Vegstyttingar eru ekki ógn heldur mikil tækifæri fyrir svæðið

Umhugsunarvert annars hvað miklar vegstyttingar geta lagst illa í menn. Vegstyttingar eru samt ein af helstu markmiðum samgönguyfirvalda og skýringin er einfaldlega sú að þær eru gerðar með hagsmuni hins almenna vegfarenda að leiðarljósi. Hagsmunir hins almenna vegfarenda hafa hinsvegar í alltof miklum mæli verið gerðir að algjöru aukaatriði í þeirri umræðu sem átt hefur sér stað að undanförnu um lausnir í samgöngumálum hér á Austurlandi.


Á Austurland að skera sig frá öðrum landshlutum að þessu leyti og hver eru þá rökin fyrir því? Það hefur hvergi verið sýnt fram á það að góðar samgöngubætur á einum stað skaði aðrar. Allar samgöngubætur eru einfaldlega af hinu góða.

Jarðgangaumræða á villigötum

Jarðgangaumræðan fer oft á mikið flug í þessum efnum og flestir vilja auðvitað fá jarðgöng en því miður líta sumir svo á að það sé bara formsatriði að panta þau. Þeir sem hafa kynnt sér hver staðan er í þeim málum vita hinsvegar hve gríðarlega langt er í að slíkar úrbætur séu til umræðu inn á þessu svæði okkar hér á suðausturlandinu miðað við allan þann biðlista jarðganga og forgangsröðun sem liggur nú á borðinu, Dýrafjarðargöng, Seyðisfjarðargöng, Lónsheiðargöng, Samgöng?

Alltof margir sem hafa veirð að tjá sig á opinberum vettvangi hafa því meira verið að leita að hindrunum þegar kemur að umræðu um Axarveg í stað þess að horfa á þau gríðarlegu tækifæri sem í þessum samgöngubótum eru fólginn fyrir allt svæðið. Það útilokar ekki jarðgöng einhverntíma í framtíðinni á svæðinu að gera heilsársveg um Öxi, það er bara svo gríðarlega langt í að þær lausnir liggi á borðinu.

Horfum á tækifærin í stað ógnana

Hugsið ykkur nú lesendur góðir hvað það eru mikil tækifæri í því fyrir Austurland og meðal annars skipuleggjendur ferðaþjónustu á svæðinu nú þegar á að fara að fljúga inn á Austurland með millilandaflugi og stórauka ferðamannastraum í leiðinni hvað það væri áhugavert og mikill styrkur í því að geta boðið upp á flottan hring kannski 3 - 5 tíma ferðalag um Öxi og firðina til baka í Egilsstaði eða öfugt. Heimsækja í leiðinni öll þorpin hér austur með fjörðum og eiga þess kost í leiðinni að sjá einstaka náttúrufegurð t.d. í Berufjarðardalnum niður af Axarvegi þar sem gefur á að líta einstakar fossaraðir og umhverfið allt þar í kring, auk þess hið fallega landslag sem gefur á að líta hér austur með öllum fjörðum. Auk þess sem ferðamenn munu nýta sér alla þá þjónustu sem þar er upp á að bjóða.

Það er gríðarlegur kostur að geta farið með ferðamenn í svona hring í stað þess að keyra fram og til baka sömu leið. Er því ekki orðið tímabært að fara að horfa á hina augljósu kosti með hagsmuni alls svæðisins að leiðarljósi. Hvernig væri nú að fara að horfa aðeins út fyrir kassann meðal annars í ljósi breyttra innviða á svæðinu og tækifæra sem bíða okkar á næstu árum.

Gefum þeim kost sem vilja stytta sér leið að gera það

Að sama skapi gefst þeim sem eiga bara erindi frá suðausturlandinu og norður og öfugt t.d. vinnutengdar ferðir og fl. færi á að stytta sér leið um 72 km. um Öxi allt árið og til þess þarf heilsársveg. Akkúrat þessi eftirspurn og þessi hópur gagnast engum nema þeim vegfarendum sem vilja stytta sér leið, þessu vilja menn líta fram hjá í umræðunni. Þessir sömu aðilar keyra heldur ekkert út á Djúpavog nema að þeir eigi þangað erindi, flóknara er nú ekki þetta dæmi og það sem meira er að við hér á Djúpavogi erum bara ekkert að sækjast eftir því að fá meiri umferð inn í bæinn sem á ekkert erindi og allra síst viljum við fá aukna trukkabílaumferð, enda er hún beinlínis samfélaglega fjandsamleg í of miklum mæli.

Samgöngubætur eru gerðar með hagsmuni vegfarenda í huga

Uppbygging samgöngumannvirkja eru því hér endurtekið fyrst og síðast fyrir almenna vegfarendur og það er okkar stóra verkefni að greiða leiðir þeirra sem mest best á milli staða og í því liggur mikill auðvitað gríðarlegur sparnaður að stytta vegalengdir allt árið eins og hér um ræðir, bæði fyrir viðkomandi vegfarendur og ekki síður ríkissjóð einnig. Vegstyttingar auka einnig mikið umferðaröryggi eins og endurtekið hefur komið fram, því eftir því sem þú situr skemur undir stýri þeim mun minni líkur eru á að þú lendir í slysi, það er nú ekki flóknara en svo. Heilsársvegur um Öxi verður sömuleiðis tryggari leið en keyrandi um skriður og fjallveginn Fagradal að samanlögðu.

Stöndum saman um verkefnin Austurlandi til heilla

Nú þegar hin stórkostlegu Norðfjarðargöng eru að verða að veruleika, og Fjarðarheiðargöng næst á dagskrá hér fyrir austan vil því hvetja alla austfirðinga að fara nú upp úr þessum skotgröfum sem menn hafa verið í of miklum mæli, ekki síst sveitarstjórnarsviðið sem og almenning og horfa heildstætt á hvað Austurlandi er fyrir bestu og styðja þannig allar samgöngubætur á svæðinu sem eru á dagskrá og taka höndum saman í þeim efnum einhuga. Það myndi stórauka trúverðugleika svæðisins í heild ekki síst gagnvart fjárveitingavaldinu og vera til þess fallið að hraða allri uppbyggingu samgöngubóta á svæðinu öllum til hagsbóta.

Áfram Austurland!

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar