Var þá kannski ekki rétt að kjósa?

Um þessar mundir eru um 16 mánuðir frá því að ný sveitarstjórn tók til starfa í sameinuðu sveitarfélagi Múlaþingi. Sveitarfélagið varð til við sameiningu Fljótsdalshéraðs, Seyðisfjarðar, Djúpavogshrepps og Borgarfjarðar eystri. Íbúar hins nýja sveitarfélags bundu miklar vonir við hið nýja sameinaða sveitarfélag enda farið af stað með háleit markmið.

Ellefu sveitarstjórnarmenn skipa hina nýju sveitarstjórn sem er sambærilegur fjöldi og í sveitarfélögum á suðurhorni landsins þar sem íbúafjöldi er um og yfir 30 þúsund manns. Til að auka enn á lýðræðið var samþykkt að þriggja manna heimastjórnir starfi í öllum þéttbýliskjörnunum. Auk þess var ráðinn fulltrúi sveitarstjóra í byggðakjörnunum Seyðisfirði, Borgarfirði og á Djúpavogi.

Markmiðið með heimastjórnunum er að tryggja áhrif íbúa á nærþjónustu og bregðast við þeirri gagnrýni að jaðarbyggðir missi áhrif í sameinuðum sveitarfélögum. Í yfirlýsingu sem nefnd sem kosin var til að vinna að sameiningu sveitarfélaganna sendi frá sér kemur meðal annars eftirfarandi fram „Ný tegund stjórnskipulags verður sem sagt tekin í gagnið verði af sameiningu þessara fjögurra sveitarfélaga.“ Í tilkynning-unni segir að stjórnskipulagið „byggi á einfaldri og skilvirkri stjórnsýslu, ásamt valddreifingu til heimastjórna sem fara með tiltekin nærþjónustuverkefni. Markmiðið með heimastjórnunum sé að tryggja áhrif íbúa á nærþjónustu og bregðast við þeirri gagnrýni að jaðarbyggðir missi áhrif í sameinuðum sveitarfélögum.”

Háleit markmið

Ný sveitarstjórn sem kosin var 19. september 2020 var skipuð ellefu fulltrúum og ellefu varamönnum. Hafði því gott veganesti og skýr markmið sem sameinað sveitarfélag byggði tilvist sína meðal annars á. Það kom því nokkuð á óvart að þrátt fyrir loforð um breytta stjórnunarhætti sem kallaði á að fjöldi sveitarstjórnarmanna í nýju sveitarfélagi taki mið af fjölmennustu sveitarfélögum í landinu að fimm af nýkjörnum aðal- og varamönnum í sveitarstjórn gæfu kost á sér á framboðslista til setu á Alþingi. Eflaust er ekkert við það að athuga að fólk hafi metnað, en hvað með loforð um nýja tegund stjórnskipulags sem meðal annars byggir á því að tryggja áhrif íbúa jaðarbyggðum á nærþjónustu.

Þrátt fyrir að 16 mánuðir séu frá kosningum hefur enginn fundur verið í gamla Djúpavogshreppi hvorki á vegum sveitarstjórnar né heimastjórnar þar sem málefni samfélagsins hafa verið rædd eða kynning hafi farið fram á breyttum stjórnarháttum. Hvað þá breyting á þjónustu eða fyrirhugðum framkvæmdum í gamla Djúpavogshreppi. Þá hafa sveitarstjórnarmenn, fulltrúar í heimastjórn eða aðrir sem fara með málefni sveitarfélagsins ekki haldið almenna fund með íbúum.

Sameining á að styrkja sveitarfélögin

Ráðherra sveitarstjórnarmála hefur lagt mikla áherslu á sameiningu sveitarfélaga og þar með eflingu sveitarstjórnarstigsins. Nýlega tók þessi sami ráðherra sæti í nýrri ríkistjórn þar sem hann var þátttakandi í uppskiptingu ráðuneyta með fjölgun ráðuneyta úr 10 í 12 og þar með fjölgun opinberra starfsmanna, með tilheyrandi kostnaði fyrir þegna þjóðfélagsins.

Á þeim 16 mánuðum frá því að sameining sveitarfélagana undir merkjum Múlaþings tók gildi hefur störfum á vegum hins opinberra fækkað á Djúpavogi um 4-5. Þessi fækkun hefur áhrif á fjölskyldur, dregur úr þjónustu við íbúana og gerir vinnumarkaðinn á svæðinu einsleitari. Þjónusta s.s. póstþjónusta hefur hækkað um allt að 60%. Á árunum 2017-2021 hefur opinberum störfum fjölgað um 7.300 manns. Þá er ekki talið með þeir starfsmenn sem ný ráðuneyti kalla á. Það hljóta að vera ákveðin vonbrigði þeirra sem samþykktu sameiningu með efndir nýrrar sveitarstjórnar.

Höfundur er íbúi á Djúpavogi.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar