Velkomin!... Ég heiti Jónína

Þegar ég flutti austur fyrir um 13 árum tók ég eftir því að mjög fljótt vissu allir hver ég var, fólk hvíslaði sín á milli, hnykkti hausnum í mína átt í samtölum við aðra og aðrir hreinlega bentu. Já, það er óhætt að segja að við sýnum nýjum íbúum áhuga hér fyrir austan.

Við spyrjumst fyrir um hagi þeirra, hvaðan þau koma og hvort þau eigi ættartengsl við svæðið. Mögulega hefur fólk verið í námi með einhverjum héðan eða kannski búið hér áður, kannski voru ömmur þeirra bræður og áttu hesta í sömu girðingu, þetta þarf nú allt að grafa upp.

Ég gleymi því ekki þegar ég og maðurinn minn fórum að rugla reitum og fórum á ball saman. Til hans kom fullt af fólki og ræddi við hann um ýmislegt eins og gengur og gerist, hann benti þeim á nýju frúnna og þau gáfu blessun sína.

Daginn eftir talaði hann um hvað þetta fólk hefði nú sagt honum í fréttum, hvernig þeim hefði litist á mig og hvort þau hefðu jú einhverjar tengingar við mig eða höfðu heyrt af mér.

Á sama tíma gat ég ómögulega áttað mig á hver þau væru, enda hafði ég ekki verið kynnt fyrir neinu þeirra.

Við gerum þetta og ég tek fullan þátt í því í dag. Nýlegt dæmi er þegar ég var í sundi í vikunni, þar komu hjón með börn á áþekkum aldri minna barna. Ég snéri mér strax að vini mínum og spurði hver þetta væri og komst að sannleika málsins, nýlega aðflutt.

Ég hefði betur kynnt mig fyrir þeim sjálf. „Sæl ég heiti Jónína, vertu velkominn í samfélagið okkar! Er búið að setja ykkur í allar Facebook-grúppur sem þið þurfið til að lifa af hér á Austurlandi? Ég skal gefa ykkur tips“

Upplýsingar um allt sem tengist öllu á Austurlandi má finna í Dagskránni eða í Facebook grúppu. Ég hef talsverða innsýn inn þessi fræði, Seyðfirðingar eru til að mynda með 3 eða 4 grúppur fyrir mismunandi samtöl á meðan Egilsstaðabúar láta allt flakka í íbúagrúppunni. Það sem er þó galli er að við erum ekki dugleg að benda á þessar grúppur. Íþróttafélög nýta sér þessar grúppur mikið en hafa haft mismikið fyrir því að tilkynna foreldrum það.

Í fyrra átti ég samtal við nýja íbúa í heita pottinum og áttaði mig á því að þau höfðu verið plötuð. Jú, það var búið að plata þau til að taka vaktir þarna eina helgina og þau játtu því vitaskuld enda bóngóð. Kom svo í ljós að um var að ræða Þorrablótshelgina og ég hugsað nú með mér að þetta hefði verið illa gert, það hefði verið betra fyrir þau að komast á blótið og kynnast okkur betur.

Ég held að almennt stöndum við okkur vel í að bjóða nýja íbúa velkomna, en við getum alltaf bætt okkur. Við eigum vitaskuld að rétta fram spaðann, kynna okkur og athuga hvort það viti ekki allir af þeim Facebook-grúppum sem skipta máli – eða ekki máli og hvort fólk stefni ekki á að koma á Þorrablót, þegar við getum loksins farið á þau á ný.

Höfundur er íbúi

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar