Var þetta bara misskilningur?

Þann 20.febrúar 2020 fylgdust margir íbúar með bæjarstjórnarfundi í Fjarðabyggð, ýmist á bæjarskrifstofunni eða í beinni útsendingu á netinu. Á fundinum var lögð fram bókun bæjarstjórnar þar sem fram kom meðal annars að bæjarfulltrúar væru sammála um að tryggja sundkennslu nemenda á Reyðarfirði fyrir vorönnina 2020. Þá var bókað að áætlað er að halda íbúafund á Reyðarfirði þann 5. mars nk. þar sem vinna skuli að uppbyggingu og framtíðarsýn íþróttamannvirkja á Reyðarfirði og þar á sérstaklega að horfa til aðstöðu til sundkennslu.

Á þessum íbúafundi þurfa skilaboð að vera skýr, skilaboð um aðstöðu til grunnmenntunar í bæjarkjarna Fjarðabyggðar sem hefur vaxið hvað mest og er líklegastur til að gera það áfram.

Í kjölfar bókunarinnar tóku bæjarfulltrúar til máls og þótti nokkrum þeirra nauðsynlegt að koma því á framfæri að íbúar Reyðarfjarðar hefðu misskilið minnisblað bæjarstjóra og þau gögn sem lágu til grundvallar bókun bæjarráðs þann 17.2.2020. Misskilningur sé að ákveðið hafi verið að loka sundlauginni á Reyðarfirði og keyra grunnskólabörnum í sundkennslu til frambúðar. Í minnisblaði bæjarstjóra kemur þó fram að kostnaður við að keyra nemendur grunnskólans á Reyðarfirði í sundkennslu t.d. á Eskifirði sé áætlaður á ársgrunni um kr. 13.000.000 auk starfsmannakostnaðar um kr. 1.700.000. Að auki sé árlegur sparnaður af því að loka lauginni um kr. 2.700.000. Í minnisblaðinu eru settir fram þrenns konar útreikningar: 1) Kostnaður við sundkennslu á Fáskrúðsfirði eða Eskifirði að vori, 2) Árlegur sparnað af því að starfrækja ekki sundlaugina á Reyðarfirði og 3) Sundkennslu allt árið á Fáskrúðsfirði eða Eskifirði.

Hvar misskilningurinn liggur er ekki ljóst.

Nú hefur ítrekað komið fram að afstaða bæjarstjóra er að íbúar Reyðarfjarðar eigi ekki möguleika á að hafa bæði íþróttahús og sundlaug í bæjarkjarnanum. Fyrst má vísa til minnisblaðs bæjarstjóra, sem olli meintum misskilningi íbúa Reyðarfjarðar og áður hefur verið nefnt, en í tveimur öðrum tilvikum hefur bæjarstjóri tjáð sig á þann hátt að ekki er um að villast.

Sama dag og fyrrnefndur bæjarstjórnarfundur var haldinn afhenti formaður foreldrafélags Grunnskóla Reyðarfjarðar bæjarstjóra undirskriftalista þar sem sem íbúar mótmæla áformum um lokun sundlaugarinnar. Slíkt tíðkast í lýðræðisríkjum (á Ísland) og er ein aðferð fólks til að láta skoðanir sínar í ljós og minna á að öll völd hins opinbera eiga uppruna sinn frá fólkinu. Skemmst er frá því að segja að við afhendingu listans brást bæjarstjóri ókvæða við, gerði lítið úr erindi formannsins og sagði að Reyðfirðingar yrðu að velja á milli þess að gera við sundlaugina eða fá nýtt íþróttahús.

Sláandi var að heyra bæjarstjóra tjá sig um málefni íþróttamannvirkja á Reyðarfirði í fréttatíma RÚV þann 22. febrúar 2020 þar sem hann sagði orðrétt: „ef Reyðfirðingar myndu kjósa það að, að í staðinn fyrir að laga íþróttahúsið að laga bara sundlaugina og setja pening í það þá er það kannski eitthvað sem að, ég meina, eins og ég segi það verður íbúafundur þar sem þetta verður skoðað.”

Ástandið á íþróttamannvirkjum á Reyðarfirði er neyðarlegt. Bæði skammarlegt og óviðunandi. Staðreyndin er sú að þegar sundlauginni er lokað og húsið nýtt sem íþróttahús er það of lítið fyrir þá kennslu og þjálfun sem fer þar fram. En íþróttamannvirkin á Reyðarfirði eru ekki bara sundlaugin og íþróttahúsið. Hér er líka Fjarðabyggðarhöllin. Það íþróttamannvirki var reist með það í huga að nýtast öllum íbúum Fjarðabyggðar. Fjarðabyggðarhöllin er hins vegar ekki hluti þess húsnæðis sem nýtist í grunnmenntun nemenda á Reyðarfirði þar sem aðstæður þar henta ekki til skólaíþrótta. Því er grundvallaratriði í samtalinu um uppbyggingu íþróttamannvirkja á Reyðarfirði að blanda Fjarðabyggðarhöllinni ekki inn í það. Bæta má við í þessu samhengi að í desember 2019 var Rafveita Reyðarfjarðar seld í skjóli nætur og Reyðfirðingum lofað að fjármunir sem fengust af sölunni myndu renna í uppbyggingu á Reyðarfirði, ekki annarra bæjarkjarna Fjarðabyggðar. Ein hugmyndin var að fjármunirnir myndu renna í uppbyggingu nýs íþróttahúss á Reyðarfirði og sérstaklega tekið fram að þeir myndu ekki renna í viðgerðir á Fjarðabyggðarhöllinni.

Í lokin vil ég benda á að í málefnasamningi meirihlutans er skýrt tekið fram að lögð skuli áhersla á aukið samráð við íbúa á sem flestum sviðum og þátttöku þeirra við forgangsröðun verkefna. Raunin er þó sú að Reyðfirðingar hafa nú endurtekið séð mikilvæg málefni unnin án þess að meirihlutinn hafi átt frumkvæði að samstarfi.

Samstaða íbúa Reyðarfjarðar hefur hins vegar lyft grettistaki og knúið fram opna umræðu um málefni íþróttamannvirkja á Reyðarfirði sem fara þá í framhaldinu samkvæmt bókun bæjarstjórnar, í eðlilegan farveg innan stjórnsýslunnar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.