Verðum að efla aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu

Nú í haust var viðtal við Landlækni um sjálfsvíg og tengdist það umræðum um tvö sjálfsvíg sem áttu sér stað á geðdeild Landspítalans. Var helst að skilja á honum að það væri lítið við sjálfsvígum að gera, þau hefðu alltaf fylgt okkur og hlutfallslega lítið fjölgað frá því að farið var að skrá sjálfsvíg á Íslandi skömmu eftir 1900. Þessi ummæli stuðuðu mig illilega sem nýverið hafði misst son í sjálfsvígi.

Hvaða tilgangi þjónar svona umræða og hvaða vígi er landlæknir að verja? Ég get svo sem vel skilið að það stressi menn upp að þurfa að sitja undir ummælum um hörmulega stöðu geðheilbrigðismála í landinu og hafa engin vitræn svör í farteskinu. Við eigum heimsmet í notkun geðlyfja en samt snarfjölgar þeim sem telja andlega líðan sína sæmilega eða lélega. Fyrir 10 árum síðan töldu tæplega tuttugu prósent ungra karlmanna á aldrinum 18-26 ára andlega líðan sína sæmilega eða lélega en núna um fjörutíu prósent. Aðeins skárra er þetta hjá ungum konum á þessum aldri en hlutfallsleg aukning er sú sama.

Þessi staða er svo grafalvarleg að við verðum að setjast niður og kafa ofan í það hvað það er sem veldur. Á sama tíma skorum við landa hæst í lífshamingju. Eitthvað er hér sem passar ekki saman. Hvað hefur breyst á þessum síðustu tíu árum? Augljóst í mínum huga er að skoða áhrif samfélagsmiðla en þetta er einmitt þeirra tímabil. Það lítur kannski vel út að eiga þúsund vini á Facebook en væri kannski betra að eiga nokkra raunverulega vini sem þú hittir reglulega þar sem málin eru rædd, augliti til auglitis, en ekki í gegnum eitthvert tæki þar sem raunveruleikinn er oft skrumskældur? Er aukin pressa á ungu fólki í gegnum öll þessi „sýndar“ samskipti? Þú setur eitthvað inn á netið og bíður svo yfirspenntur eftir því hvað öðrum finnst. Hvað færðu mörg „like“ á nýja „prófílinn“ þinn. Sæta, sæta! Krúttið mitt! Gordjöss! Jafnvel þó að allir sjái að myndin hefur verið lagfærð í forriti eða þú í þínu flottasta pússi á vel heppnuðu augnabliki. Væri ekki betra að hitta vin sem segir við mann: „Þú lítur vel út í dag.“ Eða það sem gæti reynst manni jafnvel enn betur: „Ósköp ertu eitthvað niðurdreginn, er eitthvað að? Eigum við að ræða málin? Er eitthvað sem ég get gert?“

Kunnum við að biðja um hjálp? Ég held ekki. Íslendingar eru kenglokaðir, setja bara undir sig hausinn og þumbast áfram. Loka á allar tilfinningar, nema þegar þeir eru komnir á þriðja bjór. Þá opnast allar flóðgáttir himins en það er bara svo fjandi takmarkað sem það skilar, nema kannski enn verri líðan daginn eftir.

Umræðan um stöðu geðheilbrigðismála og sjálfsvíga verður að færast upp á annað plan. Komast af plani landlæknis og varnarumræðu heilbrigðiskerfisins. „Við eigum ekki peninga.“ Kjaftæðið þarf að fara úr umræðunni. Þetta snýst nefnilega ekki um peninga heldur nýtingu á þeim. Geðlyf, tapaðar vinnustundir og töpuð mannslíf kosta stórfé. Bretar hafa fundið út að fyrir hvert pund sem þeir setja í geðheilbrigðismál koma 4-7 pund til baka. Það kallast ofsa-gróði. Þetta er jafnvel eitthvað sem íslenskir peningamenn gætu hugsanlega skilið. Þetta gætu jafnvel heilbrigðisyfirvöld líka skilið í stað þess að væla endalaust um skort á fjármagni. Það vita flestir sem eitthvað hafa kynnt sér þessi mál að það að moka geðlyfjum í fólk án hugrænnar atferlismeðferðar skilar litlum sem engum árangri. Samt hefur hingað til aðeins lítill hluti af samtalsmeðferðum farið fram innan heilbrigðisgeirans með eðlilegri greiðsluþátttöku ríkisins.

Sálfræðingar í landinu eru alltof fáir og geðlæknar yfirkeyrðir á álagi. Fólk á stærstum hluta landsbyggðarinnar hefur ekkert aðgengi að geðlæknum nema að fara fjórðunga á milli. Aðgengi að sálfræðingum er varla hægt að segja að sé til og kunnátta almennra lækna á sviði geðrænna vandamála afar takmörkuð. Eftirfylgni með notkun geðlyfja er nánast engin. Í fréttum nýverið var sagt frá því að það eigi á næstunni að leggja niður eftirfylgniteymi heilsugæslunnar á höfuðborgarsvæðinu fyrir fólk með geðræn vandamál. Þetta er algerlega á svig við þá umræðu sem verið hefur í tengslum við nýafstaðnar kosningar. Enn og aftur fara ekki saman orð og æði ríkisvaldsins.

Við verðum að standa saman og berjast fyrir því að gert verði stórátak í geðrænum vandamálum þjóðarinnar. Sjálfsvíg er algengasta dánarorsök ungra íslenskra karlmanna, samt gerum við ekkert í málunum. Næsta grein mín mun einmitt fjalla um þann þátt mála.

Meðfylgjandi er ljóð sem Ragna Dögg, dóttir mín, samdi og mér fannst passa vel við greinina.

Ertu veikur?
(Um geðheilbrigðiskerfið á Íslandi. Hugsað sem samtal læknis við sjúkling, nánar tiltekið litla bróður minn og alla aðra sem hafa verið í sömu sporum. Það er nefnilega ekki sama hvað er brotið.)

Sestu hjá mér vinur og segð´ mér hvað er að
er eitthvað í þér brotið,
á ég að laga það

Er það kannski handleggur, fótur eða tá
eða er það eitthvað alvarlegt
sem enginn fær að sjá

Er það kannski svartnættið sem nagar þína sál
er gleðin þín að dofna
og þitt innra bál

Ertu kannski hræddur og uppfullur af ótta
hrjá þig erfiðar hugsanir sem
reka þig á flótta

Er það ekki handleggur, fótur eða tá
Er það brotin geðheilsa
sem bata þarf að fá

Þá vandast okkur málin, vinur minn kær
en ég get gefið þér töflur
hér eru þær.

Með kveðju frá Seyðisfirði.
Ólafur Hr. Sigurðsson íþróttakennari

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.