Úrgangur, vandræðagangur!

Úrgangsmál á Austurlandi eru í dag í töluverðum vanda sem dæmi; Múlaþing keyrir lífrænum úrgangi til Reyðarfjarðar til moltuvinnslu en Fjarðabyggð keyrir lífræna úrganginum til Akureyrar – sniðugt!

En vandamálin eru til að leysa þau þ.e. ef kjörnir fulltrúar sveitarstjórna hefðu til þess vilja og framtíðarsýn að ráða inn sérfræðinga í faginu. Snjallt og hagkvæmt væri að sveitarfélögin öll á Austurlandi myndu sameinast um slíkan sérfræðing eða sérfræðinga þar sem ruslið þekkir sér engin landamæri og hegðun íbúa sveitarfélaganna er eins með tilliti til þess að vera neytendur. Sérmenntað fólk í auðlindamálum og sjálfbærni sem hefur skilning á úrgangsstjórnun er það sem við þurfum til að leysa þann vanda sem við stöndum frammi fyrir í þessum málaflokki.

Sorphirða er einn dýrasti útgjaldaliður sveitarfélaga og eðlilegt að yfirfara þann kostnað reglulega og ítarlega með tilliti til þjónustunnar sem er veitt. Þegar margir aðilar sjá um þessa þjónustu, eins og fyrirkomulagið er nú í Fjarðabyggð, er enn ríkari áhersla á að yfirfara kostnað og þjónustuferla. Auk þess þarf að bæta alla skráningu og yfirfara gjaldtöku með tilliti til hennar, svo þarf að stórauka endurvinnslu, fræðslu og skil í öllum úrgangsflokkun og tryggja að sorphirðufyrirtæki gangi þannig um efnið að það sé endurvinnsluhæft og endi í endurvinnslu. Síðast en ekki síst eiga sveitarfélög að moltugera sinn eigin lífræna úrgang í stað þess að keyra með hann hundruð kílómetra í moltugerð. Við hljótum að geta gert þetta almennilega og nýtt efnið til ræktunar.

Það þýðir ekkert að stinga höfðinu í sandinn með þessi mál. Það er ekki bara þegar það ríkir COVID heimsfaraldur að við eigum að fá ráðgjöf sérfræðinga í því hvað og hvernig á að gera hlutina. Við í VG Fjarðabyggð höfum það á stefnu okkar að fá bætt úr úrgangsmálum í landshlutanum og stefnum að því að unnið verði sameiginlega í þessum málaflokki. Með ráðgjöf fagaðila í úrgangsmálum og samvinnu sveitarfélaganna á Austurlandi munum við ná farsælum árangri í úrgangsstjórnun til hags fyrir íbúa og umhverfið.

Höfundur er Anna Berg Samúelsdóttir M.Sc. landfræði, skipar annað sætið í VG í Fjarðabyggð.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar