Vatnajökulsþjóðgarður - umhverfi og samfélag

Þróunarfélag Austurlands mun stýra verkefninu Vatnajökulsþjóðgarður, umhverfi og samfélag, og vinna það í samvinnu við Atvinnuþróunarfélög Þingeyinga og Suðurlands. Unnin verður markviss stefnumótunaráætlun fyrir samfélagið í heild þar sem hugsað verður til framtíðar þjóðgarðsins en ekki síður samfélagsins í og við hann.

Unnin verður áætlun sem snýr að skipulagi og nýtingu svæðisins í heild. Stefnumótun sem lítur að því að samtvinna náttúruvernd og nýtingu í þjóðgarðinum og nærumhverfi hans er mikilvæg til að sem flestir hagsmunaaðilar geta staðið saman að uppbyggingu hans.

Þeir þættir sem áhersla verður lögð á eru: Nýtingarmöguleikar, samfélagið í þjóðgarði, atvinnuuppbygging og þar ekki síst uppbygging ferðaþjónustu og umhverfi þjóðgarða.

Nýtingarmöguleikarnir snúa að því hvernig hagsmunaaðilar geti haft sem mest gagn af því að hafa þjóðgarð í “bakgarðinum”. Hvernig geta og vilja t.d. ferðaþjónustuaðilar nýta sér þjóðgarðinn og hvað finnst íbúum mikilvægt varðandi nýtingu hans. Um leið og hagsmunaaðilar gera sér flestir grein fyrir því að umhverfi og náttúra séu í forgrunni þarf einnig að skoða uppbyggingu þjóðgarðsins með nýtingarmöguleika í huga.

Samfélagið í þjóðgarði. Í nærumhverfi þjóðgarðsins búa þúsundir manna, því hafa breytingar af völdum þjóðgarðsins áhrif á allt samfélagið. Skoða þarf hvaða breytingar af völdum þjóðgarðsins liggja þegar fyrir og hvers má vænta fyrstu árin og áratugina. Með góðum undirbúningi má fyrirbyggja vandamál og styðja við samfélagið á þann veg að þessi mikla breyting verði til góðs.

Atvinnuuppbygging í nærumhverfi þjóðgarðsins þarf að vera gerð með þarfir ferðamanna í huga annarsvegar og afkomumöguleika atvinnurekenda hinsvegar. Ferðamenn gera kröfur um þjónustu og afþreyingarmöguleika sem ekki er æskilegt að þjóðgarðsverðir eða aðrir aðilar á vegum hins opinbera í einhverri mynd hafi einvörðungu á sinni könnu. Slíka starfsemi verður að byggja upp í góðri samvinnu aðila innan og utan þjóðgarðs til að tryggja fjölbreytni, gæði, stuðning og stöðuga þróun.

Umhverfi þjóðgarða er mjög mismunandi. Aðgengi að og innan þjóðgarða er með ýmsum hætti, bæði í formi göngustíga og akbrauta. Að þessu þarf að huga út frá mörgum sjónarhornum, svo sem stefnu þjóðgarðsyfirvalda, fjölda ferðamanna og óskum annarra hagsmunaaðila í nær- og fjærumhverfi þjóðgarðsins.

Eins og sjá má eru hagsmunir nærumhverfisins umtalsverðir, því er mikilvægt að undirbúa og vinna með samfélaginu strax frá upphafi. Þróunarfélag Austurlands hefur því tekið af skarið og skipulagt verkefni sem tekur á þessum þáttum.

Markmið verkefnisins

Markmið verkefnisins er að styrkja íbúa, fyrirtæki og sveitarfélög til að nýta þá möguleika sem þjóðgarðurinn býður uppá til atvinnuuppbyggingar og lífsgæðaaukningar á umliggjandi svæðum. Þetta verður gert með því að undirbúa og setja fram stefnumótun á hlutlausan hátt sem getur nýst fyrrnefndum hagsmunaaðilum og stjórnendum þjóðgarðsins til jákvæðrar uppbyggingar á öllum sviðum innan og utan Vatnajökulsþjóðgarðar.

Niðurstöður verkefnisins verða til þess fallnar að gefa faglega, hlutlausa og skýra niðurstöðu þar sem byggt verður á þriggja ára vinnu. Markmiðið er eins og áður kom fram að niðurstaðan styðji við uppbyggingu þjóðgarðsins og nærumhverfis svo hann megi verða eins og best þekkist í heiminum bæði innan marka og utan. Eins og það er mikilvægt að vernda þetta sérstaka landslag er ekki síður mikilvægt að nota þetta tækifæri til að bæta hag íbúa og fyrirtækja á svæðinu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar