Vaxtarstyrkur til íþrótta- og tómstunda
Flestir hér á landi stunda eða hafa stundað einhverjar íþróttir eða tekið þátt í ýmiskonar tómstundarstarfi, t.d. skátunum, ýmsum boltagreinum, æfa á hljóðfæri, dans og fleira.Flestir landsmenn eru sammála um að enginn vafi leiki á um ágæti frístundaiðkunar og leggja beri áherslu á að tryggja öflugt íþrótta- og tómstundastarf um land allt. Einnig eru forvarnar- og lýðheilsugildi skipulagðra íþrótta- og tómstundahreyfinga viðurkennd, og þá sérstaklega þegar um er að ræða börn og unglinga.
Í dag neyðast margar fjölskyldur til að afskrá börnin sín úr skipulögðum frístundum vegna kostnaðar eða hafa ekki fjárhagslega burði til að skrá þau í frístundir. Til dæmis eiga margar ungar barnafjölskyldur erfitt með nauðsynlegar greiðslur t.d. námslán, íbúðarlán, fæðiskostnað, frístundarheimili eftir skóla, leikskólagjöld og fleira. Að greiða líka fyrir íþrótt eða tómstund getur leitt til fjárhagslegs ójafnvægis sem erfitt er að eiga við. Mörg sveitarfélög bjóða íbúum upp á frístundarstyrki. Hins vegar getur mikill mismunur verið á fjárhæð og fyrirkomulagi þeirra milli sveitarfélaga.
Framsókn boðar vaxtarstyrk
Framsókn vill að ríkið styðji við frístundaiðkun barna með árlegan 60 þúsund króna vaxtarstyrk til allra barna um allt land og lækka þannig útgjöld fjölskyldna vegna frístunda. Með vaxtarstyrk sem þessum er skref tekið í átt að jöfnum tækifærum til frístundaiðkunar óháð efnahag, sem tryggir það að fleiri börn hér á landi hafi tækifæri til að blómstra í þeirri frístund sem þau hafa mestan áhuga á og finna sig í, ásamt því að stuðla að kröftugum íþrótta- og tómstundahreyfingum um land allt.
Vaxtarstyrkur til allra barna
Rannsóknir hafa sýnt að skipulagt íþrótta- og tómstundastarf styrkir þroska barna, líkamlega og andlega, ýtir undir sjálfstæði þeirra og styrkir sjálfsmynd. Vaxtarstyrkur getur jafnað tækifæri barna til að njóta góðs af þátttöku í slíku starfi.
Þá kemur til álita hvernig dreifa eigi slíkum styrk á þann hátt að allar barnafjölskyldur fái hann úthlutaðan. Skoða þarf mögulegar leiðir til þess, en þær gætu til dæmis verið sambærilegar þeim leiðum sem farið var nú í viðbótarframlagi ríkisins til íþrótta- og tómstunda vegna Covid-19. Þar var smáforritið Sportabler nýtt með góðum árangri.
Höfundur skipar 5. sæti hjá Framsóknarflokknum í Norðausturkjördæmi.