfis landsins. Gjaldtaka á bílastæðum við innanlandsflugvelli er ekki réttlætanleg og eðlileg ef hún byggir ekki á skýrri pólitískri stefnumörkun. Það er alls ekki hlutverk stjórnenda ISAVIA ohf. eða ISAVIA innanlandsflugvalla ehf. að taka slíkar stefnumótandi ákvarðanir.

Samkvæmt 86. gr. umferðarlaga er gert ráð fyrir að reglugerð verði sett um heimildir til innheimtu gjalds fyrir stöðureiti á landi ríkisins. Það er mikilvægt að þessi reglugerð verði sett og ríkið móti stefnu um hvar er réttlætanlegt að innheimta bílastæðagjöld. Það getur átt við þar sem bílastæðagjöld tíðkast almennt á aðliggjandi svæðum eða ef ný bílastæði eru byggð frá grunni ótengd opinberri þjónustu, t.d. við ferðamannastaði. Það má ekki ráðast af hugmyndauðgi stjórnenda stofnana og fyrirtækja sem sinna opinberri þjónustu hvar bílastæðagjöld eru tekin upp.

Líklega eru bílastæðin við Egilsstaðaflugvöll samfélagslega mikilvægustu bílastæði Austurlands, eftir bílastæðum við heilbrigðisstofnanir. Það væri grundvallarbreyting og skerðing á grunnþjónustu ríkisins ef bílastæðagjöld legðust á almenna notendur innanlandsflugs.

Það er mikil einföldun að horfa einungis á þátt ISAVIA. Meginábyrgð málsins hlýtur að liggja hjá stjórnvöldum, þar sem fjármála- og efnahagsráðherra og innviðaráðherra ráða málefninu.

Höfundur er hæstaréttarlögmaður

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.