Veiði í fargjaldafrumskóginum ekki gefin
Það tekur ávallt tíma fyrir flugfélög/ferðaskrifstofur að opna nýjar leiðir og innkomu á óþekkta ferðamannaslóð. Erlendir ferðamenn skipuleggja sín frí langt fram í tímann og erfitt er að raska því sem áður hefur verið planað. Það er því er óþarfi að örvænta strax um þessar niðurfellingar. Miklar væntingar voru byggðar upp og það skal þó fúslega viðurkennt, - það er súrt.
Hins vegar verður þess oft vart í nærumhverfinu, að verið er að bera saman flugferðir frá Keflavík á erlenda grundu, við reglubundið leiguflug frá Egilsstaðaflugvelli og finna að því hve dýrt er að fara frá Egilsstöðum.
Ávallt vantar inn í þennan samanburð, að það kostar talsvert að komast til Keflavíkur, jafnvel þó á eigin bíl sé, því það er meira en bensínið sem telur. Það verður að reikna inn í dæmið allan rekstur bílsins, þar með talið skoðanir, slit, tryggingar, afskriftir og fleira. Sá kostnaður er um 32 krónur á litlum, skuldlausum bíl, fyrir hvern ekinn kílómeter.
Í umræðunni virðist þessi þáttur aldrei vera inn í heildarkostnaðinum við ferðalagið. Fjármunir til ferðalaga innanlands og aukatími ferðalangsins, koma hér heildardæminu hreint ekkert við, eða það virðist a.m.k. vera bjargföst skoðun hjá ótrúlega mörgum. Merkilegir útreikningar það. Er einhver annar sem ber þann kostnað?
Æði oft lenda menn jafnframt í því, að auglýst lægsta verð flugfélags/ferðaskrifstofu er alls ekki í boði, þegar viðkomandi vill ferðast, hvað þá í báðum leiðum. Mikla fyrirhyggju þarf og langan fyrirvara til þess að komast í þessi ódýru sæti. Einn aukafrídagur tapast auk heldur við að ferðast landið á enda, til að komast í flug. Er sá dagur einskis virði?
Svo verður að hafa það í huga, að tilraunaverkefni í flugi milli landa inn á óþekkt svæði, getur aldrei keppt í verði við laggjaldaflugfélag á „feitum“ flugleiðum, - hvað sem síðar kann að verða. Erum við tilbúin að leggja eitthvað í „púkkið“ til að millilandaflug hingað verði annað en hugarflug?
Þegar kemur að ferðalögum milli landa, má segja að mjög óhagstætt sé að búa á landsbyggðinni, nánast sama hvar heimilið er. Ég sætti mig við þá mismunun vegna þess að aðrir kostir vega það upp og rúmlega það. Við, sem erum það ljónheppin að hafa farið í beinu flugi frá Egilsstöðum, skiljum verðið og viljum taka þátt í að koma verkefninu á.
Það eru ómæld þægindi að geta á nokkrum stundarfjórðungum, frá heimili sínu, vera komin á millilandaflugvöll. Það að komast af bæ og heim aftur, án þess að leggjast í langt ferðalag, ætti að vera gleðiefni allra á landsbyggðinni en ekki tilefni til að falla í þá gryfju að tala verkefnið í niður.
Menn verða einnig að hafa þann þroska, að sjá heildardæmið, ekki bara takmarkaðan fjölda tilboðssæta sem eru í boði. Tilboðssæti, sem eingöngu eru til þess fallin að vekja væntingar um ódýra utanlandsferð, sem oftar en ekki eru hillingar einar, þegar á reynir. Örtröðin á stórum millilandaflugvelli er svo kapítuli út af fyrir sig og því næst að þurfa að punga út summu fyrir farangur og tilheyrandi. Þessi misánægjulega upplifun er sjaldnast talin fram í útreikningi ferðalangsins.
Ég tók saman kostnað við ferð til Englands í sumar og bar sama nokkra valkosti fyrir tvo ferðalanga í millilandaflugi frá Austurlandi. Hagstæðasti kosturinn var með WOW-Air og þar gátu ferðalangarnir sparað heilar 5.239 IKR krónur á mann. Þá var ekki reiknaður tími farþeganna til og frá Keflavíkurflugvelli af Austurlandi. (Gagn að vinnuveitandi viðkomandi frétti ekki hve lágt menn meta eigin vinnu, þeir gætu farið fram á það sama í vinnutímanum, - annað er náttúrulega hrein mismunun.)
Ef menn hugsa allt dæmið til enda, sjá þeir að tilboð sumarsins frá Egilsstaðaflugvelli er ekki hátt, en þá verður að sýna þá lámarks sanngirni og taka alla þætti ferðalagsins inn í dæmið. Er það ekki heildarkostnaðurinn sem gildir?
Oft eru verð í fargjaldafrumskógi flugfélaga, sýnd veiði en ekki gefin.