Veitingastaðarekendur ánægðir með viðskiptin

Vertar á austfirskum veitingahúsum eru ánægðir með tekjur sumarsins. Erlendir ferðamenn virðast láta meira eftir sér í kjölfar gengisfalls íslensku krónunnar.

 

„Það er staðreynd að það er helmingi ódýrara fyrir Evrópubúa að versla á Íslandi í dag. Gestir tala um sanngjarnt verð frá því sem áður var,“ segir Þórir Stefánsson, hótelhaldari á Hótel Framtíð á Djúpavogi.

Velta Café Nielsen, Egilsstöðum jókst um 25% í júní og júlí miðað við í fyrra. Sigurdór Sigvaldason, veitingamaður, segist hafa orðið var við fleiri ferðamenn í júní og þeir hafi verið fyrr á ferðinni en undanfarin ár. Í júlí sé erfiðra að meta fjöldann þar sem full sé öll kvöld, eins og áður. Líkt og Þórir og fleiri hallast hann að því að gengisbreytingarnar séu ástæðan.

„Í fyrra kostaði 1/2 l bjór af dælu 10 evrur nú kostar hann 4,5 evrur. Miðað við veltuaukninguna, sem er 10-15% umfram verðhækkanir á matseðli, sést að viðskiptavinurinn er að kaupa meira en áður. Þetta merki ég sérstaklega í aukningu á seldu  víni með mat og aukningu á seldum eftirréttum. Það er algengara nú að viðskiptavinurinn kaupi þriggja rétta máltíð með víni heldur en áður.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar